Mannréttindaráð
JAFNRÉTTISNEFND
Ár 2001, fimmtudaginn 17. maí, var haldinn 220. fundur jafnréttisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12. Viðstaddir voru: Kristín Blöndal, Hrannar B. Arnarsson, Kjartan Magnússon og Svanhildur Þ. Valsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram endurskoðuð drög að skýrslu um árangur jafnréttisáætlunar 1996-2000. Nefndin lýsir yfir mikilli ánægju með skýrsluna og færir jafnréttisráðgjafa sérstakar þakkir fyrir ómetanlegt framlag hennar til þess góða árangurs sem þar kemur fram.
2. Fjallað um tillögu að ályktun um vændi sem lögð var fram á síðasta fundi. Tillagan er samþykkt, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá. Þeir óska bókunar sem er svohljóðandi:
Í nýútkominni skýrslu um vændi kemur fram að það á sér stað á Íslandi og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Samkvæmt skýrslunni fyrirfinnst vændi á einhverjum nektardansstöðum en einnig á götum úti, í hótelum, gistihúsum, sérstökum vændishúsum og í heimahúsum. Í niðurlagi skýrslunnar segir að vændi birtist í mörgum myndum og nær ómögulegt sé að festa hendur á öllum þeim mismunandi aðstæðum og stöðum á Íslandi þar sem vændi fer fram. Enn sé mörgum spurningum ósvarað og muni áframhaldandi rannsóknir á viðfangsefninu gefa frekari svör. Í skýrslunni segir að vísbendingar séu um að fram fari skipulagt vændi á þremur nektardansstöðum í Reykjavík af sjö eða átta. Það getur orkað tvímælis að borgaryfirvöld skeri upp herör gegn öllum slíkum stöðum á þeirri forsendu að vændi kunni að eiga sér stað á nokkrum þeirra. Óljóst er hvaða afleiðingar slíkar aðgerðir hefðu í för með sér. Ólíklegt er að þau vandamál sem fylgja vændi myndu hverfa í einni svipan með slíkum aðgerðum en sá möguleiki er fyrir hendi að það myndi þá einungis færast neðar í undirheimana með enn meiri hörku og hafa enn fleiri óæskileg vandamál í för með sér. KM SÞV
3. Formaður greindi frá að ráðstefnuna Konur og Lýðræði í Vilníus í júní næstkomandi sækja jafnréttisráðgjafi og Kristín Blöndal sem fulltrúi borgarstjóra.
Fundi slitið kl. 13.00.
Kristín Blöndal
Hrannar B. Arnarsson Kjartan Magnússon