Mannréttindaráð
Jafnréttisnefnd
Ár 2001, mánudaginn 8. janúar, var haldinn 216. fundur Jafnréttisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Kristín Blöndal, Anna Kristinsdóttir, Hrannar B. Arnarsson, Kjartan Magnússon og Svanhildur H. Valsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fjárhagsyfirlit ársins 2000. Jafnréttisráðgjafi lagði fram yfirlit ársins.
2. Styrkumsóknir vegna 2001, sjá fundargerð síðasta fundar. Einnig lögð fram umsókn frá Bríeti v/gerðar heimildarmyndar, kr. 2.127.945, sbr. minnisblað jafnréttisráðgjafa, dags. 8. janúar 2001. Teknar fyrir umsóknir, sem frestað var á síðasta fundi:
1. Umsókn Átaks til verndar mannréttindum, kr. 150.000. Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
2. Umsókn frá Bjarka Má Magnússyni til ritunar bæklings um föðurhlutverkið. Hafnað með öllum greiddum atkvæðum.
3. Lögð fram umsókn frá Félagi ábyrgra feðra um rekstrarstyrk að upphæð kr. 300.000. KM og SHV lögðu til að félagið verði styrkt um kr. 100.000 til útgáfu bæklings til upplýsingar um félagið. Formaður lagði fram breytingartillögu um að framlag jafnréttisnefndar verði í formi samstarfsframlags en ekki styrks. Breytingartillagan samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu. Tillagan í heild skoðast því samþykkt.
Kjartan Magnússon og Svanhildur H. Valsdóttir óskuðu bókað:
Við hörmum að meirihluti jafnréttisnefndar skuli hafna 100.000 kr. styrkveitingu til Félags ábyrgra feðra vegna útgáfu bæklings. Slík styrkveiting hefði ekki komið í veg fyrir að félagið ætti samstarf við jafnréttisnefnd um útgáfu bæklingsins ef vilji væri fyrir því. Óeðlilegt er hins vegar að gera það að skilyrði fyrir slíkum styrk að félagið eigi samstarf við nefndina um útgáfuna.
Kristín Blöndal, Hrannar B. Arnarsson og Anna Kristinsdóttir óskuðu bókað:
Það er leitt að fulltrúar sjálfstæðismanna kjósi að misskilja tillögu meirihlutans og leggjast gegn því að Félagi ábyrgra feðra verði veittur styrkur úr samstarfssjóði.
Kjartan Magnússon og Svanhildur H. Valsdóttir óskuðu bókað:
Það eru rangfærslur að fulltrúar sjálfstæðismanna séu mótfallnir því að Félag ábyrgra feðra eigi samstarf við jafnréttisnefnd. Við ítrekum þá skoðun okkar að beinn styrkur til útgáfu bæklings hefði verði heppilegri og félaginu yrði þannig í sjálfsvald sett hvort það ætti samstarf við nefndina um útgáfuna eða ekki.
4. Lögð fram umsókn Félags um Maríusetur. Formaður leggur til 100.000 kr. styrk. Samþykkt með þremur greiddum atkvæðum.
5. Lögð fram umsókn KRFÍ um styrk til gerðar fræðsluefnis. Hafnað með öllum greiddum atkvæðum.
6. Lögð fram umsókn frá Bríeti um styrk vegna gerðar heimildarmyndar um Rauðsokkahreyfinguna, kr. 2.127.945. Afgreiðslu frestað.
3. Lögð fram svör við fyrirspurn jafnréttisráðgjafa, dags. 27. nóvember 2000, um launakönnun frá forstöðumanni kjaraþróunardeildar, dags. 12. desember 2000, og Helgu Jónsdóttur, borgarritara, dags. 16. desember 2000.
4. Jafnréttisráðgjafi lagði fram lokaskýrslu Norræna samþættingarverkefnisins á Íslandi og gerði stuttlega grein fyrir helstu niðurstöðum.
5. Jafnréttisráðgjafi kynnti boðsbréf bresku ríkisstjórnarinnar, dags. 14. desember 2000, til jafnréttisráðgjafa á International Worklife Summit í London í mars 2001.
6. Jafnréttisráðgjafi lagði fram til kynningar ritið Jafnréttishandbók fyrir starfsfólk skóla, sem kom út í desember s.l. en jafnréttisráðgjafi átti sæti í starfshópi sem vann að gerð bókarinnar auk þess sem jafnréttisnefnd hefur styrkt gerð námskeiðs á grundvelli hennar, ætlað kennurum við grunnskóla Reykjavíkur.
7. Kjartan Magnússon lagði fram fyrirspurn um risnukostnað jafnréttisnefndar.
Fundi slitið kl. 14.15
Kristín Blöndal
Anna Kristinsdóttir Hrannar B. Arnarsson
Svanhildur H. Valsdóttir Kjartan Magnússon