Mannréttindaráð
Ár 2017, þriðjudaginn 12. desember var haldinn 208. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.15. Fundinn sátu Elín Oddný Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Arnaldur Sigurðarson, Björn Gíslason, Magnús Sigurbjörnsson, Magnús Már Guðmundsson, Diljá Ámundardóttir og Jóna Björg Sætran. Einnig sátu fundinn Anna Kristinsdóttir og Elísabet Pétursdóttir, sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Tilkynnt að mannréttindaskrifstofa hafi hlotið Kærleikskúluna 2017, viðurkenningu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, fyrir verkefnið notendaráð fatlaðs fólks.
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttindaráð óskar Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og notendaráði fatlaðs fólks til hamingju með þá viðurkenningu að hljóta Kærleikskúluna 2017. Mannréttindaskrifstofan hlaut viðurkenninguna vegna tilraunaverkefnis um notendaráð fatlaðs fólks. Um nýja nálgun er að ræða við starfssemi notendaráða sem ber að starfa samkvæmt lögum. Með verkefninu er sýndur mikilsverður skilningur og vilji til að tryggja að raddir fatlaðs fólks heyrist í samfélaginu. Í umsögn dómnefndar kemur fram að verkefnið gæti orðið öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar varðandi notendasamráð. Verkefnið er í anda bæði mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mannréttindaráð hlakkar til að fylgjast með framvindu þessa mikilvæga verkefnis og óskar öllum hluteigandi til hamingju með þessa viðurkenningu.
2. Lögð fram að nýju umsókn til mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um skyndistyrk:
Samþykkt að veita umsókninni Raust – róttæk hausthátíð, styrk að upphæð 150.000,-
3. Fram fer kynning á styrkumsóknum mannréttindaráðs Reykjavíkur sem verða til afgreiðslu í janúar.
4. Fulltrúar sjálfstæðisflokksins, Magnús Sigurbjörnsson og Björn Gíslason, leggja fram svohljóðandi tillögu:
Mannréttindaráð fagnar stefnu nýrrar ríkisstjórnar í hinsegin málum. Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks. Í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
Mannréttindaráð hvetur nýja ríkisstjórn til að ganga hratt frá þeirri löggjöf enda á Ísland að vera fremst í flokki á heimsvísu í réttindabaráttu hinsegin fólks og hefur Ísland dregist aftur úr í alþjóðlegum samanburði á réttindum hinsegin fólks.
Frestað.
Fundi slitið kl. 13.47
Elín Oddný Sigurðardóttir
Björn Gíslason Sabine Leskopf
Arnaldur Sigurðarson Magnús Sigurbjörnsson
Magnús Már Guðmundsson Diljá Ámundardóttir