Mannréttindaráð - Fundur nr. 19

Mannréttindaráð

Ár 2008, 22. desember kl. 8.30 var haldinn 19. fundur mannréttindaráðs Grand Hótel við Aðalstræti. Þá voru mætt: Marta Guðjónsdóttir formaður, Björn Gíslason, Salvör Gissurardóttir, Zakaria Elias Anbari , Jóhann Björnsson, Felix Bergsson, Valgerður, Falasteen Abu Libdeh og Ásta Þorleifsdóttir áheyrnarfulltrúi. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri, Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem ritaði fundargerð, Íris Björk Kristjánsdóttir og Emilía Sjöfn Kristinsdóttir starfsmenn mannréttindaskrifstofu.

Þetta gerðist:

1. Styrkbeiðni að upphæð 200.000 vegna verkefnisins jafnréttisfræðsla í skólum. Tillagan samþykkt.

2. Samningur vegna Brautagengisverkefnis. Tillaga um að gera upp kostnað vegna þátttöku 25 reykvískra kvenna fyrir árið 2008 og að Mannréttindastjóra verði falið að gera samning vegna ársins 2009 vegna þátttöku 25.kvenna að hámarki. Tillagan samþykkt.

3. Styrkbeiðni frá neyðarstjórn kvenna. Salvör Gissurardóttir víkur af fundi undir þessu lið.
Bókun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð telur verkefnið þarft og lofi góðu.Meirihluti ráðsins telur ekki fært að styrkja verkefnið að sinni en óskar þess að fá að fylgjast með framvindu þess.
Bókun fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs:
Undanfarnar vikur hefur fjöldi fólks úr öllum flokkum og einnig óflokksbundið líst því yfir að nauðsynlegt sé að endurmeta þau samfélagsgildi og það siðferði sem ríkjandi hefur verið undanfarin ár í íslensku samfélagi. Meginkrafan hefur verið sú að styrkja beri lýðræðið í landinu, ábyrgð og heilindi stjórnamálamanna, forystufólks stofnana og fyrirtækja og fjölmiðlamanna. Margir hafa mótmælt á götum úti og því miður hafa sumir gengið of langt og viðhaft skemmdarverk. Það er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið að það séu til hópar og samtök sem veita forystufólki í stjórnmálum, fyrirtækjum og fjölmiðlum aðhald og hefur það sýnt sig í sögunnar rás að slíkt er beinlínis nauðsynlegt almennum lýðréttindum. Það er mjög mikilvægt á þeim tímum sem við lifum að hópar séu starfandi sem veita þeim sem valdið hafa aðhald, starfi á friðsaman hátt og haldi í heiðri leikreglum lýðræðis og viðhafi ekki skemmdarverk. Með því að styrkja samtök eins og Neyðarstjórn kvenna sem starfa þvert á flokkspólitískar línur og veita þeim sem völdin hafa aðhald er Mannréttindaráð að leggja sitt af mörkum í því að styrkja lýðræðið í landinu, rökræður um siðferðileg- og samfélagsleg gildi og rétta fram sáttahönd sem eykur líkur á því að mótmælendur komi kröfum sínum fram af heilindum. Slíkt er í þágu almennra mann- og lýðréttinda á Íslandi og eflir þá siðferðilegu umræðu um endurmat lífsgilda á Íslandi sem er nauðsynlegt.

Fundi slitið kl. 10.00

Marta Guðjónsdóttir

Salvör Gissurardóttir Jóhann Björnsson
Zakaria Elias Anbari Falasteen Abu Libdeh
Björn Gíslason Salvör Gissurardóttir