Mannréttindaráð - Fundur nr. 19

Mannréttindaráð

Ár 2025, fimmtudaginn 27. nóvember var haldinn 19. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.03. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Ellen J. Calmon, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Kjartan Jónsson og Ásrún Kristjánsdóttir. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks: Katarzyna Kubiś, Hallgrímur Eymundsson, Hlynur Þór Agnarsson og Áslaug Inga Kristinsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ingólfur Már Magnússon, Þorkell Sigurlaugsson og Friðjón R. Friðjónsson. Einnig sat fundinn eftirfarandi starfsfólk: Aðalbjörg Traustadóttir og Valgerður Jónsdóttir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Samþykkt að taka á dagskrá til framlagningar tilnefningu ÖBÍ dags. í dag, um að Áslaug Inga Kristinsdóttir taki sæti í mannréttindaráði sem fulltrúi samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks, í stað Sigurbjargar Helgu Sigurgeirsdóttur sem tekur sæti sem varafulltrúi í stað Gísla Jónassonar. MSS22070012

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning umhverfis- og skipulagsviðs á forgangsröðun vetrarþjónustu. MSS23100011

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið þakkar góða kynningu á vetrarþjónustu borgarinnar og fína yfirferð á henni í Borgarvefsjá. Ljóst er að unnið er ötullega að því að bæta þjónustuna þar sem áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir til dæmis til að koma í veg fyrir ófærð vegna hálku eða snjókomu. Aðgerðir, mönnun, tækjakostur og svæði eru í stöðugri endurskoðun sem er vel.

  3. Kynningu um framkvæmdir við Korpuskóla og flutningur Klettaskóla, er frestað. MSS25110008

    -    Kl. 13.57 víkur Ásrún Kristjánsdóttir af fundinum og Magnea Gná Jóhannsdóttir tekur sæti. 

  4. Lagt fram fundardagatal mannréttindaráðs vor 2026. MSS25030087

    -    Kl.14.10 víkja af fundinum eftirfarandi fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks; Katarzyna Kubiś, Hlynur Þór Agnarsson, Hallgrímur Eymundsson, Áslaug Inga Kristinsdóttir og Ingólfur Már Magnússon aftengist fjarfundarbúnaði. Eftirfarandi starfsmaður víkur af fundinum; Aðalbjörg Traustadóttir.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu dags. 17. nóvember 2025, um kynningu á stöðu aðgerðaráætlunar Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023 -2026. MSS23010102

    Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
        
    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar fyrir kynningu á stöðu aðgerðaráætlunar Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023 -2026. Aðgerðaráætlunin er send til umræðu í borgarstjórn líkt og kveðið er á um í 13. gr. laga stjórnsýslu jafnréttismála.

    -    Kl.14.30 taka sæti á fundinum áheyrnarfulltrúar í málefnum innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn; Marion Poilvez og Milan Chang Gudjonsson. Eftirfarandi starfsmaður tekur sæti á fundinum; Íris Björk Kristjánsdóttir.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning Kvennaathvarfs á stöðu kvenna af erlendum uppruna. MSS25080032

    Linda Dröfn Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar kynningu á stöðu erlendra kvenna í Kvennaathvarfinu þar sem fram kom að 75% þeirra kvenna sem dvelja í athvarfinu eru af erlendum uppruna en aðrar konur nýta sér frekar viðtalsþjónustuna. Þá virðist vera meira þol fyrir því að flóttakonur sem verða fyrir ofbeldi megi bíða. Sýslumaður býður ekki upp á túlkaþjónustu og því er þekkt að konur eru þar að skrifa undir samkomulög sem þær ekki skilja til fullnustu. Konur í ofbeldissamböndum fá oft rangar upplýsingar frá maka og óttast að vera sendar úr landi eða börnin verði tekin af þeim leiti þær sér hjálpar. 30% kvenna af erlendum uppruna snúa aftur til gerenda en 11% annarra kvenna. Þá er brýnt að sálfræðiþjónusta sé í boði og að tryggt sé að félagsþjónusta leiðbeini og aðstoði innan kerfis. Ráðið skorar á að veitt verði gjaldfrjáls lögfræðiráðgjöf hjá nýrri Mannréttindastofnun Íslands líkt og Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur veitt hingað til og að túlkaþjónusta sé veitt hjá Sýslumanni.

    Samþykkt að senda bókun mannréttindaráðs til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og Mannréttindastofnunar Íslands.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um Leikskólaleið Reykjavíkurborgar, umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla. MSS25050076

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráðið þakkar Samtökum kvenna af erlendum uppruna fyrir virka þátttöku í samráði um tillögur til að bæta starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar. Það er svo sannarlega mikilvægt að taka tillit bæði til foreldra af erlendum uppruna með takmarkað bakland og starfsfólks af erlendum uppruna sem vinnur mikilvægt starf í leikskólum borgarinnar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks taka undir áhyggjur W.O.M.E.N. sem koma fram í umsögn þeirra við leikskólaleið meirihluta vinstri flokkanna í Reykjavík. Hætta er á að byrðar á herðum þeirra sem síst mega við því, aukist. Foreldrar af erlendum uppruna með lítið bakland er sérstakur áhættuhópur og enn frekar einstæðar mæður af erlendum uppruna.Hvatakerfi sem byggjast á því að foreldrar geti sótt börn klukkan tvö á föstudögum eða skipulagt allt skólaárið í september gagnast fyrst og fremst þeim sem þegar hafa meiri sveigjanleika. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða tillögurnar í heild og tryggja að umbætur í leikskólum verði ekki fjármagnaðar með auknu álagi á barnafólk í Reykjavík.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um frumvarp til laga um brottfararstöð mál nr. S-193/2025. MSS25110097

    Áheyrnarfulltrúi Samtaka kvenna af erlendum uppruna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Markmið samtakanna W.O.M.E.N. er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi á öllum sviðum þjóðlífsins, óháð ríkisfangi og búsetustöðu þeirra. Samtökin fordæma frumvarp um brottfararstöð vegna þeirra skelfilegu afleiðinga sem það mun hafa fyrir konur og alla íbúa. Samtökin benda sérstaklega á eftirfarandi: ekkert jafnréttismat hafi verið framkvæmt um áhrif sem lögin hafa á stöðu kynjanna. Frumvarpið er skrifað með kynhlutlausu orðalagi, þar sem „útlendingur“ er ókyngreint og „karlkyns“ viðfang. Ekki er tekið tillit til sérstakrar stöðu kvenna á flótta sem eru að flýja og hafa upplifað kynbundið ofbeldi (stríð, mansal, kynbundin kúgandi lög). Frumvarpið heimilar valdbeitingu gegn konum. Það veitir lögreglunni eða öðrum aðilum umfangsmikið vald til að taka ákvarðanir um að svipta konur frelsi eða refsa þeim, án dómsúrskurðar, án réttar til að mótmæla ákvörðuninni og án eftirlits óháðra eftirlitsaðila. Frumvarpið mun hafa áhrif á íbúa Reykjavíkurborgar, sérstaklega börn og kennara sem munu lifa í ótta við að börn í bekknum verði tekin með valdi og fangelsuð ásamt fjölskyldum þeirra. Frumvarpið er bakslag fyrir kvenréttindi á Íslandi. Samtökin hvetja borgina til að beita sér fyrir mannréttindum, senda umsögn og standa með íbúum hennar.

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar samstarfsflokka þakka Samtökum kvenna af erlendum uppruna fyrir þessa brýningu. Það er svo sannarlega hlutverk borgarinnar að vera leiðandi í samtali um mannréttindi allra en gera þarf ráð fyrir að mörg þeirra sem yrðu frelsissvipt og vísað í brottfaraúrræði, eru nú búsett í borginni. Sérstaklega þarf að huga að mannréttindum kvenna og barna á flótta en rannsóknir gefa skýrt til kynna að flestar konur á flótta hafa upplifað kynbundið ofbeldi á flóttanum. Þá er ljóst að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður skýrt á um að hagsmunir barna skuli ávallt vera í fyrirrúmi þegar gripið er til jafn íþyngjandi aðgerða eins og um ræðir í umræddu frumvarpi.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka Samtökum kvenna af erlendum uppruna fyrir þeirra brýningu. Mikilvægt er að mannréttindi fólks séu leiðarljós stjórnvalda þegar teknar eru ákvarðanir um að koma á fót úrræðum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Sérstaklega þarf að huga að mannréttindum barna á flótta en það sem er börnum fyrir bestu er leiðarljós bæði íslenskra löggjafar og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ákvarðanir sem varða börn skulu vera byggðar á hagsmunum þeirra.

    -    Kl. 16.10 víkja af fundinum eftirtaldir áheyrnarfulltrúar í málefnum innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn; Marion Poilvez og Milan Chang Gudjonsson. Eftirfarandi starfsmaður víkur af fundinum; Íris Björk Kristjánsdóttir. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu dags. 11. nóvember 2025, um drög að uppfærðum reglum mannréttindaráðs um styrki. MSS25110026
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Framsókn leggur til að mannréttindaráð samþykki að óska eftir því við velferðarráð að Reykjavíkurborg greiði fyrir skólaakstur reykvískra barna sem dvelja í Kvennaathvarfinu fjarri heimili sínu. Gert er ráð fyrir að útfærslan sé á höndum velferðarsviðs í samvinnu við Kvennaathvarfið. Í Kvennaathvarfinu dvelja mörg börn á hverjum tíma með mæðrum sínum, en athvarfið er oft staðsett langt frá heimaskólum barnanna. Ekki hafa allar mæður aðgang að bíl eða tök á að koma börnum sínum í skóla. MSS25110132

    Frestað.

    -    Kl. 16.24 víkur Kjartan Jónsson af fundinum. 

Fundi slitið kl.16.27

Sabine Leskopf Ellen Jacqueline Calmon

Einar Sveinbjörn Guðmundsson Friðjón R. Friðjónsson

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorkell Sigurlaugsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 27. nóvember 2025