Mannréttindaráð - Fundur nr. 16

Mannréttindaráð

Ár 2025, fimmtudaginn 16. október var haldinn 16. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarráði og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Guðný Maja Riba, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Björn Gíslason og Friðjón R. Friðjónsson. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks: Katarzyna Kubiś, Hlynur Þór Agnarsson og Sigurbjörg H. Sigurgeirsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Anna Kristín Jensdóttir og Rúnar Björn Herrera. Einnig sat fundinn eftirfarandi starfsfólk: Aðalbjörg Traustadóttir, Guðný Bára Jónsdóttir og Bragi Bergsson. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf ÖBÍ dags. 2. október 2025, um að Gísli Jónsson taki sæti í mannréttindaráði sem varafulltrúi samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks, í stað Guðjóns Sigurðssonar. MSS22070012

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning þjónustu- og nýsköpunarsviðs á Hönnu stafrænu hönnunarkerfi og aðgengi á ytri vef Reykjavíkurborgar. ÞON25050018

    Hreinn Valgerðar Hreinsson og Guttormur Árni Ársælsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar fyrir kynningu á hönnunarkerfinu Hanna og vinnu við að tryggja stafrænt aðgengi á vef Reykjavíkurborgar. Ráðið fagnar því að aðgengismál séu orðin fastur hluti af þróunarferli stafrænnar þjónustu borgarinnar og að fylgt sé alþjóðlegum stöðlum í þágu jafns aðgengis allra borgarbúa. Mannréttindaráð hvetur Reykjavíkurborg og hagsmunasamtök ráðsins að senda inn umsögn á lagafrumvarpinu Aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila sem aðgengilegt er í samráðsgátt ríkisins til 24 október.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning velferðarsviðs á verkefnum í málaflokki fatlaðs fólks. MSS23060073

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar fyrir yfirgripsmikla kynningu á stöðu og þróun í málaflokki fatlaðs fólks. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja jöfnuð, mannréttindi og gæði þjónustu við fatlað fólk og fylgjast áfram náið með áhrifum skipulagsbreytinga á velferðarsviði á réttindi og aðgengi notenda.

    -    Kl.14.34 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti með rafrænum hætti.

    -    Kl.14.36 víkja af fundinum fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks; Katarzyna Kubiś, Hlynur Þór Agnarsson og Sigurbjörg H. Sigurgeirsdóttir. Anna Kristín Jensdóttir og Rúnar Björn Herrera aftengjast fjarfundarbúnaði. Eftirfarandi starfsfólk vék af fundi; Bragi Bergsson og Aðalbjörg Traustadóttir.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fjárhagsáætlun mannréttindaskrifstofu 2026. Trúnaður ríkir um málið þar til fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 hefur verið tekin til afgreiðslu í borgarstjórn. FAS25010023

  5. Lögð fram samþykkt borgarstjórnar frá 16. september sl., um breytingartillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna við tillögu borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, um að Reykjavíkurborg verði barnvænt sveitarfélag. MSS25090012

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að mannréttindaráð samþykki að fela mannréttindaskrifstofu að meta stöðu á innleiðingarferli barnasáttmálans þvert á svið og starfsstöðvar borgarinnar. Við vinnuna verði lögð sérstök áhersla á hópa jaðarsettra barna til að meta betur mögulegan viðbótarávinning sem gæti falist í vottun um barnvænt samfélag. Niðurstöður verða kynntar og lagðar fyrir mannréttindaráð.

    Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands. 
    Fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarinnar hafa víðtæk áhrif á börn. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna að ákvörðunartöku sé aukin. Verkefnið barnvænt sveitarfélag felur í sér markvissari innleiðingu á barnasáttmálanum og er grundvallarbreyting á því hvernig við högum stefnumótun borgarinnar og forgangsröðun. Við undrumst afgreiðslu meirihlutans á málinu sem kom með breytingatillögu um að ávinningur verkefnisins verði skoðaður á sama tíma og meirihlutinn segist vera hlynntur því að barnasáttmálinn sé markvisst og kerfislega innleiddur í Reykjavíkurborg. Það felur í sér algjört metnaðarleysi. Hér hefði verið tækifæri fyrir borgarstjórn að standa saman að því að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um árlegan opinn fund mannréttindaráðs þann 10. desember 2025 á alþjóðlegum degi mannréttinda. MSS22110179

  7. Lögð fram auglýsing um Kvennaverkfall 24. október 2025. MSS25100028

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar lýsa yfir samstöðu með konum og kvárum sem leggja niður störf þann 24. október í baráttu fyrir launajafnrétti, öryggi og virðingu. Þrátt fyrir áratuga jafnréttisbaráttu eru kynbundinn launamunur, ofbeldi og mismunun enn viðvarandi í íslensku samfélagi. Reykjavíkurborg ber ríka ábyrgð sem stærsti vinnuveitandi landsins og sem leiðandi afl í mannréttindamálum að standa vörð um rétt allra til jafnra tækifæra, launa og virðingar óháð kyni eða kynvitund. Mannréttindaráð hvetur alla borgarbúa til að sýna samstöðu með verkfallinu og minna á að baráttunni fyrir jafnrétti er hvergi nærri lokið.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í baráttu kvenna fyrir auknu jafnrétti frá fyrsta kvennafrídeginum árið 1975 og þakkar öllum þeim sem tekið hafa þátt í baráttunni fyrir jafnari stöðu og kjörum kynja. Við styðjum við kvennaverkfallið 2025.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að 50 ára afmælidagur kvennafrídagsins sé haldinn hátíðlegur enda fullt tilefni til þess að lyfta þessum degi og minnast þess hversu mikill kraftur var í þeim konum sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttu kvenna, fagna því hversu mikið hefur áunnist þrátt fyrir að mörgu sé ólokið. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna að vetrarleyfi grunnskóla Reykjavíkur hefjist á 50 ára afmæli kvennafrídagsins. Mun stór hluti kvenna verja deginum við að annast börn sín sem ekki sækja skóla þennan dag. Hefðu fulltrúarnir talið að meirihluti, sem leiddur er af fimm konum, myndi gæta þess að konur sætu ekki fastar við hefðbundin kvennastörf á þessum degi en kvennafrídaginn ber upp á ári hverju 24. október.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um leiðbeiningar um afmælishópa. MSS25100063

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg vinnur ötult starf í upplýsingagjöf, leiðbeiningum og almennri ráðgjöf um mannréttindi. Gögn sem verða til í þeirri vinnu nýtast ekki einungis starfsfólki og íbúum borgarinnar heldur einnig öðrum sveitarfélögum til að styðja við mannréttindastarf. Samstarfsflokkar í Mannréttindaráði vilja árétta að leiðbeiningar um tiltekna þætti í starfsemi borgarinnar eru ekki settar fram til að draga upp eða rangfæra hlutverk slíkra gagna. Orðræða sem byggir á rangfærslum dregur úr mikilvægu starfi Mannréttindaráðs og starfsfólks Reykjavíkurborgar við að standa vörð um mannréttindi, baráttu sem stendur víða um heim, einnig hér á Íslandi og í Reykjavík. Að grafa undan aðgerðum sem ætlað er að mæta þörfum foreldra og starfsfólks með leiðbeiningum sem stuðla að upplýsingum og draga úr mismunun og útilokun barna vegna kynvitundar þeirra er alvarlegt mál. Samstarfsflokkar mannréttindaráðs hvetur öll sem verða vitni að slíkum aðgerðum til að bregðast við, tilkynna þegar við á og taka afstöðu með mannréttindum.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Barnaafmæli eiga að vera gleðistund þar sem afmælisbörn fagna nýjum aldri með vinum og fjölskyldu. Það er mikilvægt að öll börn upplifi sig velkomna í sínu skólasamfélagi og að enginn sé skilinn útundan. Við teljum þó að það sé ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að setja einhliða reglur um það hverjum megi eða eigi að bjóða í barnaafmæli. Slíkar reglur ganga of langt í afskiptum af einkalífi fjölskyldna og geta skapað óþarfa togstreitu milli skóla og heimila. Þess í stað ættu leiðbeiningar borgarinnar að vera almenns eðlis og miða að því að hvetja foreldra, kennara og börn til að ræða þessi mál saman. Eðlilegt er að kennarar ræði afmælisboð við foreldra umsjónarnemenda sinna á fyrsta foreldrafundi hvers skólaárs og fari yfir mikilvægi þess að ekkert barn upplifi sig skilið útundan. Í þeim samtölum er einnig mikilvægt að ræða breytur sem geta haft áhrif, svo sem kyn, kynhneigð, fötlun, fjárhagslega stöðu foreldra og uppruna. Leggja á frekar áherslu á að foreldrar, kennarar og börn setji sér í sameiningu viðmið um barnaafmæli. Með því er stuðlað að því að  barnaafmæli verði sú skemmtilega og hlýja stund sem þau eiga að vera. Lagt er til að núverandi reglur séu endurskoðaðar með það í huga.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að tilmæli Reykjavíkurborgar vegna barnaafmæla verði endurskoðaðar. Það er mikilvægt að öll börn upplifi sig velkomna í sínu skólasamfélagi og að enginn sé skilinn útundan. Við teljum þó að það sé ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að setja einhliða reglur um það hverjum megi eða eigi að bjóða í barnaafmæli. Slíkar reglur ganga of langt í afskiptum af einkalífi fjölskyldna og geta skapað óþarfa togstreitu milli skóla og heimila. Þess í stað ættu leiðbeiningar borgarinnar að vera almenns eðlis og miða að því að hvetja foreldra, kennara og börn til að ræða þessi mál saman. Eðlilegt er að kennarar ræði afmælisboð við foreldra umsjónarnemenda sinna á fyrsta foreldrafundi hvers skólaárs og fari yfir mikilvægi þess að ekkert barn upplifi sig skilið útundan. Í þeim samtölum er einnig mikilvægt að ræða breytur sem geta haft áhrif, svo sem kyn, kynhneigð, fötlun, fjárhagslega stöðu foreldra og uppruna. Leggja á frekar áherslu á að foreldrar, kennarar og börn setji sér í sameiningu viðmið um barnaafmæli. Með því er stuðlað að því að barnaafmæli verði sú skemmtilega og hlýja stund sem þau eiga að vera. Lagt er til að núverandi reglur séu endurskoðaðar með það í huga.

    Tillögunni fylgir greinagerð. 
    Frestað. MSS25100112

    Fylgigögn

Fundi slitið kl.15.45

Sabine Leskopf Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Guðný Maja Riba Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns

Þorvaldur Daníelsson Sandra Hlíf Ocares

Björn Gíslason

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 16. október 2025