Mannréttindaráð - Fundur nr. 157

Mannréttindaráð

Ár 2015, 9. júní var haldinn 157. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.18. Fundinn sátu Ragnar Hansson, Marta Guðjónsdóttir, Eyrún Eyþórsdóttir, Jóna Björg Sætran, Sabine Leskopf, Þórlaug Ágústsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Anna Kristinsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á upplýsingatefnu Reykjavíkurborgar. Halldór Auðar Svansson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. (R15020022). 

Bókun mannréttindaráðs:

Mannréttindaráð þakkar Halldóri Auðari Svanssyni fyrir kynningu á drögum að upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar. Ráðið fagnar skýrri og metnaðarfullri stefnu nýstofnaðs stjórnkerfis- og lýðræðisráðs og sér mikinn flöt á samstarfi í þessum málum, enda aðgengi borgarbúa að upplýsingum einfaldlega spurning um mannréttindi. Ljóst er að aðgengi borgarbúa að upplýsingum er ábótavant og margt þarf að bæta til að virkja betur gagnsæi og opna stjórnsýslu. Þar má nefna viðmót, bæði stafrænt og persónulegt; hvernig taka skal á móti fyrirspurnum, kvörtunum og beiðnum, og koma til móts við borgarbúa á auðskilinn máta og að koma upplýsingum fram á mannamáli.

2. Fram fer kynning á ICORN verkefninu. Edda Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. (R10080008).

Bókun mannréttindaráðs: 

Mannréttindaráð þakkar Eddu Ólafsdóttur góða kynningu á ICORN verkefninu og fundinum í Amsterdam 26. - 29. maí þessa árs. Verkefnið er aðdáunarvert og er Reykjavíkurborg stoltur samstarfsaðilli að því. Kom meðal annars fram að um 84% mannkyns býr við skert tjáningarfrelsi sem eru sláandi tölur og vill mannréttindaráð hampa því frelsi hér á landi og styrkja. Meðal annars með endurskoðaðri mannréttindarstefnu, sem fjallar nú í fyrsta sinn um tjáningarfrelsi Reykvíkinga í nýjustu drögum sínum.

3. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 27.05.2015 varðandi fyrirhugaða fundi borgarráðs sumarið 2015. (R15050076).

4. Rætt var um starfmannastefnu Reykjavíkurborgar. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn til borgarráðs.

Starfshópur um endurskoðun mannréttindarstefnu Reykjavíkurborgar er að ljúka við drög að nýrri stefnu í lok júní. Mannréttindarstefnan vísar mikið í starfsmannastefnu Reykjavíkur sem hefur þó ekki verið uppfærð síðan 2001. Ljóst er að endurskoðunar er þörf og vísar mannréttindaráð fyrirspurn til borgarráðs um heildarstarfsmannastefnu Reykjavíkurborgar og fyrirætlanir um slíka endurskoðun og lýsir yfir vilja til samstarfs.

5. Rætt var um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Ragnar Hansson sagði frá vinnu starfshópsins sem skilar af sér niðurstöðum í lok júní. (R14090109).

6. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráði lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráði óskar eftir upplýsingum um fjölda og umfang verndaðra vinnustaða hjá Reykjavíkurborg. Hve litla eða mikla fötlun þarf að vera um að ræða til að fötluðum einstaklingi sé boðið starf? Er ráðgjöfum félagaþjónustu borgarinnar kunnugt um alla þessa möguleika. Um hvers konar vinnu er að ræða? Hve langur er vinnudagurinn og eftir hverju eru launin ákveðin? Er hvatt til þess að stofnanir og fyrirtæki á vegum borgarinnar ráði til sín skjólstæðinga á vegu félagaþjónustu borgarinnar sem þurfa leiðsögn og persónulegan stuðning til að komast í gang á vinnumarkaðnum? Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráði óskar eftir upplýsingum um þau verkefni hjá Reykjavíkurborg sem ætlað er að auðvelda innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi samhliða því að unnið sé með að menningu og menningararfi innflytjenda sé gert hátt undir höfði.

Fundi slitið kl. 13.55

Ragnar Hansson

Sabine Leskopf Marta Guðjónsdóttir

Eyrún Eyþórsdóttir Jóna Björg Sætran

Magnús Már Guðmundsson