Mannréttindaráð - Fundur nr. 150

Mannréttindaráð

 

Mannréttindaráð

Ár 2015, 24. febrúar var haldinn 150. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.18. Fundinn sátu Líf Magneudóttur, Jóna Björg Sætran, Diljá Ámundadóttir fyrir Ragnar Hansson, Sabine Leskopf, Magnús Már Guðmundsson, Þórlaug Ágústsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Anna Kristinsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

1. Starfsmenn Reykjavíkurborgar af erlendum uppruna. Ragnhildur Ísaksdóttir starfsmannastjóri mannauðsskrifstofu tók sæti á fundinum undir þessum lið. Lögð fram glærukynning um mannauðsmál. R15020212

- kl. 12.23 tekur Magnús Sigurbjörnsson sæti á fundinum.

Bókun mannréttindaráðs:

Mannréttindaráð þakkar Ragnhildi Ísaksdóttur starfsmannastjóra mannauðsskrifstofu fyrir kynningu varðandi starfsmenn Reykjavíkurborgar af erlendum uppruna. Í því samhengi er bent á að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar gerir þá kröfu að Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi eigi að sjá til þess að starfsmannahald endurspegli  þann margbreytileika samfélagsins sem borgin er. Bókuninni fylgir tillaga sem vísað er til mannauðsskrifstofu.

Bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir telja að Reykjavíkurborg verði að fara í beinar aðgerðir gagnvart starfsmönnum sínum af erlendum uppruna og auðvelda aðgengi þeirra að upplýsingum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þetta á ekki aðeins við um réttindi og skyldur þeirra sem launþega heldur einnig réttindi og skyldur atvinnurekenda, þe. yfirmanna þeirra gagnvart þeim. Nauðsynlegt er að erlendir starfsmenn hafi auðvelt aðgengi að íslenskum viðmiðum svo sem skilgreiningar á einelti á vinnustað - ásamt upplýsingum um hvert viðkomandi gæti strax leitað með sín mál til úrlausnar. Reykjavíkurborg vill vera í farabroddi í mannréttindum, meðal annars sem vinnuveitandi, og því eru aðgerðir þessar nauðsynlegar.

2. Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. R15020062. Fram fór umræða um 

mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar sem afhent verða 16. maí 2015. Lagt fram minnisblað yfir verðlaun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 dags. 20.02.2015. Lögð var fram tillaga um að veita um 5% af styrkjafé mannréttindaráðs framvegis til handhafa mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir telja eðlilegt að fagráð fái leiðbeiningar frá borgarráði um þær verðlaunaveitingar sem veittar eru á hverju ári og þær séu settar í ákveðna flokka til að virða jafnræði og viðhafa þannig  nokkra samræmingu milli sviða eftir því sem við á og hægt er.

3. Styrkir mannréttindaráðs 2015. Lögð fram drög að auglýsingu fyrir styrki ráðsins sem auglýstir verða um miðjan mars.

Bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir telja óeðlilegt að eitt og sama verkefnið eða styrkbeiðni fái úthlutuðum styrkjum úr fleiri en einu fagráði, nema með sérstökum rökstuðningi. Nauðsynlegt er að stuðla að meira gagnsæi á milli fagráða í tengslum við styrkveitingar og eftir atvikum er þarft að gera breytingar á styrkjareglum borgarinnar og mögulega þá einnig á styrkjaumsóknareyðublöðum.

Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í mannréttindaráði taka undir áhyggjur Framsóknar og flugvallarvina varðandi ógagnsæi í styrkveitingum á vegum Reykjavíkurborgar. Tekið er undir að endurskoða þurfi reglur varðandi allar styrkveitingar Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja æskilegt að í þeirri endurskoðun verði byrjað á að taka til skoðunar hvort eðlilegt sé að veita styrki af almannafé borgarinnar.

Bókun fulltrúa meirihluta mannréttindaráðs:

Fulltrúar meirihlutans taka að hluta til  undir bókanir Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins að því leyti að það einkenni góða stjórnsýslu að endurmeta og bæta verkferla í sífellu sem snúa að styrkveitingum borgarinnar. 

4. Verkefni mannréttindaskrifstofu vegna kynjaðrar starfs og fjárhagsáætlunar 2015.

Sagt frá verkefni mannréttindaskrifstofu vegna kynjaðrar starfs og fjárhagsáætlunar 2015 dags. 20.12.2015. Mannréttindakrifstofa mun kyngreina styrkumsóknir og úthlutanir.

5. Starfsdagur mannréttindaráðs. Rætt var um starfsdag mannréttindaráðs og ákveðið að hann yrði 27. mars.

Fundi slitið kl. 13:49

Líf Magneudóttir

Sabine Leskopf Magnús Sigurbjörnsson

Diljá Ámundadóttir Jóna Björg Sætran

Magnús Már Guðmundsson Hildur Sverrisdóttir