Mannréttindaráð - Fundur nr. 15

Mannréttindaráð

Ár 2025, fimmtudaginn 2. október var haldinn 15. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarráði og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Fanný Gunnarsdóttir og Þorkell Sigurlaugsson. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar öldungaráðs: Sigurður Ágúst Sigurðsson, Jóhann Birgisson og Viðar Eggertsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Sandra Hlíf Ocares og Ellen J. Calmon. Einnig sat fundinn eftirfarandi starfsfólk: Berglind Magnúsdóttir. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs dags. 24. september 2025, um að Þórhildur Guðrún Egilsdóttir taki sæti sem fulltrúi velferðarsviðs í öldungaráði og Berglind Magnúsdóttir sem varafulltrúi. MSS22060165

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning velferðarsviðs á Félagstarfi eldra fólks. MSS25080021

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar kynningu og yfirferð þjónustu við eldra fólk með sérstaka áherslu á félagsstarf. Mannréttindaráð tekur undir mikilvægi þess að styrkja enn fremur samræmingu í upplýsingum um starfsemina sem og að auka upplýsingagjöf til eldri borgara. Í ljósi áherslu ráðsins í október á kynjajafnrétti telur ráðið mikilvægt að hafa til hliðsjónar kynjaða nálgun í bæði útfærslum og úrræðum félagsstarfsins sem og að hugsa í lausnum til að auka þátttöku eldra fólks af erlendum uppruna.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagsviðs dags. 11. september 2025, um gönguleiðir og almenningsbekki í Reykjavík.

    Bragi Bergsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25060035

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir þakka vinnu við gerð minnisblaðs aðgengisfulltrúa og fagna nýlegri vinnu aðgengisfulltrúa Reykjavíkur sem greinir þörf á úrbótum á setsvæðum í borgarlandinu. Verkefnið byggir á aðgerðaráætlun aðgengisstefnu borgarinnar og er unnin í samstarfi við verkefnastjóra lýðheilsumála hjá borginni. Aðgengi fyrir öll að borgarlandinu er grunnur góðrar borgar sem hönnuð er fyrir fjölbreyttar þarfir borgarbúa.

    Fulltrúar U3A Reykjavík og Samtaka aldraðra leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fagna ber áherslum borgarinnar í að tengja almenningsbekki gönguleiðum og þakkir til aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir góða yfirferð á hvernig almennt er staðið að uppsetningu bekkja og um skipulag gönguleiða. Í ljósi þessarar yfirferðar teljum við að mikilvægt sé að borgaryfirvöld móti heilstæða stefnu í hvar almenningsbekkjum verði komið fyrir í borgarlandinu með gagnsæi að leiðarljósi, þar verði sett skýr markmið og þeim fylgi mótuð framkvæmdaáætlun og regluleg staða mála sé tekin út. Mótuð verði leið til að almennir notendur geti formlega komið með óskir og ábendingar sem síðan verði afgreiddar í ljósi markmiða. Minningabekkir eru síðan leið almennings til að láta gott af sér leiða í minningu látins vinar eða ættingja og um leið að gefa af sér til nærsamfélagsins í formi almenningsbekkja. Við hvetjum borgaryfirvöld til að taka ákvörðun um að almennt séu slíkir bekkir í borgarlandinu. Borgaryfirvöld setji þá skýrar reglur um bekkina s.s. staðsetningu, útlit, minningaskjöld og kostnað sem eru öllum aðgengilegar. Útbúið verði form umsóknar sem er aðgengilegt almennum borgurum til útfyllingar sem þess óska.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fagna ber allri vinnu sem lýtur að lagningu, viðhaldi og aðgengi að göngustígum í borginni ásamt uppsetningu bekkja. Sama má segja um uppsetning á æfingatækjum og leiðbeiningum sem þeim fylgja. Fólk á öllum aldri nýtir bekki og hjólastíga, staldrar við og tyllir sér niður – því skiptir staðsetning og aðgengi mjög miklu máli. Það eykur fjölbreytni útivistar ef síðan er hægt að nýta fjölbreytt tæki sem búið er að koma fyrir á völdum stöðum við gönguleiðir. Eins og fram kemur í framlögðu minnisblaði hafa hugmyndir um staðsetningu bekkja oft komið fram í tengslum við verkefni Hverfið mitt. Eðlilega koma bestu hugmyndirnar um staðsetningu úr nærsamfélaginu, frá íbúunum sjálfum sem koma til með að nýta bekki og tæki. Þegar verið er að ákveða staðsetningu bekkja er alltaf best að leita til nærsamfélagsins. Því er synd að búið er að leggja niður íbúaráðin í borginni, án þess að annar sambærilegur lýðræðislegur samstarfsvettvangur hafi komið í staðinn. En í íbúaráðunum voru einmitt fulltrúar frá ólíkum hópum í nærsamfélögum, ráðin unnu jafnfram með ólíkum bakhópum í hverfum borgarinnar og á vettvangi ráðanna gafst íbúum kostur á að koma sjónarmiðum sínum og hugmyndum sínum á framfæri, hugmyndum eins og með staðsetningu og aðgengi að bekkjum.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Söndru Hlíf Ocares við bókun fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands:

    Í október 2024 samþykkti borgarstjórn að hefja vinnu við gerð stefnu og áætlun um gönguvæna borg, í kjölfarið var stofnaður stýrihópur sem átti að skila niðurstöðum í júní sl. Í þessari vinnu stýrihóps átti að fara í að kortleggja setsvæði í borgarlandi með það fyrir augum að auka aðgengi og fjölga setsvæðum. Sá grunnur sem að samstarfsflokkarnir nefna í sinni bókun að sé mikilvægur til að tryggja aðgengi fyrir alla í borgarlandi er algjörlega í þeirra höndum og hafa þeir engan veginn sinnt því að klára þessa vinnu. Hópurinn hefur fundað einu sinni á síðastliðnum 11 mánuðum og er því langt frá því að skila niðurstöðum. Það er því með ólíkindum að samstarfsflokkarnir bóki á þennan veg og endurspeglar að ekki er verið að vinna þá vinnu og efna þau loforð sem samstarfsflokkarnir skreyta sig með fjölmiðlum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa U3A Reykjavík og Samtaka aldraðra:

    Lagt er til að mannréttindaráð samþykki að óska eftir við umhverfis- og skipulagsráð að borgaryfirvöld setji sér heildstæða stefnu með gagnsæi að leiðarljósi, hvað varðar uppsetningu almenningsbekkja, þar með talið minningarbekkja. Þar verði sett skýr markmið og þeim fylgi mótuð framkvæmdaráætlun. Að borgin setji skýrar reglur um minningarbekki s.s. staðsetningu, útlit, minningaskjöld og kostnað. Útbúið verði jafnframt form umsóknar sem er aðgengilegt almennum borgurum til útfyllingar sem þess óska.

    Tillögunni fylgir greinagerð. 
    Frestað. MSS25100004

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Söndru Hlíf Ocares:

    Lagt er til mannréttindaráð samþykki að óska eftir því við velferðarsvið að kanna hvort sé grundvöllur fyrir því að komið verði á samstarfi við framhaldsskóla- og háskólanema í kennslu í tæknilæsi og færni fyrir eldri reykvíkinga.

    Frestað. MSS25100015

    -    Kl. 14.40 víkja af fundinum eftirtaldir fulltrúar öldungaráðs: Sigurður Ágúst Sigurðsson, Jóhann Birgisson og Viðar Eggertsson. Eftirfarandi starfsmaður víkur jafnframt af fundinum: Berglind Magnúsdóttir.

    -    Kl. 14.41 taka sæti á fundinum eftirtaldir áheyrnarfulltrúar ofbeldisvarnarmála: Linda Dröfn Gunnarsdóttir, I. Jenný Ingudóttir og Halla Bergþóra Björnsdóttir með rafrænum hætti. Eftirfarandi starfsmaður tekur sæti á fundinum: Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir. 

  6. Fram fer kynning skóla- og frístundasviðs um Verklagsferla Reykjavíkurborgar og viðbrögð við því þegar barn greinir frá ofbeldi.

    Indíana Rós Ægisdóttir og Guðný Reynisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25090124

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar ítarlega yfirferð á verkferlum ofbeldisvarna og tekur fram að 21. ágúst sl. samþykktu allir flokkar í borgarráði aðgerðir til að auka öryggi og faglegt starf á leikskólum Reykjavíkur þar sem skóla- og frístundasviði var gert að leggja fram tillögur um úrbætur og skulu þær tillögur liggja fyrir eigi síðar en 31. október með kostnaðarmati.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram erindi dags. 12. september 2025, ásamt fylgiskjölum um ofbeldisvarnir og verkferla. MSS25090124

    Fylgigögn

  8. Lögð fram auglýsing um málþing sem fram fer þann 29. október nk., um Öruggari borg fyrir hinsegin fólk og námskeið í gagnræðu fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk Reykjavíkurborgar.

    Guðný Bára Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25020136

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar boð á málþingið: Öruggari hinsegin borgir (Safer Queer Cities) þar sem niðurstöður rannsóknarverkefnisins verða kynntar.Verkefnið er á vegum Nordic Safe Cities í samstarfi við Reykjavíkurborg og styrkt af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum NIKK – norræna LGBTI sjóðinn. Ráðið telur slíkt verkefni nauðsynlegt þar sem rannsóknin er mikilvægt verkfæri ráðsins til að greina og uppfæra aðgerðaráætlanir borgarinnar til að standa enn sterkari vörð um réttindi hinsegin fólks, hvort sem það er í stafrænu borgarlandi eða raunheimum. Ráðið fagnar því að námskeið fyrir starfsfólk og borgarfulltrúa í tengslum við málþingið eigi að fjalla um fyrirbyggjandi nálgun, sérstaklega hvað varðar gagnræðu og telur slík námskeið mikilvægan hlekk í styrkingu sjálfræðis þeirra sem eiga undir högg að sækja.

    -    Kl. 16.57 víkur Fanný Gunnarsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl.16.06

Sabine Leskopf Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Ellen Jacqueline Calmon Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns

Þorkell Sigurlaugsson Sandra Hlíf Ocares

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 2. október 2025