Mannréttindaráð - Fundur nr. 13

Mannréttindaráð

Ár 2025, fimmtudaginn 18. september var haldinn 13. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarráði og hófst kl. 13.02. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Guðný Maja Riba, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Tinna Helgadóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Þorkell Sigurlaugsson. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks: Ingólfur Már Magnússon, Katarzyna Kubiś, og Hlynur Þór Agnarsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hallgrímur Eymundsson og Lilja Sveinsdóttir. Einnig sat fundinn eftirfarandi starfsfólk: Aðalbjörg Traustadóttir, Valgerður Jónsdóttir og Bragi Bergsson. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 4. september 2025, um breytingar á samþykkt mannréttindaráðs. MSS23010279 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um mál á dagskrá í mannréttindaráði, aðgengismál á veðurstofureit og verklag vegna aðgengismála í nýjum hverfum, sbr. 6. lið fundargerðar frá 28. ágúst 2025. 
    Samþykkt. MSS25080085

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um mál á dagskrá í mannréttindaráði, aðgengi á bílastæðahúsum og stefnu borgarinnar um bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 28. ágúst 2025. 
    Samþykkt. MSS25080086

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar 3. september 2025, um fjarfundi nefnda og ráða Reykjavíkurborgar. MSS25070098

    Fylgigögn

  5. Kynningu umhverfis- og skipulagssviðs á forgangsröðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar, er frestað. 
    MSS23100011

  6. Fram fer kynning umhverfis- og skipulagssviðs um aðgengismál á Veðurstofureit og verklag vegna aðgengismála í nýjum hverfum.

    Arnhildur Pálmadóttir og Líf G. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
    MSS25080085

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar mannréttindaráðs þakka góða kynningu á deiliskipulagi veðurstofuhæð sem sýnir fjölbreytilega byggð með framtíðarsýn. Mannréttindaráð hefur nú þegar tekið skref í átt að frekari eflingu samstarfs milli umhverfis- og skipulagssviðs og aðgengisfulltrúa og hugsa aðgengismál heildrænt á öllum stigum. Aðkoma aðgengismála á frumskrefum hönnunar tryggir ekki einungis skilyrði laga og reglugerða heldur fjölbreyttari og frjálsari byggð til framtíðar. Byggingar reitsins eru ekki hannaðar á þessu stigi og endanlegur fjöldi íbúða liggur ekki fyrir né fjöldi eða staðsetning innganga. Deiliskipulagið inniheldur því ekki endanlegan fjölda bílastæða eða stæða fyrir hreyfihamlaða út frá byggingarreglugerð þar sem það veltur á fjölda og stærðum íbúða og staðsetning þeirra veltur á endanlegri hönnun bygginga. Þegar endanlegur fjöldi og staðsetning bílastæða er ákveðin í deiluskipulagi þá þarf ávallt að huga vel að aðgengismálum fyrir hreyfihamlaða og útfæra þessi atriði í samræmi við athugasemdir hagsmunaaðila og gildandi reglugerðir.

    -    Kl. 14.25 víkur Aðalbjörg Traustadóttir af fundinum.

    -    Kl. 14.27 víkja af fundinum eftirtaldir fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks og starfsfólk: Hlynur Þór Agnarsson, Ingólfur Már Magnússon,Katarzyna Kubiś og Bragi Bergsson. Lilja Sveinsdóttir og Hallgrímur Eymundsson aftengjast fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á Mannréttindastofnun Íslands.

    Margrét María Sigurðardóttir og Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25090076

    Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð þakkar fulltrúum Mannréttindastofnunar Íslands fyrir fróðlega kynningu á starfsemi stofnunarinnar, hlutverki hennar við að vernda og efla mannréttindi og fyrir þær upplýsingar sem veittar voru um verkefni stofnunarinnar á fyrstu starfsmánuðunum. Ráðið hlakkar til áframhaldandi samstarfs og reglulegs samráðs.

  8. Fram fer umræða um valnefnd vegna styrkja mannréttindaráðs. 
    Samþykkt að Sabine Leskopf, Oktavía Guðrúnar Jóns og Magnea Gná Jóhannsdóttir taki sæti í valnefnd. MSS25090027

  9. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu dags. 1. september 2025, um nafnabreytingu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. MSS25080080 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar mannréttindaskrifstofu dags. 3. september 2025, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hagsmunasamtök í mannréttindaráði, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 15. maí sl. MSS25050082

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í mannréttindaráð þakka fyrir framlagt svar við fyrirspurn okkar um setu hagsmunasamtaka í mannréttindaráði. Í svarinu er ítarlega rakið hvaða samtök eiga fulltrúa í ráðinu og hvernig skipan ráðsins tengist lögum og samþykktum borgarinnar. Þó er ljóst að meginspurningu okkar er ekki svarað. Spurt var sérstaklega um hvaða viðmið, hlutlæg eða huglæg, ráða því hvaða félög fá sæti í ráðinu og hvaða rök liggja að baki vali þeirra sem þegar eiga aðild. Þessum atriðum er ekki svarað með skýrum hætti. Enn fremur var óskað eftir upplýsingum um hvernig ný félög eða aðilar á sviði réttindamála geti sótt um eða öðlast aðkomu að ráðinu, en slíku ferli er ekki lýst. Því skortir enn gagnsæi um þau viðmið sem liggja til grundvallar aðkomu hagsmunasamtaka að mannréttindaráði.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar gerir verulegar athugasemdir við það að fulltrúar fjölmenningarráðs hafi misst atkvæðarétt sinn við sameiningu fjölmenningarráðs og mannréttindaráðs. Það er skref aftur á bak og minnkar vægi fjölmenningarsamfélagsins í ákvörðunartöku innan borgarinnar. Fulltrúinn hvetur meirihlutann til að endurskoða þessa ákvörðun. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl.15.24

Sabine Leskopf Guðný Maja Riba

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns Tinna Helgadóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorkell Sigurlaugsson

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 18. september 2025