Mannréttindaráð - Fundur nr. 13

Mannréttindaráð

MANNRÉTTINDANEFND

Ár 2007, miðvikudaginn 21. febrúar, hélt mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar 13. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Marsibil J. Sæmundardóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Þórdís Pétursdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sóley Tómasdóttir. Jafnframt sat fundinn Þórhildur Líndal, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Þýðing mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Lagt fram tilboð Túlka- og þýðingarþjónustu Alþjóðahúss, dags. 21.febrúar 2007.
Mannréttindaráðgjafa falið að láta þýða mannréttindastefnuna yfir á þau fjögur tungumál, sem Alþjóðahús telur brýnast. Jafnframt að kanna möguleika á að stefnan verði sett yfir á auðskiljanlegra mál, og með hvaða hætti hægt sé að gera hana aðgengilega fyrir blinda og heyrnarlausa.
Samþykkt samhljóða.

2. Staða kvenna af erlendum uppruna, sem búa við heimilisofbeldi.
Lagt fram svar dómsmálaráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2007.

3. Nýsköpunarsjóður námsmanna.
Lagt fram bréf frá formanni sjóðsstjórnar, dags. 20. febrúar 2007.

4. Lykilstjórnendur hjá Reykjavíkurborg og umsækjendur um slík störf, m.t.t. kyns.
Umræða um áður framlagt minnisblað frá Stjórnsýslu- og starfsmannasviði, dags.1. febrúar 2007.
Fulltrúi Samfylkingar lagði fram svofellda bókun:
Fulltrúi Samfylkingar í mannréttindanefnd þakkar fyrir það minnisblað sem lagt hefur verið fram. Það er augljóst af þeim upplýsingum sem þar koma fram að þær uppsagnir sem átt hafa sér stað á undanförnum mánuðum eru mikil blóðtaka fyrir borgina. Á átta mánuðum hafa sex sviðsstjórar sagt upp störfum þar af eru fimm konur. Í augnablikinu er skipting æðstu embættismanna þannig að sex stöður eru skipaðar konum og sex körlum. Enn er óráðið í tvær stöður. Í tíð fyrri meirihluta var skiptingin níu konur og fjórir karlar. Nýr meirihluti hefur bætt við stöðu sviðsstjóra leikskólasviðs. Sú staða er skipuð konu. Þá vekur það eftirtekt fulltrúa að ef frátaldir eru umsækjendur í starf mannréttindaráðgjafa er hlutfall umsækjenda í þau störf sem listuð eru upp í minnisblaði frá skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu að mun fleiri karlmenn sækja nú um lykilstörf hjá borginni. Hér er um töluverða breytingu að ræða á því hver raunin var í tíð fyrri meirihluta, en þá var reynslan sú að mikill meiri hluti umsækjenda voru konur þegar auglýst var um laus lykilstörf hjá Reykjavíkurborg. Það eru ákveðin teikn á lofti um að kynjahlutfall æðstu stjórnenda sé hægt og bítandi að breytast með nýjum meirihluta.

5. Um vinnumenningu, fjölskylduábyrgð og kynjatengsl innan vinnustaða Reykjavíkurborgar.
Lögð fram til kynningar skýrslan: Fyrirvinnur, hálfdrættingar og heildarhyggja unnin fyrir jafnréttisnefnd Reykjavíkur. Höf: Gyða M. Pétursdóttir og Þorgerður Einarsdóttir.
Mannréttindaráðgjafa falið að fá höfunda á fund nefndarinnar við fyrsta tækifæri.

6. Fyrirhuguð ráðstefna klámframleiðanda í Reykjavík í marsmánuði nk.
Mannréttindanefnd lagði fram svofellda bókun:
Mannréttindanefnd fagnar yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík frá 16. febrúar sl. og ályktun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. s.m., þar sem segir að það sé í mikilli óþökk borgaryfirvalda ef ráðstefna framleiðenda klámefnis fyrir netmiðla verði haldin hér í borg um miðjan marsmánuð, enda skýlaus stefna Reykjavíkurborgar að vinna gegn klámvæðingu og vændi.
Lögð fram tillaga mannréttindaráðgjafa, dags. 20. febrúar 2007, um málþing að morgni 8. mars 2007, kl. 8-10, í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Samþykkt samhljóða að halda málþing.

7. Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram svofellda tillögu ásamt greinargerð:
Fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram tillögu þess efnis að settur verði á fót vinnuhópur sem vinni sérstaka aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem hafi það að markmiði að skoða hvar og hvernig borgaryfirvöld geta lagt sitt af mörkum til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þá er lagt til að í hópnum eigi sæti tveir fulltrúar tilnefndir af Þjónustu- og rekstrarsviði, einn frá Velferðarsviði, einn frá Menntasviði og einn frá mannréttindanefnd.

Greinargerð:
Áskorun þessa efnis kom til jafnréttisnefndar borgarinnar fyrir lok síðasta kjörtímabils frá “hópi 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi” í árslok 2005. Jafnréttisnefnd samþykkti tillöguna, en ekki náðist að vinna verkefnið áður en nýr meirihluti tók við. Vísa ég til gagna sem lögð voru fram með tillögunni þegar hún var upphaflega lögð fyrir jafnréttisnefnd.

Afgreiðslu frestað.

Hér með leiðréttist að á fundi mannréttindanefndar 7. febrúar s.l. féll niður eftirfarandi fyrirspurn frá fulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar svohljóðandi:
Þann 30. ágúst 2006 lögðu fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar til að Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar yrði gefin út á helstu tungumálum innflytjenda, íslensku táknmáli og blindraletri, með það fyrir augum að stefnan væri aðgengileg þeim minnihlutahópum sem henni væri ætlað að þjóna. Tillögunni var þá frestað. Sjö vikum síðar, þann 18. október 2006, var tillagan aftur tekin fyrir í nefndinni og var henni þá aftur frestað með eftirfarandi bókun meirihlutans: Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telja mikilvægt að byrjað verði á að þýða áttunda kafla stefnunnar um Uppruna og þjóðerni á helstu tungumál innflytjenda. Farið verði í greiningu á því hvort þýðingar á öðrum hlutum hennar séu mikilvægir. Eitt af markmiðum mannréttindanefndar er að tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna. Því er nauðsynlegt að greina nákvæmlega hvaða þýðingar eru gagnlegar og meta kostnaðinn við þær og felur nefndin starfsmanni nefndarinnar að taka þær upplýsingar saman og leggja fyrir nefndina. Síðan hafa liðið 15 vikur. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar spyrja því hvort þýðingu á áttunda kafla stefnunnar sé lokið og hvort þess sé langt að bíða að niðurstaða fáist í málið? Að mati fulltrúanna er jafn brýnt nú og þegar tillagan var lögð fram fyrst að stefnan sé aðgengileg og að þeir hagsmunahópar sem henni er ætlað að þjóna séu upplýstir um hana. Sannfæring fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar er enn sú að þýða beri alla stefnuna hið snarasta.

Fundi slitið kl. 13.55

Marsibil J. Sæmundardóttir
Þórdís Pétursdóttir Jórunn Frímannsdóttir
Sóley Tómasdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir