Mannréttindaráð - Fundur nr. 122

Mannréttindaráð

Ár 2013, 21. október var haldinn 122. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.07. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Sveinn H. Skúlasom, SJÓN, og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sat fundinn Halldóra Gunnarsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

1. Kynbundinn launamunur. Halldóra Gunnarsdóttir sérfræðingur jafnréttismála fór yfir nýlegar kannanir sem gerðar hafa verið á kynbundnum launamun.

Bókun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð fagnar tillögum borgarstjórnar um aðgerðir til að jafna kynbundinn launamun hjá Reykjavíkurborg. Ráðið ítrekar mikilvægi þess að aðgerðunum verði markvisst fylgt eftir.

Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Samkvæmt úttekt mannauðdeildar fyrir árið 2012 hefur kynbundinn launamunur farið minnkandi hjá Reykjavíkurborg. Hins vegar gefa aðrar kannanir, svo sem frá heildarsamtökum stéttarfélaga háskólamanna og BSRB, vísbendingar um að kynbundinn launamunur fari ekki minnkandi. Sú staðreynd að kynbundinn launamunur viðgengst í stærsta sveitarfélagi landsins er alvarleg og ber að bregðast við af festu. Það vekur furðu hversu langan tíma það hefur tekið meirihluta borgarstjórnar að bregðast við stöðu sem hefur legið fyrir frá byrjun kjörtímabils. Of löngum tíma var leyft að líða í stöðumat og úttektir mismunandi starfs- og aðgerðahópa. Því ber þó að fagna að tillögur um aðgerðir hafi nú loksins litið dagsins ljós. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vona að aðgerðir um kynbundinn launamun muni skila tilætluðum árangri og lýsa sig reiðubúna til þess að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

2. Yfirlit styrkumsókna 2014 lagt fram. Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar fyrri fyrirspurn varðandi upphæðir styrkja fagráða.

3. Farið yfir starfsáætlun í mannréttindamálum fyrir árið 2013 og ræddar hugmyndir að verkefnum fyrir 2014.

4. Lögð fram tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks:
Mikilvægt er að félög sem sinna íþrótta - og tómstundastarfi barna geti kynnt starf sitt innan skóla borgarinnar í þeim tilgangi að ýta undir aukna þátttöku barna í íþróttum, tómstundum og almennri hreyfingu. Mannréttindaráð beiti sér fyrir því opnað verði að nýju fyrir kynningarstarf íþrótta- og æskulýðsfélaga á starfsemi sinni í grunnskólum borgarinnar. Leitað verði samstarfs um útfærslu við íþrótta og æskulýðsfélög.
Greinargerð:
Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi er mikilvæg fyrir þroska og félagsfærni og eflir sjálfstraust og sjálfsvirðingu auk þess að vera tækifæri til samskipta og samvinnu. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að ungmenni sem eru þátttakendur í slíku starfi eru síður líkleg til að leiðast út í óreglu. Í forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er lögð rík áhersla á heilbrigðan lífsstíl og möguleika til þátttöku í íþróttum og uppbyggilegum tómstundum. Því er mikilvægt að skapa vettvang innan skólanna til að kynna það íþrótta- og æskulýðsstarf sem í boði er á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Frestað.

Fundi slitið kl. 13.27

Margrét K. Sverrisdóttir
Marta Guðjónsdóttir SJÓN
Elín Sigurðardóttir Bjarni Jónsson
Sveinn H. Skúlason Margrét Kristín Blöndal