Mannréttindaráð
MANNRÉTTINDANEFND
Ár 2007, miðvikudaginn 7. febrúar, hélt mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar 12. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Marsibil J. Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sóley Tómasdóttir. Jafnframt sat fundinn Þórhildur Líndal, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Styrkumsókn Mannréttindaskrifstofu Íslands, dags. 11.október 2006.
Lögð voru fram drög að bréfi mannréttindanefndar, dags. 7. febrúar 2007, til borgarráðs.
Samþykkt samhljóða.
2. Nýr varamaður í mannréttindanefnd.
Lagt var fram til kynningar bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 16. janúar 2007, þar sem tilkynnt er að Elín Sigurðardóttir, Álftamýri 40, taki sæti varamanns í mannréttindanefnd í stað Fidu Abu Libdeh.
3. Þróunarverkefnið “Trúnaðarvinkonur”.
Lögð var fram umsögn frá Velferðarsviði, dags. 12. desemer 2006.
Fulltrúi Samfylkingar lagði fram svohljóðandi tillögu:
Þann 18.10.2006 lagði fulltrúi Samfylkingarinnar fram tillögu að verkefni sem bar heitið “Trúnaðarvinkonur”. Tillögunni var vísað til umsagnar hjá Velferðarsviði og hefur nú verið lögð fyrir fundinn jákvæð umsögn skrifstofustjóra Velferðarsviðs, Sigríðar Jónsdóttur sem telur verkefnið þarft. Fagnar fulltrúi Samfylingarinnar niðustöðum umsagnaraðila og hversu hratt og vel málið hefur gengið fyrir sig. Og leggur því fram hér tillögu þess efnis að starfshópur verði skipaður með þeim aðilum sem fyrri tillaga lagði til auk fulltrúa frá Félagi kvenna af erlendum uppruna og í samráði við fulltrúa stærstu þjóðafélaganna eins og umsagnaraðili leggur til. Hópurinn hafi það verkefni að finna frekari útfærslu á verkefninu svo og tryggja framgang þess. Einnig er lagt til að stefnt verði að því að verkefnið geti hafist í síðasta lagi í byrjun árs 2008.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
4. Nýsköpunarsjóður námsmanna.
Svar framkvæmdastjóra sjóðsins, dags. 23. janúar 2007, við fyrirspurn mannréttindanefndar, lagt fram til kynningar.
Mannréttindanefnd lagði fram svohljóðandi bókun vegna svars Nýsköpunarsjóðs námsmanna:
Vegna svars sem loks hefur borist frá Nýsköpunarsjóði námsmanna telur mannréttindanefnd það vera með öllu óskiljanlegt að Nýsköpunarsjóður ætlist til að nefndin bíði í ríflega ár eftir því að sjóðurinn eignist tölvukerfi. Mannréttindanefnd tekur afsakanir þær sem fram koma í umræddu svari ekki til greina og fer fram á að Nýsköpunarsjóður námsmanna útvegi nefndinni þessi svör hið fyrsta. Styrkveitingar sjóðsins ná til fjölda nemenda í háskólum landsins og er mikilvægur liður í því umhverfi háskólanema sem Reykjavíkurborg vill taka þátt í að byggja upp. Mannréttindanefnd getur ekki mælt með frekari styrkveitingum af hálfu Reykjavíkurborgar til Nýsköpunarsjóðs námsmanna fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir enda segir svo í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, grein 9.2 “Öllum nefndum og ráðum borgarinnar er úthluta styrkjum er skylt að gæta mannréttindasjónarmiða við úthlutun þeirra”.
5. Viðhorf borgarbúa til þjónustu Reykjavíkurborgar, dags. jan. 2007, símakönnun.
Lögð fram til kynningar.
6. Samsetning lykilstjórnenda og umsækjenda í slík störf m.t.t. kyns.
Lagt fram minnisblað frá Stjórnsýslu- og starfsmannasviði, dags. 1. febrúar 2007.
7. Liðveisla fyrir fatlaða borgarbúa.
Lagðar fram upplýsingar frá Velferðarsviði varðandi fjölda þeirra, sem sótt hafa um liðveislu á árinu 2006, skipt eftir þjónustuhverfum.
8. Málefni fatlaðra.
Á fundinn mættu starfsmenn á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, Helgi
Hjartarson, Íris Eik Ólafsdóttir og Olga Jónsdóttir. Þau fóru yfir stöðu þessa málaflokks og hvað mætti betur fara en ofangreind þjónustumiðstöð er þekkingarmiðstöð í þessum málaflokki.
Jórunn Frímannsdóttir og Sóley Tómasdóttir véku af fundi kl 13.55.
Mannréttindanefnd óskaði eftir að fá minnisblað frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis yfir mál sem þjónustumiðstöðin telur að setja beri í forgang á næstu tveimur árum í málefnum fatlaðra.
9. Lögð fram fyrirspurn frá fulltrúum Samfylkingar svohljóðandi:
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar eftir að nefndin fái lista yfir alla styrki, styrkþega og upphæðir styrkja og af hvaða tilefni styrkirnir eru veittir, frá öllum sviðum borgarinnar, nefndum og borgarráði. Mannréttindanefnd starfar eftir settri mannréttindastefnu og í henni segir að borgin áskilji sér rétt til þess að óska eftir mælanlegum markmiðum frá samstarfsaðilium borgarinnar sem þiggja styrki. Til að nefndin geti framfylgt stefnunni og haft yfirsýn yfir styrkþega þarf hún að hafa fyrrgreind gögn.
10. Mannréttindanefnd leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttindanefnd ítrekar þá ósk sína sem kom fram á fundi mannréttindanefndar þann 1. nóvember 2006 að formaður KSÍ komi á fund nefndarinnar til að ræða þann mikla mun sem er á stöðu og kjörum kvenna og karla í landsliðum. Fulltrúum nefndarinnar þykir miður að formaður KSÍ hafi ekki séð sér fært að svara beiðni nefndarinnar um að mæta á fund nefndarinnar né heldur að senda annan fulltrúa í sinn stað. Um leið og nefndin ítrekar fyrri ósk sína vill hún benda á ákvæði 9.3 og 9.4 í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en þar segir:
9.3 Styrkir Reykjavíkurborgar eru bundnir því skilyrði að unnið sé gegn mismunun og að jafnrétti. Mannréttindanefnd getur krafið viðtakanda styrks um greinargerð um ráðstöfun hans til að fylgjast með því að hann sé nýttur á jafnréttisgrundvelli.
9.4 Reykjavíkurborg áskilur sér þann rétt að fara fram á að þeir samstarfsaðilar sem þiggja styrki frá borginni vinni mannréttindaáætlun með mælanlegum markmiðum. Þannig sé reynt að tryggja að fjármunir renni jafnt til beggja kynja og að sú starfsemi sem er styrkt mótist af mannvirðingu.
Fundi slitið kl. 14.30
Marsibil J. Sæmundardóttir
Sif Sigfúsdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir