Mannréttindaráð - Fundur nr. 1

Mannréttindaráð

Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar var haldinn 1. fundur Mannréttindaráðs Reykjavíkur-borgar. Fundurinn var haldinn Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.10. Fundinn sóttu: Sóley Tómasdóttir, Marsibil J. Sæmundardóttir, Falasteen Abu Libdeh, Guðrún Ásmundsdóttir, Andri Óttarsson, Marta Guðjónsdóttir og Sif Sigfúsdóttir. Jafnframt sat fundinn Þórhildur Líndal, sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Samþykkt fyrir Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík um samþykkt fyrir mannréttindaráð, dags. 19. des. 2007, til kynningar.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og F-listans óskuðu bókað:

Mannréttindaráð fagnar þeirri samþykkt Borgarstjórnar Reykjavíkurborgar að breyta mannréttindanefnd í mannréttindaráð og þar með gefa mannréttinda-málum aukið mikilvægi innan stjórnsýslu borgarinnar. Þessi ákvörðun er ekki síður stórt skref í þágu allra borgarbúa.

2. Mannréttindaráð – kosning fulltrúa
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 19. des. 2007, um kosningu fulltrúa í mannréttindaráð til loka kjörtímabilsins, til kynningar.

3. Fundaáætlun mannréttindaráðs fram til 1. júlí 2008
Lögð fram til afgreiðslu tillaga að fundaáætlun mannréttindaráðs til 1. júlí 2008.
Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðismanna í mannréttindaráði lýsa undrun sinni á vinnubrögðum og metnaðarleysi nýs meirihluta við undurbúning funda í ráðinu. Mælst er til þess, að öll gögn berist a.m.k þremur dögum fyrir fund ásamt dagskrá, eins og venjan er í öðrum ráðum á vegum borgarinnar.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og F-listans óskuðu bókað:

Tökum heilshugar undir gagnrýni á vinnubrögð við skipulag fundarins. Ástæðan var þó ekki metnaðarleysi heldur hátíðir og ófyrirsjáanlegar uppákomur. Við hörmum þessa uppákomu og heitum betri undirbúningi í framhaldinu.

4. Nýsköpunarverkefnið: Okkar raddir, heimildarmynd um börn innflytjenda á Íslandi.
Oddný Helgadóttir og Jón Gunnar Ólafsson höfundar myndarinnar mættu á fundinn og kynntu hana.

Bókun mannréttindaráðs:

Mannréttindaráð þakkar Oddnýju Helgadóttur og Jóni G. Ólafssyni fyrir kynningu á stuttmyndinni “Okkar raddir”. Myndin er vel unnin og sýnir vel fjölbreytileika samfélagsins eins og hann er í dag.


5. Þjónustusamningur við Samtökin 78
Bréf frá sviðsstjóra Velferðarsviðs, dags. 21. desember sl., lagt fram til kynningar.
Samþykkt að fela mannréttindastjóra að útbúa drög að samningnum í samstarfi við Samtökin 78.

6. Mannréttindadagur Reykjavíkurborgar
Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga mannréttindaráðs:

Mannréttindaráð samþykkir að tilnefna 16. maí sem mannréttindadag Reykjavíkurborgar, en á þeim degi árið 2006 var Mannréttindastefna borgarinnar samþykkt samhljóða í borgarstjórn. Í kjölfarið var jafnréttisnefnd lögð niður og mannréttindanefnd sett á laggirnar sem nú hefur verið breytt í mannréttindaráð, sbr. samþykkt um Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar frá 18. desember sl. Á árlegum mannréttindadegi verður mannréttindaverðlaunum Reykjavíkurborgar úthlutað.

Samþykkt.


Fundi slitið kl. 13.50

Sóley Tómasdóttir

Marsibil J. Sæmundardóttir Falasteen Abu Libdeh
Guðrún Ásmundsdóttir Andri Óttarsson
Marta Guðjónsdóttir Sif Sigfúsdóttir