Mannréttindaráð - 269. fundur

Mannréttindaráð

JAFNRÉTTISNEFND

Ár 2004, hinn 1. nóvember, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 269. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 16.15.
Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Tinna Traustadóttir og Margrét Einarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Starfs- og fjárhagsáætlun 2005.
Margrét Einarsdóttir og Tinna Traustadóttir lögðu fram svohljóðandi tillögu um viðbót við kaflann: Þjónusta / Tryggja jafnræði og jafnrétti, fyrstu málsgrein:

Ein af forsendum þess að fullt jafnrétti á milli kynjanna náist í Reykjavík er að hér séu sköpuð skilyrði til að hægt sé að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Jafnréttisnefnd vill því stuðla að því að hugmyndafræði og aðferðir Hins gullna jafnvægis nái til allra stofnana og starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Þannig vill jafnréttisnefnd stuðla að því að allir foreldrar sem þess óska geti fengið pláss fyrir börnin sín frá 9 mánaða aldri hjá dagforeldrum eða á leikskólum borgarinnar. Enn fremur vill jafnréttisnefnd leggja áherslu á að í grunnskólum borgarinnar verði rekinn öflugur heilsdagsskóli þar sem börn hafi aðgang að bæði íþrótta- og tónlistarkennslu.

Marsibil Sæmundsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson og Guðný H. Magnúsdóttir lögðu fram breytingartillögu um að tvær síðustu setningar tillögunnar falli brott og viðbótin hljóði svo:

Ein af forsendum þess að fullt jafnrétti á milli kynjanna náist í Reykjavík er að hér séu sköpuð skilyrði til að hægt sé að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Jafnréttisnefnd vill því stuðla að því að hugmyndafræði og aðferðir Hins gullna jafnvægis nái til allra stofnana og starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Breytingartillagan samþykkt með 3 atkv. gegn 2.
Svo breytt starfsáætlun var samþykkt með 3 atkv. en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Vegna samþykktar á starfsáætlun og afgreiðslu á tillögum í því sambandi viljum við undirstrika að við telum mikilvægt að því markmiði verði náð að öllum börnum standi til boða fagleg dagvistun. Því fögnum við því að allir foreldrar sem þess óska hafi getað fengið niðurgreidda þjónustu fyrir börnin sín frá 9 mánaða aldri hjá dagforeldrum eða leikskólum. Þetta hefur þegar náðst fram.
Jafnframt áréttum við mikilvægi þess að samræma skóladag grunnskólanema vinnudegi foreldra til að tryggja að skóladagurinn skiptist í eðlilegar einingar, þar sem nemendur stundi almennt nám, útivist og íþróttir, listnám og tómstundastarf innan grunnskólans eða í tengslum við hann, s.s. í öflugum frístundaheimilum, óháð efnahag foreldra. Til að vinna að framgangi þessa máls teljum við nauðsynlegt að efla samstarf jafnréttisnefndar við fræðsluráð, leikskólaráð og íþrótta- og tómstundaráð.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að meirihlutinn vilji ekki samþykkja tillögu D-lista um að í starfsáætlun jafnréttisnefndar verði lögð aukin áhersla á að í grunnskólum borgarinnar verði rekinn öflugur heilsdagsskóli þar sem börn hafi aðgang bæði að íþrótta- og tónlistarkennslu.

Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við teljum, eins og fram kemur í fyrri bókun okkar, að rekin séu öflug frístundaheimili og að nemendum standi til boða í grunnskólum listnám, íþróttir og útivist, auk almenns náms. Til þess að efla þetta starf enn betur, er nauðsynlegt að taka upp aukið samráð við þær nefndir sem fara með þessa málaflokka. Þetta viljum við gera. Þess vegna teljum við ekki rétt á þessu stigi að setja þetta eingöngu í starfsáætlun jafnréttisnefndar.


Fundi slitið kl. 17.10

Marsibil Sæmundsdóttir

Guðný H. Magnúsdóttir Margrét Einarsdóttir
Tinna Traustadóttir Stefán Jóhann Stefánsson