Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 6

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 10. nóvember var haldinn 6. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.15. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Þorvaldur Daníelsson, Sabine Leskopf, Helga Þórðardóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að reglum mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um styrki. MSS22110027 Samþykkt.

    Fylgigögn

  2. Lagt til að Þorvaldur Daníelsson, Sabine Leskopf og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í valnefnd vegna styrkja mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. MSS22110029
    Samþykkt.

  3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi fatlaðs fólks sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. Jafnframt er lögð fram umsögn aðgengis- og samráðsnefndar dags. 6. október 2022. MSS22060242. 

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun;

    Flokkur fólksins lagði til að gerð yrði athugun á aðgengismálum fatlaðra. Farið verði í skipulagða úttekt á miðborginni á því hvaða staðir það eru þar sem ekki er hægt að koma við hjólastól og þar sem hættur leynast fyrir sjónskerta svo fátt eitt sé nefnt. Tillögunni var vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar með bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu þann 1. september 2022. Í umsögn bendir aðgengis-og samráðsnefnd á að aðgengisstefna Reykjavíkur hafi verið samþykkt 3.maí 2022. Nefndin telur mikilvægt sé að úttektir séu gerðar í samræmi við aðgengisstefnuna þar sem horft sé til ólíkra og fjölbreyttra aðgengisþarfa. Flokkur fólksins hefur bent á að þessi samþykkta aðgengisstefna borgarinnar sé ekki sýnileg, ekki á vef borgarinnar. Hefur Flokkur fólksins fengið loforð um að úr því verði bætt.

     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að fundir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs verði opnir fundir, sbr. 16. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 22. september 2022. MSS22090177

    Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins var um að fundir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs verði opnir fundir. Gagnsæi hefur oft verið í umræðunni hjá síðasta meirihluta og er þessi tillaga liður í að opna vinnu borgarfulltrúa fyrir borgarbúum. Vinna í mannréttinda- og ofbeldisráði er kjörið ráð til að hafa fundi að öllu jafna opna í þeirri merkingu að borgarbúar geti hlustað á það sem fram fer á fundum, kynningar, fræðslu og umræðu um mál sem eru á dagskrá. Mannréttindi og ofbeldismál varða okkur öll og er sjálfsagt að allir sem vilja hafi greiða aðkomu að stjórnkerfi sem fjallar um þessi mál. Ef verið er að fjalla um persónugreinanleg málefni á þessi hugmynd vissulega ekki við. Lítið mál er að stjórna því ef um er að ræða streymi eða upptöku. Auknar upplýsingar hvetja auk þess til frekari þátttöku íbúa og efla lýðræðið. Tillagan er lögð fram í ljósi þess að í samþykktum ráðsins segir að það skuli stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og upplýstri umræðu um ofbeldi á öllum sviðum borgarinnar. Í Ráðinu eru jafnan upplýsandi og fróðlegar kynningar sem eiga erindi við borgarbúa.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um skipan í ráð og nefndir, sbr. 15. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 22. september 2022. MSS22090176 

    Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um skipan í ráð og nefndir: Fulltrúi Flokks fólksins vísar hér í bókun Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis þar sem gerð er athugasemd við kynjaskiptingu fulltrúa í Öldungaráði Reykjavíkurborgar 2022 - 2023. Aðalfulltrúar eru samtals níu, þar af eingöngu 3 karlar á móti 6 konum. Þar munar mestu um að aðalfulltrúar borgarstjórnar eru 3 og allir konur. Fulltrúa skipting ráðsins er þriðjungur karlar og 2/3 konur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttindaráð beiti sér í þessu máli. Ráðið gæti sent frá sér hvatningu/yfirlýsingu til sitjandi borgarfulltrúa og til viðkomandi ráða þar sem kynjahlutföll eru í ólestri.

     

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um stöðu eineltismála. MSS22100254 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð lýsir yfir áhyggjum af stöðu eineltismála í skólakerfinu og hversu algeng og alvarleg þau mál eru eins og fréttir síðustu misseri bera með sér. Einelti í öllum sínum myndum er óásættanlegt og tryggja verður að börn geti gengið til skóla án þess að vera fyrir einelti. Óbreytt ástand kallar á endurskoðun núverandi verkferla og ekki síður endurskoðun framkvæmdar á þeim verkferlum sem til staðar eru, ekki síst með hliðsjón af stafrænu ofbeldi og snjallsímanotkun grunnskólabarna. Ályktun þessi skal send skóla- og frístundaráði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru allir slegnir yfir þeim hræðilegu eineltismálum sem hafa opinberast undanfarið. Flokkur fólksins vill að þessi mál verði tekin alvarlega og að farið verði í að skoða hvernig staðan er hjá Reykjavíkurborg og leggur áherslu á að allir eineltisferlar verði skoðaðir í grunnskólum Reykjavíkur. Hér er um samvinnuverkefni okkar allra að ræða. Skólar- og íþróttafélög eru í lykilstöðu í þessum málum. Í þessu sambandi má nefna að á næsta fundi borgarstjórnar mun Flokkur fólksins leggja fram tillögu um að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar, íþrótta- og tómstundafélög Reykjavíkurborgar, hafa tiltæk þegar upp koma eineltis eða önnur ofbeldismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og félaga þurfa að vera til eftirfarandi gögn og þau aðgengileg á heimasíðu eða í snjallforriti: Stefna í eineltis- og öðrum ofbeldismálum, Viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferlar ef tilkynning berst um einelti, Tilkynningareyðublað, Upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu. Gagnsemi mælaborðsins er margþætt m.a. Að foreldrar geta kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþróttafélagi.

     

  7. Fram fer umræða um ofbeldi meðal ungmenna. MSS22100253 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð lýsir yfir áhyggjum af aukinni ofbeldismenningu á meðal ungmenna og ekki síst auknum vopnaburði ungmenna eins og fréttir síðustu missera bera með sér. Ekkert ungmenni á að þurfa að verða fyrir ofbeldi. Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð telur mikilvægt að öll svið og stofnanir borgarinnar kanni ítarlega með hvaða hætti viðkomandi svið eða stofnun hefur snertiflöt við aukna ofbeldismenningu meðal ungmenna og til hvaða úrræði mætta grípa í því samhengi. Ályktun þessi skal send fagráðum borgarinnar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þeir sem umgangast börn og ungmenni í leik og starfi skynja að það eru ýmis vandamál sem hrjá ungt fólk. Þetta staðfesta ýmsar rannsóknir og skýrslur. Ekkert okkar hefur farið varhluta af fréttum um ofbeldi meðal ungmenna og einelti. Flokkur fólksins hefur af þessu miklar áhyggjur og þess vegna lagði Flokkur fólksins það til í borgarstjórn að settur verði á laggirnar stýrihópur sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Einnig meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum. Mikilvægt er að fá upp á borðið hugmyndir að fjölbreyttum aðgerðum sem hafa það að markmiði að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum í starfi þeirra. Kalla þarf eftir félagslegri umræðu og skerpa á ábyrgð foreldra, skólasamfélagsins og íþrótta og tómstunda hreyfinga. Allir aðilar þurfa að taka ábyrgð og koma að fræðslu og forvörnum. Við þurfum að ræða hver er aðkoma samfélagsmiðla að þessari þróun en allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess. Fyrst og fremst verðum við að eiga samtal um þessa þróun og hlusta og bregðast við. Stoppa þarf þessa þróun með öllum ráðum og dáð.

    -    Kl. 14.41 víkur Anna Kristinsdóttir af fundinum. 

  8. Fram fer umræða um hatursorðræðu og aukið aðkast sem hinsegin ungmenni verða fyrir. MSS22100255

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð lýsir yfir áhyggjum af hatursorðræðu og auknu aðkasti sem hinsegin ungmenni verða fyrir. Ráðið telur brýnt að Reykjavíkurborg vinni kerfisbundið gegn þessu vandamáli og styðji vel við og tryggi fjármögnun allra þeirra verkefna sem í gangi eru innan borgarinnar, til dæmis Regnbogavottun, Hinsegin félagsmiðstöðina og frístundastarf fyrir hinsegin börn 10-12 ára. Ályktun þessi skal send skóla- og frístundaráði, velferðarráði og borgarráði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi aukning á hatursorðræðu og fordómum í garð hinsegin ungmenna er hræðileg eins og allt ofbeldi. Hatursorðræða er ofbeldi sama hverjum það beinist að. Hver sem verður fyrir fordómum eða ofbeldi verður að finna að það sé tekið mark á honum/henni og að viðkomandi fái stuðning frá nærsamfélaginu. Sennilega er þessi aukning hluti af þeim vanda sem er að birtast okkur í öðrum ofbeldismálum og hugsanlega tengd vanlíðan ungs fólks sem fram hefur komið í ýmsum skýrslum. Þessir fordómar og hatursorðræða virðist fyrst og fremst birtast á samfélagsmiðlum. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Gerendur í þessum málum gera sér sennilega ekki grein fyrir því hvað gerðir þeirra hafa alvarlegar afleiðingar og þá ekki bara fyrir þolendur heldur líka fyrir gerendur. Þess vegna er mikilvægt að styðja alla aðila í slíkum málum og hefjast handa við að fræða börn og ungmenni um hvað svona hegðun er meiðandi og skaðleg. Flokkur fólksins vonar og trúir því að allir flokkar í borgarstjórn taki þessa þróun alvarlega og bregðist við eins fljótt og auðið er.

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  9. Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun stýrihóps sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 18. október. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22100160
    Frestað.

    Fylgigögn

  10. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um samvinnu vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu, sbr.13. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090060 
    Frestað. 

    Fylgigögn

  11. Tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um auknar forvarnir, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 22. september 2022. MSS22090179
    Frestað.

     

    Fylgigögn

  12. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að fjármagn til NPA samninga sé ekki nægjanlegt, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. október 2022. MSS22100261 
    Frestað.

    Fylgigögn

  13. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að kynningar í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði verði opnar borgarbúum, sbr. 13 lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. október 2022. MSS22100262 
    Frestað. 

    Fylgigögn

  14. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um myndavélar á leikvöllum borgarinnar, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. október 2022. MSS22100263 
    Frestað.

     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:51

Magnús Davíð Norðdahl
Þorvaldur Daníelsson Helga Þórðardóttir
Sabine Leskopf Friðjón R. Friðjónsson
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Ásta Björg Björgvinsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Sabine Leskopf Helga Þórðardóttir

Friðjón R. Friðjónsson Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Ásta Björg Björgvinsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
6. Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 10. nóvember 2022.pdf