Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 4

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 22. september var haldinn 4. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.11. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Þorvaldur Daníelsson, Rannveig Ernudóttir, Helga Þórðardóttir og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Jórunn Pála Jónasdóttir. Einnig sat fundinn Guðný Bára Jónsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 21. september 2022, um að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti sem aðalmaður í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Trausta Breiðfjörð Magnússonar. Jafnframt að Andrea Helgadóttir taki sæti sem varamaður í stað Sönnu Magdalenu Mörtudóttur. MSS22060044

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 21. september 2022, um samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá  20. september 2022. MSS22080226

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaráð er að taka miklum breytingum. Búið er að taka stafrænu málin úr því og setja í sér ráð og inn er kominn málaflokkur ofbeldis sem áður átti sína eigin nefnd. Þessar breytingar eru umdeildar og óvíst hvort þessi breyting verður til góðs. Hætta er á að ofbeldis- málaflokkurinn fái mun minna vægi en áður. í samþykktinni segir “mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð heldur að jafnaði tvo fundi í mánuði. Einn fundur í mánuði skal að jafnaði tileinkaður ofbeldisvarnarmálum og á þá fundi skal boða áheyrnarfulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf og landlæknis” Þetta er fjórði fundur ráðsins og ekki hefur verið boðað til slíks fundar. Í samþykktinni stendur jafnframt Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð skuli hafa eftirlit með rekstri mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hvað þetta þýðir, hversu umfangsmikið er þetta eftirlit? Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá mannréttindaráðið vera vakandi yfir því hvar pottur er brotinn og hvar er mögulega verið að brjóta mannréttindi á fólki. Ráðið þarf einnig að láta sig alla hópa samfélagsins varða, efnaminni og fátæka, eldra fólk, börnin sem bíða á biðlistum, fatlað fólk og öryrkja. Ráðið getur beitt sér af krafti í mörgum málum og óskað eftir samvinnu við önnur fagráð.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um stöðu heimilislausra kvenna í Reykjavík. MSS22090134

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð lýsir yfir áhyggjum af húsnæðismálum Konukots. Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð telur brýnt að fundið verði hentugra húsnæði undir starfsemi Konukots án tafar. Núverandi húsnæði við Eskihlíð er löngu sprungið, ástand þess lélegt og hentar það illa fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Fylgir því ákveðin áhætta því að hafa starfsemina í húsnæðinu. Bókun þessi skal send Velferðarráði. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar umræðunni um heimilislausar konur. Flokkur fólksins hefur nýlega kallað eftir vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem ætti að vera búin að skila af sér niðurstöðum í apríl. Vandi heimilislausra kvenna með miklar og flóknar þjónustuþarfir er mikill. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær má vænta niðurstöðu?

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 22. september 2022, um erindisbréf starfshóps um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun hjá skrifstofum Ráðhúss. MSS21120230
    Samþykkt. 

    Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

     

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 22. september 2022, um rafrænan upplýsingabækling fyrir kjörna fulltrúa um kynjaða fjárhags - og starfsáætlun. MSS21120230 
    Samþykkt.

    Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að ályktun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við allar fjárhagslegar ákvarðanir. MSS21120230
    Samþykkt. 

    Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um að fella niður gjöld á handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra í bílastæðahúsum, sbr. 12. lið fundargerðar  mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090059
    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um að beita sér fyrir mannréttindum lítilla barna, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090062 
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 
    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands  taka undir þau sjónarmið að gera eigi mannréttindum barna hátt undir höfði. Ráðið hefur og mun áfram beita sér á þessu sviði og er með margvísleg verkefni í gangi meðal annars fyrirhugaða innleiðingu verkefnisins Barnvæn sveitarfélög sem er á dagskrá fundarins síðar í dag. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks Flokks fólksins, um aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 15. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090063 
    Vísa til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks Flokks fólksins um að tryggja jafnræði og opna möguleika á sveigjanlegum vinnutíma, sbr. 16. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090064 
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð beiti sér fyrir því að tryggja jafnræði og opna möguleika á sveigjanlegan vinnutíma hjá starfsmönnum Reykjavíkur. Tillögunni er vísað frá. Flokkur fólksins hefur orðið þess áskynja að svo virðist sem sumir starfsmenn borgarinnar eiga auðveldara með að fá að vinna eftir sjötugt en aðrir. Hér þarf að gæta jafnræðis. Í þessu máli þarf mannréttindaráð að beita sér af krafti. Frelsi til að velja ætti að ríkja í þessu samfélagi sem státar sig af lýðræði og jafnrétti. Starfshópur um málið hefur nýlega skilað tillögum og eru þær raktar í umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs. Tillögurnar ganga of skammt að mati Flokks fólksins. Flokkur fólksins vill að gengið sé röskar til verks í þessu máli. Vissulega má fagna hverju skrefi sem tekið er í átt að sveigjanlegri starfslokum. Mannekla í ákveðnum störfum á þó ekki að stýra því hvort fólki sé leyft að vinna eins lengi og það langar og getur. Missir er fyrir samfélagið að sjá á eftir fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um sín atvinnumál eins og annað í lífinu. Sveigjanleg starfslok er pólitísk ákvörðun. Aukinn sveigjanleiki varðandi það hvenær og hvernig fólk lýkur atvinnuþátttöku leiðir til bæði efnahagslegs og heilsufarslegs ábata fyrir samfélagið.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að styðja við leigjendur á leigumarkaði, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090065 
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að að mannréttindaráð leiti leiða í samráði við velferðarráð til að styðja þá leigjendur sem verst eru settir vegna neyðarástands á leigumarkaði. Þessari tillögu er vísað frá. Við verðum að taka utan um leigjendur sem berjast í bökkum og er mannréttindaráð í góðri stöðu til þess. Flokkur fólksins vill tryggja öryggi leigjenda og réttindi þeirra og kallar til mannréttindaráðs að ganga til liðs við Flokk fólksins. Ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist mikið síðustu ár. Lágtekjufólk greiðir allt að 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Á meðan ástandið er svo slæmt þarf að auka beinan stuðning við leigjendur í formi húsnæðisbóta. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda og vill Flokkur fólksins skoða að setja á leiguþak eins og víða tíðkast í löndum sem við berum okkur helst við. Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur ítrekað komið inn á galla þéttingarstefnu meirihlutans en örsmáar íbúðir á þéttingarreitum eru dýrar hvort sem er til kaups eða leigu.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um að börn fái þjónustu, sbr. 18. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022. MSS22090066
    Vísað frá. 
    Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um að börn fái þjónustu er vísað frá. Flokkur fólksins spyr, hvað er mannréttindaráð að gera til að beita sér fyrir því að þessi börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á? Flokkur fólksins vill með þessari fyrirspurn vekja athygli mannréttindaráðs á þeim langa biðlista barna sem bíða eftir þjónustu fagaðila skóla. Börnin á biðlistanum eru nú 2012. Mannréttindaráð getur ekki litið fram hjá þessum biðlista. Sú langa bið og óvissa sem henni fylgir fara illa með börnin á biðlistanum og foreldra þeirra. Minnt er á hlutverk Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð sem er m.a. að láta sig mannréttindamál varða í fjölbreyttri mynd, það skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið hennar. Einnig er minnt á að Íslands hefur löggilt Barnasáttmálann en Reykjavíkurborg ekki.

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um Hinsegin fræðslu í Grunnskólum Reykjavíkur. MSS22090133 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessari umræðu því börn og ungmenni eru að biðja um meiri hinsegin fræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinsegin fræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður lagt til að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Nú hefur komið í ljós sbr. upplýsingar frá starfshópnum að námsefni og innleiðing (t.d. samþætting og skipulag) á kynja– og hinsegin fræði er af skornum skammti sem er með öllu óásættanlegt. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum.

  14. Fram fer kynning á verkefninu Barnvæn sveitarfélög - innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. MSS22060213 
    Samþykkt að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að kanna hvaða starfsfólk innan skrifstofunnar gætu tekið að sér að vera tengiliður við UNICEF og verið umsjónaraðili vegna verkefnisins Barnvæn sveitarfélög. Tillögur óskast afhentar eigi síðar en á næsta fundi ráðsins þann 27. október næstkomandi. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessari kynningu á iBarnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í borgarstjórn 18. jan. sl. tillögu þess efnis að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Nú er komið nýtt kjörtímabil og því mikilvægt að leggjast yfir þetta verkefni sem m.a. önnur sveitarfélög hafa lokið. Hér getur mannréttindaráð beitt sér af krafti. Til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann þarf að leggjast í þá vinnu að finna út hvað þarf að laga og bæta í aðstæðum barna í Reykjavík. Daglega er brotið á börnum í Reykjavík á hinum ýmsu sviðum og er skemmst að nefna að þau fá ekki nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu. Fyrsta skrefið er að greina og leggja mat á hvað þarf til til að hægt sé að hefja innleiðingarferlið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipaður verði stýrihópur eins og tillagan kveður á um sem færi í ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. Tillögunni var vísað í borgarráð og ekkert hefur frést af henni síðan. Flokkur fólksins hefur óskað eftir hverju það sætir.
     
    Hanna Borg Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins vísar hér í bókun Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis þar sem gerð er athugasemd við kynjaskiptingu fulltrúa í Öldungaráði Reykjavíkurborgar 2022 - 2023. Aðalfulltrúar eru samtals níu, þar af eingöngu 3 karlar á móti 6 konum. Þar munar mestu um að aðalfulltrúar borgarstjórnar eru 3 og allir konur. Fulltrúa skipting ráðsins er þriðjungur karlar og 2/3 konur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttindaráð beiti sér í þessu máli.

    Tillögunni fylgir greinagerð. MSS22090176
    Frestað. 

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga um að fundir mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs verði opnir fundir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að öllu jöfnu verði fundir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs opnir. Hægt væri sem dæmi að hlusta á þá í streymi. Önnur útfærsla væri að teknar verði hljóðupptökur af fundum með hagkvæmum hætti sem væru síðan aðgengilegar á vef borgarinnar. Auðvitað gerir Flokkur fólksins sér grein fyrir því að það koma fundir sem þarf að hvíla leynd yfir til dæmis ef til umfjöllunar eru persónugreinanlegar upplýsingar.Tillagan er lögð fram í ljósi þess að í samþykktum segir að Ráðið skuli stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og upplýstri umræðu um ofbeldi á öllum sviðum borgarinnar. Í Ráðinu eru jafnan kynningar sem eiga erindi til borgarbúa. Með því að hafa fundi opna eykst auk þess gagnsæi og gerir almenningi og fjölmiðlum kleift að fylgjast betur með störfum ráðsins. MSS22090177

    Frestað. 

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Tillaga Sósíalista er tilkomin vegna alvarlegra ofbeldisatburða innan Breiðholts þar sem börnum er ógnað með hnífum innan og utan skólalóða í hverfinu. Lagt er til að farið verði sérstaklega í forvarnir til að vinna með fjölmenningu á svæðinu og árekstra tengda börnum frá mismunandi menningarheimum ásamt því að gefa það skýrt til kynna að ofbeldi sé ekki lausn í deilum og að ofbeldi verði ekki liðið innan Reykjavíkurborgar. MSS22090179

    Frestað.

    -    Kl. 15.52 víkur Árelía Eydís Guðmundsdóttir af fundinum.
    -    Kl. 15.57 víkur Rannveig Ernudóttir af fundinum.

Magnús Davíð Norðdahl Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Þorvaldur Daníelsson Helga Þórðardóttir

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Jórunn Pála Jónasdóttir