Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 36

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 20. júní var haldinn 36. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.09. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Magnús Davíð Norðdahl, Þorvaldur Daníelsson, Sabine Leskopf, Friðjón R. Friðjónsson og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Margrét Kristín Pálsdóttir, Jenný I. Ingudóttir, Linda Dröfn Gunnarsdóttir og Drífa Snædal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Árelía Eydís Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og starfsfólk sat fundinn: Anna Kristinsdóttir og Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf mannauðs- og starfsumhverfissviðs dags. 15. maí 2024, um greinagerð með framlagningu uppfærslu á stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg. MOS24040001 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands fagna uppfærslu á stefnu gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO) hjá Reykjavíkurborg. Ráðið þakkar fyrir góða kynningu og þakkar sömuleiðis þá góðu vinnu sem liggur að baki uppfærslunni.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins gerir athugasemd við hversu þröng skilgreiningu á einelti er og telur að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa ættu að beita sér fyrir að fá hana útvíkkaða. Árið 2015 var gerð þrenging á skilgreiningu eineltis sem fól í sér að það sem var "ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi" breyttist í aðeins "síendurtekin ámælisverð hegðun". Túlkunin á þessari þröngu skilgreiningu hefur gengið svo langt hjá mörgum þeim sem rannsaka eineltiskvartanir að þeir hafa fullyrt að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast sem síendurtekin og þ.a.l. undir einelti. Þrenging skilgreiningarinnar hefur haft fælingarmátt. Einnig er vert að ávarpa að það er of algengt að utanaðkomandi sérfræðingar sem rannsaka eineltisásakanir á vinnustað, komast að sömu niðurstöðu og vinnuveitandinn virðist hafa á eineltismálinu. Rannsakandinn er jú háður vinnuveitandanum með þóknun sína. Mikilvægt er að tryggja að rannsakandi sé óháður með sama hætti og gert er þegar dómstóll kallar til dómkvaddan matsmann. Sá sem tilkynnir einelti þarf að geta tryggt að rannsakandi málsins sé óháður og báðir aðilar, meintur þolandi og gerandi eiga að geta kannað feril viðkomanda hvað varðar, sem dæmi, rannsókn mála af þessu tagi.

    Helga Bryndís Kristjánsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um minnisvarða fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis, ásamt umsögnum um tillöguna sbr. 4. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 23. maí 2024. MSS24010173
    Frestað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins líður með öllum þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi og vill gera allt til að auka forvarnir og fræðslu til að sporna megi við ofbeldis tilfellum. En Flokkur fólksins telur ekki rétt að fjárfesta í einhverjum sérstökum minnisvarða. Þeir umsagnaraðilar sem boðið var að senda inn umsögn eru meira og minna á sama máli. Áherslan er á að verja fjármunum í forvarnir og fræðslu og ekki síst úrræði fyrir þolendur ofbeldis og meðferð fyrir gerendur eftir atvikum Mannréttinda-og ofbeldisvarnarráð óskaði eftir umsögn nokkurra félagasamtaka um tillöguna og eru þær að mestu samhljóma skoðun fulltrúa Flokks fólksins. Öll félagasamtökin telja ekki tímabært að reisa minnisvarða um eitthvað sem var og öll eru þau sammála um að skynsamlegra sé að verja fjármunum Reykjavíkurborgar í forvarnir og fræðslu gegn ofbeldi. Hugmyndin um minnisvarða er í grunnin falleg og er lögð fram með góðum hug. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála félagasamtökunum um að betra sé að nýta fjármagn í fólk, forvarnarstarf og fræðslu frekar en einhvers konar táknmynd um ofbeldi sem við erum ennþá að berjast gegn.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 13. júní 2024, um drög að verklagsreglum Reykjavíkurborgar þegar starfsfólk verður fyrir heimilisofbeldi. MSS24030051 
    Samþykkt að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í samstarfi við mannauðs- og starfsumhverfissviðs að innleiða verklagsreglurnar. 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði líst vel á framlögð drög að verklagsreglum um viðbrögð vegna heimilisofbeldis þegar starfsfólk á í hlut ásamt leiðbeiningum. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg leggi sitt á vogarskálarnar til þess að vinna gegn heimilisofbeldi í öllum birtingarmyndum þess. Er því beint til mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar að ljúka við endanleg drög þannig að hægt sé að birta og hefja kynningu á umræddum verklagsreglum og leiðbeiningum. Mikilvægt að verklagsreglur og leiðbeiningar séu einnig birtar á öðrum tungumálum en íslensku með hliðsjón af fjölbreytileika í starfsmannahópi borgarinnar.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 15. júní 2024, um erindisbréf starfshóps og verkáætlun vegna aðgerðaráætlunar Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2024 – 2026. MSS24060082
    Samþykkt. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir að Aðgerðaráætlunin gegn ofbeldi getur aldrei orðið tæmandi enda eru ný afbrigði af birtingamyndum sífellt að bætast við. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekkert aðalatriði að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið, svo vitað sé, sem er með gildandi aðgerðaráætlun gegn ofbeldi. Aðalatriðið er að Reykjavík sé með aðgerðaráætlun og að henni sé fylgt í hvívetna en sé ekki aðeins orð á blaði eða notað til að hreykja sér. Það eru nokkrar birtingamyndir ofbeldis sem fulltrúa Flokks fólksins finnst að fái ekki nægja athygli og skoðun. Nefna má ofbeldi meðal barna, þegar barn beitir annað barn ofbeldi af einhverju tagi. Þessi mál eru ávallt erfið og því miður er oft rangt tekið á þeim. Gerandi ofbeldis sem er barn á í vanda og þarfnast faglegrar aðstoðar. Í slíkum tilfellum þurfa að vera viðeigandi úrræði. Næst má nefna ofbeldi gagnvart eldra fólki. Það hefur færst í aukana. Á fundi Landssambands eldri borgara fyrir skemmstu var m.a. rætt um að ofbeldi gegn eldra fólki hafi aukist. Slíkar fréttir valda okkur flestum óhug. Rannsóknaniðurstöður sýna að gerendur eru oftast einhverjir í innsta hring eða sá sem viðkomandi er háður og nýtur stuðnings frá. Aldraðir eru þess vegna ólíklegri til að tilkynna ofbeldið.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 13. júní 2024, um 10 ára afmæli verkefnisins Saman gegn ofbeldi. MSS22110176 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfsagt er að fagna 10 ára afmæli verkefnisins Saman gegn ofbeldi. Margar vísbendingar sýna fram á að verkefnið hafi skilað góðum árangri. Kjarni verkefnisins er að ef börn eru á vettvangi útkalls vegna heimilisofbeldis skulu starfsmenn barnaverndar upplýstir og kallaði á vettvang. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og rýna hvað má betur fara til að verkefnið skili enn betri ávinningi? Mesti og helsti ávinningurinn er að börn sem verða vitni að ofbeldi fá í kjölfarið sálfræðiaðstoð, áfallahjálp, innan 48 stunda og einnig eftirfylgni og áframhaldandi sálfræðiaðstoð. Eins og við öll vitum eru áhrif og afleiðingar áfalls sem þessa oft langvinnar og djúpstæðar. Mesta áhættan er e.t.v. að eftirfylgni verði hætt of snemma. Einnig er hætta á að mál af þessu tagi verði aðeins eins konar “löggumál”. Finna þarf betri tryggingu fyrir að fagfólkið verði ekki í bakgrunninum heldur það sem næst stendur börnunum og séu hluti af kjarna málsins. Barn á heldur aldrei að þurfa að bíða. Biðin ein og sér t.d. bið eftir að rannsóknarvinnu lýkur getur haft skaðlegar afleiðingar á ungar hræddar sálir.

    Fylgigögn

  6. Kynningu á verkefnum mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, er frestað. MSS24040061 

Fundi slitið kl.15.01

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Sabine Leskopf Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Friðjón R. Friðjónsson

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 20. júní 2024