Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 3

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 8. september, var haldinn 3. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Kolbrún Baldursdóttir og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Rannveig Ernudóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 2. september 2022, um kynningu á verkefninu Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis, styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna 2022. MSS22050039

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis og aðferðarfræði kynjaðrar fjármála með áherslu á margbreytileika sjónarmið mannréttindastefnu borgarinnar? Erfitt er að átta sig á út á hvað þetta gengur. Hver ætlar t.d. að skilgreina „réttlátt umskipti“? Flokkur fólksins vill skilja réttlæti í öllum myndum fyrir öll kyn. Flokkur fólksins hefur lagt fram margar tillögur sem leiða til umskipta á leið til kolefnishlutleysis sem gagnast öllum. Til dæmis að hvetja til að borgin kaupi ekki bensínbíla, tillögur um skógrækt frá Rauðavatni að Hengli og margt fleira. Þessar tillögur koma öllum vel og snúa að margbreytileika en hafa reyndar allar verið felldar? Nú er farið að tengja þetta við aðferðarfræði kynjaðra fjármála. Að sjálfsögðu þarf að gæta þess að fjármagni sé dreift réttlátt og ekki hallað á kyn/getu fólks, einstaklinganna. Almennt þarf að huga að því að koma fjármálunum borgarinnar í lag. Staðan er grafalvarleg. Tími er til að hægja á þéttingu byggðar þar sem farið er víða að ganga á græn svæði. Einnig á að hætta að ganga á fjörur. Hafa þessar aðgerðir mismunandi áhrif á kyn? Stjórnvalda er að grípa til alls kyns aðgerða til að ná fram ákveðnum markmiðum sem vissulega gætu haft mismunandi áhrif á kyn.

    Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Brynhildur Hallgrímsdóttir og Finnborg Steinþórsdóttir taka sæti með rafrænum hætti.

     

    Fylgigögn

  2. Lögð fram útfærsla mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 6. september s.l., á tillögu um úttekt í ofbeldisvarnarmálum, sbr. samþykkt mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní s.l. MSS22060211

    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur til að framkvæmd verði úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg til að fá heildstæða sýn á stöðu ofbeldisvarna í víðu samhengi. Flokkur fólksins vill gjarnan fá að fylgjast með hvernig framkvæmdin á að vera en hana á að útfæra í mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi komi að framkvæmdinni og úttektinni sjálfri. Verði þolendur sniðgengnir munu niðurstöður ekki hafa mikið vægi. Hér er um risastóran málaflokk að ræða sem nú hefur verið þjappaður inn í mannréttindaráð. Áður var til sérstakt ofbeldisvarnarráð. Flokkur fólksins vill skoða hvað er brýnast, hvar er þörfin mest? Það sem hefur verið í umræðunni er ofbeldi meðal ungs fólks sbr. orð verkefnastjóra á neyðarmóttöku Landspítalans í fréttum rúv 7.9. Aukin harka hefur færst í líkamsárásarmál, sérstaklega hjá ungu fólki. Myndskeið af unglingsstúlkum ganga í skrokk á annarri stúlku hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Flokki fólksins finnst einnig of lítið hafa verið rætt um ofbeldisvarnir gagnvart hópum eins og eldra fólki, fötluðu fólki og hjá hópum sem hafa ekki sterka rödd. Einelti á starfsstöðvum borgarinnar er einnig staðreynd. Flokkur fólksins hefur fengið ýmsar ábendingar um það. Skoða þarf ofbeldisvarnir á starfsstöðum borgarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf fjármála – og áhættustýringarsviðs ásamt fylgiskjölum dags. 1. september 2022, um undirbúning fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 og fimm ára áætlun 2023 - 2027. FAS22010020

  4. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 6. september 2022, um kynningu á skýrslunni Hate, Social Inclusion and Society Conference report September 2022. MSS21110025

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hatursorðræða birtist með margskonar hætti og beinist að ólíkum hópum. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki er oft vitað hver stendur á bak við hana. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu. Hatursorðræða beinist einnig gagnvart hópum eins og öryrkjum (fólk með fötlun) og eldri borgurum sem og öðrum minnihlutahópum. Þegar rætt er um þessi mál er mikilvægt að hafa alla þessa hópa í huga.

    Muhammed Emin Kizilkaya tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram greinagerð vegna styrks mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fyrir verkefnið Málþing vegna 40 ára afmælis Kvennaframboðsins í Reykjavík. MSS22080022

  6. Fram fer kynning forstöðukonu Hinsegin félagsmiðstöðvar á stöðu hinsegin barna í skóla- og frístundastarfi borgarinnar – umfjöllun um einelti og ofbeldi. MSS22080215 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð hefur miklar áhyggjur af stöðu hinsegin barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar með hliðsjón af nýlegum frásögnum af aðkasti sem umræddur hópur verður fyrir. Ráðið telur mikilvægt að gripið verði til tafarlausra aðgerða til þess að verja hinsegin börn og ungmenni og tryggja réttindi þeirra og velferð í hvívetna. Ályktun þessi skal send skóla- frístundaráði Reykjavíkurborgar með það að markmiði að umrætt ráð grípi hratt og vel til viðeigandi ráðstafana hinsegin börnum til heilla. Þá er skóla- og frístundaráð sérstaklega hvatt til þess að fá kynningu sem fyrst frá forstöðukonu hinsegin félagsmiðstöðvarinnar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynning fer fram á stöðu hinsegin barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar - umfjöllun um einelti og ofbeldi. Því miður viðgengst einelti í öllum skólum, frístund og tómstundum þó mismikið. Ekkert barn er undanskilið að geta á einum tímapunkti eða öðrum fundið sig í stöðu þolanda eineltis. Vissulega eru sum börn í meiri áhættu en önnur. Sem dæmi hafa rannsóknir sýnt að börn með ADHD eru í áhættu með að vera bæði þolandi og gerandi eineltis. Þessi mál er flókin og ótal breytur hafa áhrif, innri jafnt sem ytri. Fjöldi og alvarleiki eineltis og ofbeldistilvika í skólum og frístundastarfi er ekki hvað síst háð því hvernig stjórnun er háttað, hvort forvarnaráætlun sé til staðar og hvort gripið sé inn í strax með faglegum hætti þegar tilkynnt er um ofbeldismál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að vita hvort til séu metnaðarfullar, marktækar rannsóknir á einelti/ofbeldi gagnvart hinsegin börnum, hérlendis/erlendis? Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að gerðar séu reglulegar kannanir og rannsóknir í þessum málaflokki til að styðja við og styrkja viðeigandi inngrip og úrræði. Fræðsla og þekking er helsta vopnin gegn fordómum.

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Hrefna Þórarinsdóttir tekur sæti með rafrænum hætti. 

     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi i miðbæ fyrir fatlað fólk, sbr. 15. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080151 

    Vísað til umsagnar viðburðateymis menningar- og ferðamálssviðs. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni um að mannréttindaráð beiti sér þegar kemur að því að standa vörð um aðgengi fatlaðra, fólk með skerta hreyfigetu, að miðbænum á dögum eins og menningarnótt, 17. júní og Þorláksmessu er vísað til umsagnar Viðburðar- menningar- og ferðamálasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því.

     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiningu á efnahagslegum ójöfnuði, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080187

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um þjónustu á vegum borgarinnar, sbr. 18. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080188 

    Vísað frá.

    Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiningu á útvistun starfa, sbr. 19. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080189

    Vísað frá.

    Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

     

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 2. september 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 16. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. ágúst 2022. MSS22080179

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð beini því til Bílastæðasjóðs að fella niður gjöld á handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra í bílastæðahúsum. Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu og einnig að handhafar stæðiskorta megi aka eftir göngugötum. Samkvæmt 87. grein umferðarlaga er handhafa stæðiskorts skv. 1. mgr. heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu. Þetta er ekki virt í bílastæðahúsum þar sem greiða þarf fyrir öll stæði samkvæmt reglum Bílastæðasjóðs. Öryrkjabandalag Íslands bendir á að gjaldtaka í bílastæðahúsum sé ólögmæt samkvæmt 87. grein umferðarlaga. Hér eru lög og mannréttindi brotin á fötluðu fólki. Minnt er á minnisblað borgarlögmanns þar sem fram kemur sú niðurstaða að að Bílastæðasjóði hafi verið óheimilt að taka gjald af handhöfum P-korta Verið er að taka gjald af öryrkjum með stæðiskort þegar ekki á að gera það. Í núverandi gjaldskrá Bílastæðasjóðs segir að í bílastæðahúsum veiti stæðiskortin forgang til að leggja í sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlaða en greiða þurfi þó fyrir stæðið eins og önnur stæði í húsinu. Þarna er ekki farið eftir 87. grein umferðarlaga. Með samþykkt tillögunnar væru réttindi hreyfihamlaðra virt. MSS22090059

    Frestað.

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð óski eftir samvinnu við skóla- og frístundaráð, og velferðarráð um hvernig Reykjavíkurborg geti beitt sér vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu. Mannréttindaráð getur haft rík áhrif með því að óska samráðs við önnur ráð í málum sem mannréttindi eru ekki virt. Lögregla gaf nýverið út yfirlýsingu þar sem hún lýsti áhyggjum yfir auknum vopnaburði í miðbæ Reykjavíkur.Alvarleg hnífstunguárás átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur 12. ágúst síðastliðinn. Allir þeir sem sem áttu aðild að þeirri árás voru undir 20. ára aldri. Á menningarnótt voru endurteknar hnífstunguárásir þar sem börn undir lögaldri voru gerendur. Af fréttaflutningi að dæma eru þetta fyrst og fremst unglingspiltar. Í þessu sambandi mætti minna á að í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að börn eiga rétt á fræðslu, vernd, aðstoð og meðferð leiki grunur á að þau séu skaðleg sjálfum sér og eða öðrum. Sáttmálinn hefur enn ekki verið innleiddur í Reykjavík. MSS22090060

    Frestað.

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að mannréttindaráð taki upp og beiti sér fyrir mannréttindum lítilla barna. Málefni leikskólans hafa verið í sviðsljósinu. Meirihlutinn sá síðasti og þessi hefur brugðist foreldrum og börnum í stórum stíl. Leikskólaplássum hefur verið úthlutað sem eru ekki til. Framsókn lofaði að málefni barna yrði sett í fyrir rúm. Á biðlista leik- og grunnskólabarna bíða 2012 börn eftir fagfólki skóla. Engum óraði fyrir að leikskólamálin væru í svo slæmri stöðu sem raun ber vitni. Vitað var að þau voru slæm. Foreldrar hafa stigið fram sem aldrei fyrr. Ákvæði Barnasáttmálans eru margbrotinn í þessum málum. Mannréttindaráð getur gert fjölmargt. Það getur ályktað um málefni, það getur beint tilmælum til annarra ráða, það getur hvatt til úttektar á málum. Það getur óskað eftir samvinnu við önnur ráð og látið meira í sér heyra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að mannréttindaráð megi eflast, vera kraftmeira og meira áberandi í þeim málum sem mannréttindum er ábótavant. Það skítur nokkuð skökku við að Reykjavík vill verða fyrsta Barnvæna höfuðborgin á heimsvísu, alla vega samkv. því sem fram kemur í umsögn skóla og frístundasviðs um hvatningu UNICEF þess efnis að Reykjavíkurborg gerist barnvænt sveitfarfélag dags. 13. 12. 2021. MSS22090062

    Frestað.

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Tillögur í tengslum við aðgengisstefnuna. Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2030 var samþykkt á fundi borgarstjórnar þ. 3. maí 2022, en fátt hefur spurst til hennar síðan og samþykkt aðgengisstefna t.a.m. ekki aðgengileg á vef borgarinnar.Flokkur fólksins leggur til að Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar til 2030 verið kynnt fyrir borgarbúum? Einnig er lagt til eftirfarandi: Að Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar til 2030 verið kynnt innan kerfis borgarinnar, svo sem í ráðum, deildum og stofnunum hennar? Að farið verði í að innleiða Aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 að fullu. MSS22090063

    Frestað.

     

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð beiti sér fyrir því að tryggja jafnræði og opna möguleika á sveigjanlegan vinnutíma hjá starfsmönnum Reykjavíkur. Borið hefur á því að ekki sé gætt jafnræðis þegar samþykkja á að leyfa starfsmönnum að vinna þegar sjötugsaldri er náð eða þegar viðkomandi er kominn á eftirlaunaaldur. Hér er farið í manngreinarálit. Nýlega var lögð fyrir borgarráð skýrsla starfshóps um sveigjanleg vinnulok. Kynntar voru 6 tillögur sem munu fara í frekari skoðun en langt er þar til þær munu koma til framkvæmda. Á meðan eru starfsmenn handvaldir sem fá að njóta sveigjanlegra starfsloka en öðrum gert að taka pokann sinn. Flokkur fólksins vill ganga strax til verks í þessu máli og að samþykkt verði sveigjanleg starfslok sem hin almenna regla. Á meðan svo er ekki er lagt til að mannréttindaráð beini þeim tilmælum til meirihlutans að gæta jafnræðis og koma í veg fyrir að fólki þurfi að hætta vinnu gegn sínum vilja á meðan aðrir fá að starfa áfram án þess að gildar ástæður séu fyrir slíkri mismunun. Allt fólk á að hafa val um starfslok sín, ekki bara útvaldir Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um atvinnumál sín eins og annað í lífinu. MSS22090064

    Frestað.

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins að mannréttindaráð leiti leiða í samráði við velferðarráð til að styðja þá leigjendur sem verst eru settir vegna neyðarástands á leigumarkaði. Mannréttindaráð getur verið öflugt ráð í baráttunni við mannréttindabrot í Reykjavík því það hefur ríkar heimildir. Auk þess að óska samráðs, getur ráðið ályktað, verið með tilmæli og notað hvatningar til að þoka áfram málum þar sem mannréttindi er ábótavant.Leigjendur eru sá hópur sem brotið er ítrekað á í Reykjavík. Staða leigjenda er sífellt að versna og taka á sig nýjar myndir. Nú er svo komið að fólk er að fara í stórum stíl á götuna vegna þess að því hefur verið sagt upp leigu þar sem einhverjir leigusalar vilja endurleiga og láta gera tilboð í leiguna. Verið er að minnka leigurými til að leigja fleirum, stytta uppsagnarfresti og hækka leigu. Flokkur fólksins hefur miklar áhyggjur af aðstæðum fólks af erlendu bergi, fólki sem ekki hefur mikið milli handanna og á jafnvel ekkert eftir að þegar búið er að greiða leigu. Í þessu máli sem öðrum þar sem verið er að brjóta mannréttindi á fólki verður mannréttindaráð að beita sér enda er margt fólk komið í þrot. MSS22090065

    Frestað.

  18. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins spyr, hvað er mannréttindaráð að gera til að beita sér fyrir því að þessi börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á? Flokkur fólksins vill með þessari fyrirspurn vekja athygli mannréttindaráðs á þeim langa biðlista barna sem bíða eftir þjónustu fagaðila skóla. Börnin á biðlistanum eru nú 2012.Mannréttindaráð getur ekki litið fram hjá þessum biðlista. Sú langa bið og óvissa sem henni fylgir fara illa með börnin á biðlistanum og foreldra þeirra. Minnt er á hlutverk Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð sem er m.a. að láta sig mannréttindamál varða í fjölbreyttri mynd, það skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið hennar. Einnig er minnt á að Íslands hefur löggilt Barnasáttmálann en Reykjavíkurborg ekki. MSS22090066

    -    Kl. 15.35 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum

Fundi slitið kl. 15:42

Magnús Davíð Norðdahl Unnur Þöll Benediktsdóttir

Þorvaldur Daníelsson Friðjón R. Friðjónsson

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Rannveig Ernudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
3. Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2022.pdf