No translated content text
Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 25. ágúst var haldinn 2. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 23. ágúst 2022, um kynningu á framkvæmd á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð Reykjavíkurborgar 2022. MSS21120230
- Kl. 13.21 tekur Árelía Eydís Guðmundsdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að við höfum stéttaskiptingu í huga og afleiðingar hennar. Að það sé jöfn meðferð á fólki sama af hvaða stétt það er. Fólk af lægri stéttum verður fyrir miklum fordómum í samfélaginu og er oft útilokað frá þátttöku og jaðarsett. Jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna verður líka að vera sterkt inni í þessari fjárhags- og starfsáætlun.
Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 12. maí 2022, þar sem óskað er umsagnar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um tillögu íbúaráðs Grafarvogs frá 11. maí sl. Jafnframt er lögð fram umsögn mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs til samþykktar. MSS22050099
Samþykkt.
Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins finnst þetta góð tillaga og vill styðja hana. Mikilvægt er að hlusta á íbúaráðin og þeirra ábendingar. Aðeins með því er hægt að þróa íbúaráðin áfram. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að fundir, helst sem flestir ef ekki allir væru opnir enda eru það lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Sjálfsagt er að dagskrá funda íbúaráðsins verði auglýstir á vefmiðlum og prentmiðli hverfisins, Grafarvogsblaðinu eða öðrum hverfisblöðum ef því er að skipta.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga fulltrúa Flokks fólksins um Betri Reykjavík og Hverfið mitt til afgreiðslu, sbr. 2. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 28. apríl 2022. Jafnframt er lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 18. ágúst 2022. MSS22040070
Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins gekk út á að verkefni eins og Betri Reykjavík og Hverfið mitt bjóði upp á ábendingar/kosningar um viðhald í hverfum og að Betri Reykjavík og Hverfið mitt rúmi einnig ábendingar um viðhald á ýmsu í hverfum en ekki aðeins tillögur um nýjungar. Tillagan er skýr, að fólk fái að koma með ábendingar um viðhald. Því miður er það bara ekki sjálfsagður hlutur eftir því sem Flokkur fólksins hefur heyrt þar sem að ekki hefur tekist að koma inn ábendingum til sviðanna heldur. Flokkur fólksins fer aðeins fram á að þessi hlutir séu skýrir og að fólk viti hvert það eigi að snúa sér með ábendingar og það sé þar tekið mark á ábendingunum.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgin á einfaldlega að sinna viðhaldinu betur en nú ert gert. Það er ekki boðlegt að íbúar séu settir í þá stöðu að þurfa að velja um hvað það vill forgangsraða að gera við, því borgin sinnir því ekki á fullnægjandi hátt. Nær væri að íbúar fengju aukna aðkomu að mikilvægum ákvörðunum borgarinnar, eins og fjárhagsáætlun, mótun tillagna og fyrirspurna.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um dagskrá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs, sbr. 10. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní 2022. MSS22060240
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta kjörtímabili ræddi fulltrúi Flokks fólksins iðulega um hvað dagskrá mannréttindaráðs væri einhæf. Mannréttindi eru fyrir alla en ekki bara suma. Það verður að horfa til fleiri viðkvæmra hópi í þessu ráði s.s. barna, eldra fólks og öryrkja. Huga má meira að fátæku fólki í tengslum við mannréttindi en fátækir eru stækkandi hópur. Nefna má öryrkja sem þola mega skerðingar og ná þeir iðulega ekki endum saman. Sveitarfélagi er sem dæmi ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því gert mikið til að bæta kjör þeirra með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Skoða þarf mannréttinda þáttinn hjá börnum sem glíma við röskun eða fötlun af einhverju tagi og dæmi eru um að sumum er gert að stunda nám þar sem þau eru ekki meðal jafningja vegna skorts á sértæku skólaúrræði. Einnig leggur fulltrúi Flokks fólksins það til að ráðið fjalli sérstaklega um biðlista barna í skólaþjónustu borgarinnar en á honum bíða nú 2011 börn. Það heyrir til mannréttinda að börn sem glíma við vanlíðan, kvíða, vitsmunaþroska vanda eða talmeinavanda fái stuðning við hæfi og án þess að þurfa að bíða eftir henni svo mánuðum skiptir.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um mælingu á innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 11. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní 2022. MSS22060241
Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata og Sjálfstæðisflokksins
Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins laut að mælingum á innleiðingu þjónustustefnu. Þjónustustefnan er með átta áttavita. Mæla þarf árangur þessara þátta ef þetta á ekki bara að vera dauður bókstafur á blaði. Flokkur fólksins vill láta mæla þessa áttavita t.d. hvernig er komið fram við viðskiptavini og hversu fljótt þeim er sinnt. Þetta þarf að gera af hlutlausum aðila. Kannski er ekkert til sem heitir algert hlutleysi en í það minnsta þarf að fá til verksins einhverja sem hafa engar tengingar við borgina nema að taka við þóknuninni fyrir könnunina.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengismál fatlaðra, sbr. 12 lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní 2022. MSS22060242
Vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að mannréttinda- ofbeldisvarnarráð geri athugun á aðgengismálum fatlaðra. Jafnframt að farið verði í skipulagða úttekt í miðborginni á hvaða staðir það eru þar sem ekki er hægt að koma við hjólastól og þar sem hættur leynast fyrir sjónskerta svo fátt eitt sé nefnt. Fulltrúi Flokks fólksins finnst afar brýnt að aðgengismál fatlaðra verði bætt. Í gær setti hreyfihamlaður einstaklingur sig í samband við borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna þess að viðkomandi einstaklingur getur ekki sótt Grasagarðinn í Laugardalnum. Viðkomandi einstaklingur þarf að hafa breitt bílastæði til að geta nýtt stæðið. Á þessum stað eru P merktu stæðin jafnbreið og venjuleg stæði. Þessi einstaklingur hefur ítrekað bent borgaryfirvöldum á þetta en ekkert gerst og hann enginn svör fengið. Af þessu að dæma þá mætti bæta samskiptin á vef Reykjavíkurborgar varðandi kvartanir vegna aðgengismála fatlaðra. Mögulega með sérstakri ábendingargátt.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um fjölda íbúaráða í Breiðholti,sbr. 13. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní 2022. MSS22060243
Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, og Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um að hafa tvö íbúaráð í Breiðholti í stað eins er felld. Það er miður því hér er um að ræða eitt stærsta hverfið í Reykjavík sem samanstendur í raun af 4 svæðum/hverfum. Þau eru dreifð á stórt landsvæði. Flokkur fólksins telur að heyra ætti í fleirum varðandi þessa tillögu t.d. íbúum í Breiðholti. Fyrir þessu eru góð rök ekki síst þau að í stóru hverfi þar sem mikill og góður fjölbreytileiki ríkir geti verið erfitt að uppfylla væntingar allra hverfisbúa og því veitir ekki af tveimur íbúaráðum.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um verkefnið Barnvæn sveitarfélög, innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Reykjavíkurborg. MSS22060213
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík og minnir í því sambandi á tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 18. janúar sl. þess efnis að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Nú er komið nýtt kjörtímabil og því mikilvægt að leggjast yfir þetta verkefni sem m.a. önnur sveitarfélög hafa lokið. Til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann þarf að leggjast í þá vinnu að finna út hvað þarf að laga og bæta í aðstæðum barna í Reykjavík. Daglega er brotið á börnum í Reykjavík á hinum ýmsu sviðum og er skemmst að nefna að þau fá ekki nauðsynlega sálfræði- og talmeinaþjónustu. Fyrsta skrefið er að greina og leggja mat á hvað þarf til til að hægt sé að hefja innleiðingarferlið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipaður verði stýrihópur eins og tillagan kveður á um sem færi í ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík.
-
Lögð fram auglýsing Jafnréttisstofu dags. 16. ágúst 2022, um landsfund jafnréttismála sveitarfélaga sem fram fer á Akureyri þann 15. september nk. MSS22010076
Fylgigögn
-
Lögð fram greinargerð vegna styrks mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fyrir verkefnið Fjölmenningarfræðsla fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. MSS22080022
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara dags. 16. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað Reykjavíkurborgar vegna nýsköpunarviku, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. MSS21120156
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um Nýsköpunarviku en Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hver væri heildarkostnaður borgarinnar við Nýsköpunarviku. Flokkur fólksins er hlynntur verkefni af þessu tagi en telur að ekki eigi að nota í það almannafé heldur eigi að koma að þessu verkefni einkageirinn. Fram kemur að heildarkostnaður borgarinnar er tæpar 3 milljónir og er stærsti hlutinn leiga á Hafnarhúsinu í tengslum við Nordic Startup Award verðlaunahátíðina. Flokkur fólksins veit ekki hvað fólki þykir almennt um þetta en ítrekar að halda þurfi til haga hverri krónu til bæta þjónustu t.d. við börn og aðra viðkvæma hópa sem er í lamasessi. Skemmst er að minnast ástand leikskólamála og biðlista barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga. Á þeim lista nú eru 2012 börn.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 28. apríl 2022, við framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjárfestingarverkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. FAS21120132
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurnin laut að hvernig stendur á því að 10 milljarðarnir sem streymt var í stafræna umbreytingu hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði voru gerð að eignfærsluverkefni sem ekki kemur fram í rekstri fyrr en byrjað er að afskrifa? Segir m.a. í svari að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er heimilt að eignfæra rannsóknar- og þróunarvinnu og samkv. IAS 38, um óefnislegar eignir, sé þróunarkostnaður einungis eignfærður þegar líklegt er að hagrænn ávinningur verkefnisins muni nýtast sveitarfélaginu. Flokkur fólksins er ekki einn um að finnast þetta sérkennilegt þótt hér sé ekki um lögbrot að ræða. Það er erfitt og flókið að búa til reglur um hvernig á að færa óefnislegar eignir í eignasjóð. Til dæmis, eftir hvaða reglum á að færa óefnislegar eignir í eignasjóð þegar verið er að taka upp nýja þjónustu / ný verkefni? Og hvað með kostnað, hvaða reglur eiga gilda um kostnað við rannsóknir og þróunarvinnu? Þessar og fleiri spurningar hafa verið spurðar en ekki fengist nein svör við. Hvað má t.d. afskriftartími óefnislegra eigna vera að hámarki og getur getur afskriftatíminn verið mismunandi milli einstakra flokka óefnislegra eigna? Flokkur fólksins veit nú að við þessum spurningum og fleirum tengdum mun aldrei koma nein svör frá Reykjavíkurborg.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 16. júní 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hlutverk og ábyrgð stafrænna leiðtoga, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. febrúar 2022. MSS22010323
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um hlutverk og ábyrgð stafrænna leiðtoga. Hlutverk þeirra er frekar loðið en eftir því sem skilst þá er um að ræða eins konar umsjónarhlutverk. Leiðtoginn á að undirbúa “jarðveginn á sviðinu, leiða saman ólíka hagaðila, hlusta og skilja þarfir notenda , starfsfólks og sjá til þess að hjólin snúist.”. Leiðtogarnir eru 7 talsins. Flokkur fólksins spyr hvort enginn á sviðunum hefði getað sinnt þessu verkefni jafnvel? Við lok síðasta kjörtímabils var búið að veita 13 milljörðum í stafræna umbreytingu. Miðað við umfang sviðsins og þessa háu upphæð voru allt of fáar lausnir komnar í gagnið við lok kjörtímabilsins. Háum fjárhæðum var varið í ráðgjöf sem ekki sést hvernig nýtist. Það er mat Flokks fólksins að illa hafi verið farið með útsvarsfé borgarbúa . Sviðið færðist of mikið í fang og var helsta áherslan á uppgötvun, þróun og tilraunir á verkefnum sem mörg hver voru ekki nauðsynleg og sum jafnvel þá þegar til annars staðar. Umsóknarferill leikskólamála er enn upp á gamla mátann og ekki eru til rafrænar lausnir til að sækja um byggingarleyfi. Reykjavík er sveitarfélag en ekki hugbúnaðarfyrirtæki. Stafræn umbreyting í almannaþágu á að snúast um að flýta innleiðingu lausna til að liðka fyrir þjónustu og létta störf.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 2. júní 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um netspjallið, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. apríl 2022. MSS22040096
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar því að netspjall sé loks komið í virkni í Reykjavíkurborg, spurning er hvernig þeim sem hringja hafa upplifað það og hvort þeim finnist spjallið hafa skilað sér? Eftir því er tekið að helmingur þeirra afgreiðslna snúa að aðgengi að teikningum sem geymdar eru í kjallara Borgartún 12-14. Aðgengi að þessum gögnum skyldi maður ætla að ætti að vera rafrænt. Mikilvægt er að gerð verði árangursmats- og þjónustukönnun á netspjallinu, að notendur fái sjálfir að gefa því einkunn. Að öðrum kosti er ekki gott að vita hvort vel hafi tekist til með þetta verkefni
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi í miðbæ fyrir fatlað fólk:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttindaráð beiti sér þegar kemur að því að standa vörð um aðgengi fatlaðra, fólk með skerta hreyfigetu, að miðbænum á dögum eins og menningarnótt, 17. júní og Þorláksmessu. Á menningarnótt voru lokanir fyrir bílaumferð umfangsmiklar og með því var loku fyrir það skotið að ákveðnir hópar hefðu aðgengi í bæinn. Auk þess er lagt til að ráðið beiti sér einnig fyrir að viðunandi þjónusta sé til staðar fyrir þá sem eru með skerta hreyfifærni, notast við hækjur eða hjólastóla s.s. að göngustígar séu aðgengilegir á hjólastól og að salernisaðstaða sé fullnægjandi. Hér er um mannréttindamál að ræða. Það eiga allir að hafa jafnan rétt og eiga þess kost að taka þátt í hátíðarhöldum. MSS22080151
Frestað.
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvaða mál frá Sósíalistaflokknum eru óafgreidd úr mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráði frá síðasta kjörtímabili? MSS22080179
Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hefur verið ráðist í greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík? Hefur verið greint hvort hann hafi aukist eða minnkað á síðustu tíu árum? Hefur verið greint hvað borgin geti gert til þess að stuðla að meiri jöfnuði? Efnahagslegur ójöfnuður hefur tengsl við margar slæmar félagslegar afleiðingar og viðheldur fátækt að stóru leyti. Þess vegna er mikilvægt að við vitum hvort að borgin hafi fylgst með ójöfnuði innan borgarmarka. Ef að úttektir eða skýrslur hafa verið gerðar er óskað eftir því að þær fylgi með í svarinu. Jafnframt er óskað eftir því að aðgerðaráætlanir og aðgerðir sem kunna að hafa verið framkvæmdar verði settar fram með svarbréfinu. MSS22080187
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margir bíða eftir þjónustu á vegum borgarinnar? Við erum með tölur um biðlista á leikskólum og eftir félagslegu húsnæði, en hvað með aðra þætti sem borgin þjónustar? Það má gefa upp heildarfjölda og síðan fjölda eftir því hvaða þjónusta á við. MSS22080188
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hefur verið ráðist í greiningu á vegum Reykjavíkurborgar á áhrifum útvistunar á launakjör þeirra sem taka að sér þau störf? MSS22080189
Magnús Davíð Norðdahl Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Sabine Leskopf Þorvaldur Daníelsson
Friðjón R. Friðjónsson Helga Þórðardóttir
Helga Þórðardóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon