Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 17

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 11. maí var haldinn 17. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.07. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Þorvaldur Daníelsson, Sabine Leskopf, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Helga Margrét Marzellíusardóttir og Helga Þórðardóttir. Einnig sátu eftirfarandi embættismenn og starfsfólk fundinn: Anna Kristinsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 9. maí 2023, um drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum 2023 – 2026. Gögn undir þessum lið eru trúnaðarmerkt þar til eftir staðfestingu borgarstjórnar. MSS23010102
    Samþykkt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessari aðgerðaáætlun er kveðið á um „Að starfsfólk fái jafn mikið greitt fyrir jafn verðmæt störf." Hins vegar útvistar Reykjavík stórum hluta þjónustu sinnar til einkaaðila, og í mörgum tilfellum eru þau sem vinna í útvistaða starfinu að fá minna greitt en þau sem sinna sama starfi fyrir borgina. Hér er borgin að ganga á bak orða sinna um að hún tryggi jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Ef aðgerðir fylgdu orðum myndi borgin draga úr útvistunum eða tryggja það að þau sem sinna sömu störfum fái jafn mikið greitt. Enginn vilji er hins vegar til þess á meðan núverandi meirihluti starfar.

  2. Lögð fram drög að útfærslu ódags., á tillögu um úttekt á kynþáttafordómum og birtingarmyndum þeirra innan stofnanna Reykjavíkurborgar, sbr. samþykkt mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní s.l. MSS22060212

    Samþykkt.

  3. Fram fer umræða um ofbeldi meðal ungmenna. MSS22100253

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kom á síðasta fundi mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs hefur ofbeldi meðal unglinga aukist. Starfsmenn félagsmiðstöðva, kennarar og allir þeir sem starfa með ungu fólki benda á þessa óheilla þróun. Flokkur fólksins hefur í langan tíma talað fyrir því að allir taki höndum saman, skólar, félagsmiðstöðvar, foreldrar og aðrir sem umgangast ungmenni.Í október 2022 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í borgarstjórn um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Að gefnu tilefni vill fulltrúi Flokks fólksins enn og aftur minna á þessa tillögu. Fram hefur komið að á skóla- og frístundasviði sé verið að vinna í þessum málum. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fái kynningu á því í hverju sú vinna felst. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að sviðin vinni saman að þessu gríðarlega stóra verkefni. Það er gríðarlegt ákall út í samfélaginu um að það verði brugðist við þessu aukna ofbeldi meðal ungmenna með samstilltu átaki.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill benda á að engin gögn eru til taks sem varpað geta ljósi á mikla aukningu ofbeldis í Reykjavík. Borgin er ekki með heildarskráningarkerfi svo eina haldbæra tölfræðin varðar stærri mál sem tilkynnt eru til Barnaverndar. Þær tölur er erfitt að nálgast. Ekki er ásættanlegt að stór vinnustaður og þjónustuaðili, eins og Reykjavíkurborg, haldi ekki utan um skráningar á ofbeldismálum. 

  4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 13. apríl 2023. Greinagerð fylgir tillögunni. MSS23040057 
    Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um mikilvægt mál að ræða. Reykjavíkurborg hefur aldrei áður ráðist í greiningu á efnahagslegum ójöfnuði. Það að hér ríki jöfnuður er grundvallar mannréttindamál. Tengsl ójafnaðar og fátæktar liggja skýrt fyrir. Eftir því sem ójöfnuðurinn er meiri þeim mun fleira fólk lifir við fátækt. Ójöfnuður heldur hópi fólks niðri sem verður jafnframt fyrir mun verri mannréttindabrotum að jafnaði frá samfélaginu og stofnunum heldur en þau tekjuhærri. Mikilvægt er að almenningur sjái hvar höfuðborg Íslands standi í samanburði við aðrar borgir í heiminum, þegar kemur að jöfnuði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður tillöguna um að framkvæma greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík. Fátækt hefur aukist og rannsóknir sýna að ójöfnuður hefur einnig aukist. Mannréttindaráð og Mannréttindaskrifstofa eiga að setja á sinn forgangslista að vinna gegn fátækt og ójöfnuði. Minnt er á að þetta gerist á vakt Samfylkingarinnar. Þetta þarf að kortleggja en umfram allt bregðast við og koma með mótvægisaðgerðir. Það er komið nóg að flottum skýrslum og fallegum stefnuplöggum. því miður er minna um framkvæmdir. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Þeir sem neyðast til að vera á leigumarkaði og eru ekki með þess hærri tekjur ná engan vegin endum saman. Lítið er eftir ef þá nokkuð þegar búið er að greiða nauðsynjar. Flokkur fólksins vill útrýma fátækt og berst gegn ójöfnuði. Það er skömm að því hvað hægt gengur í undirbúningi að innleiðingu á Barnasáttmálanum hjá Reykjavíkurborg.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skráningu á ofbeldisbrotum, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. apríl 2023. Greinagerð fylgir tillögunni. MSS23040242 
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Góðar upplýsingar leggja grunn að markvissum aðgerðum og skilvirkri vinnu að bæta þjónustu. Þess vegna styður Flokkur fólksins tillögur sem beinast að öflun upplýsinga, til þess að leggja megi fram virkt aðgerðarplan. Að safna upplýsingum og setja þær ofan í skúffu gagnast engum. Sú tillaga sem hér er lögð fram sem er að skrá og kortleggja ofbeldisbrot af hendi nemenda gagnvart kennurum og öðru starfsfólki í grunnskólum Reykjavíkurborgar er góð að því leyti að upplýsingar sem þessar hefur aldrei verið safnað saman á einn stað. Það er ekki til neinn miðlægur grunnur þar sem hægt er að fylgjast með fjölda tilvika og þróun. Flokkur fólksins hefur ítrekað reynt að ýta við mannréttinda og ofbeldisvarnaráði að beita sér fyrir að skoðað verði hvaða ástæður liggja fyrir auknum vopnaburði ungmenna í Reykjavík með það að markmiði að koma með mótvægisaðgerðir. Lagt var til að stofna stýrihóp sem legðist yfir þessa alvarlegu þróun. Ekkert er að frétta að tillögunni. Dæmi eru um að allt niður í 10 ára börn komi með hnífa í skólann og beiti þeim jafnvel. Hvergi er hægt að sjá á einum stað hversu mörg þessi tilfelli eru eða hvernig þróun þeirra er háttað.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aukið aðgengi barna að klámi, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. apríl 2023. MSS23040243
    Vísað frá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Embætti landlæknis hefur gefið út skýrsluna Mat á áhrifum af stafrænu aðgengi barna að klámi á heilsu þeirra og líðan. Í skýrslu þessari má sjá tengsl klámáhorfs við ýmsa vanlíðan barna og ungmenna. Það er kannski ekki skrítið þar sem algeng þemu í klámi innihalda kynjamismunun, kynþáttafordóma, ofbeldi, fjandsamlega hegðun og niðurlægingu, sifjaspell, tilfinningalega stjórnun. Aðgengi að klámefni hefur aldrei verið auðveldara, þekkt er í lýðheilsu að aðgengi hefur áhrif á ýmis konar neyslu. Flokkur fólksins hefur miklar áhyggjur af auknu aðgengi barna að klámi og þeim afleiðingum sem það áhorf hefur á líf þeirra. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort og þá hvaða áform Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sem heyrir undir mannréttinda og ofbeldisvarnaráð hafi til að sporna við þessari óheillaþróun? Fyrirspurninni var vísað frá og finnst fulltrúa Flokks fólksins það miður.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um embætti aðgengisfulltrúa, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. apríl 2023 MSS23040244
    Vísað til meðferðar aðgengis- og samráðsnefndar.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 14.49

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Trausti Breiðfjörð Magnússon Helga Margrét Marzellíusardóttir

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helga Þórðardóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
17. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 11. maí 2023