Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 16

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 27. apríl var haldinn 16. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarstjórnarsal og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Þorvaldur Daníelsson, Sabine Leskopf, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Helga Þórðardóttir. Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Halla Bergþóra Björnsdóttir, Linda Dröfn Gunnarsdóttir og Drífa Snædal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Jenný I. Ingudóttir áheyrnarfulltrúi og Helga Margrét Marzellíusardóttir. Einnig sátu eftirfarandi embættismenn og starfsfólk fundinn: Anna Kristinsdóttir og Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. apríl 2023, um að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar. MSS22060044 

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála innan Reykjavíkurborgar dags. 25. maí 2023. MSS22060211 
    Samþykkt að vísa úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála innan Reykjavíkurborgar til borgarráðs til upplýsingar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til umfjöllunar er lokaúttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg. Markmiðið með úttektinni er að fá heildstæða sýn á stöðu ofbeldisvarna hjá Reykjavíkurborg í víðu samhengi. Í úttektinni er farið yfir gildandi Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024. Skýrsluhöfundur hrósar mörgu sem vel er gert en bendir jafnframt á fjölmargar úrbætur sem hafa ber í huga við endurskoðun aðgerðaráætlunarinnar. Bent er á að fjölmörg forvarnarverkefni gegn ofbeldi eru í gangi í hverfum borgarinnar en enginn er með yfirsýn yfir þau en mörg tengjast hverfismiðstöðvum borgarinnar. það þarf því að marka stefnu um söfnun og miðlun upplýsinga um verkefnin og skilgreina ábyrgðaraðila svo hægt sé að nálgast slíka vinnu með markvissum hætti. Lögð er áhersla á borgin marki skýra stefnu um að öll mál sem tengjast ofbeldi gegn börnum njóti sambærilegs forgangs og heimilisofbeldismál. Flokkur fólksins tekur svo sannarlega undir lokaorð skýrsluhöfundar þar sem hann leggur til að átak verði gert gegn ofbeldismenningu barna og þar segir „Átak gegn ofbeldismenningu barna með áherslu á aðkomu allra sem málið varðar þ.á m. ríkis, borgar,lögreglu og heilbrigðiskerfisins en síðast en ekki síst barna“. Flokkur fólksins hefur einmitt lagt fram tillögu í þessum anda.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mótmælir því að pólitískir fulltrúar leggist í þá vinnu að umorða, ritstýra hugtakanotkun eða á annan hátt breyta faglega unnum skýrslum sérfræðinga í þeim augljósa tilgangi að þær falli betur að pólitískum stefnum sinna flokka. Að leggjast í stapp yfir orðanotkun þvert á niðurstöður fagfólks gefur það eitt til kynna að ytra útlit baráttunnar skipti meira máli en raunverulegar aðgerðir. Með einfaldri leit á veraldarvefnum má sjá að stjórnvöld, löggæsluyfirvöld og frjáls félagasamtök í þeim löndum sem Ísland vill helst bera okkur saman við, noti orðið „sex worker,“ fremur en „prostitute.“ Enn fremur má benda á að þau lönd sem Ísland vill alls ekki bera okkur saman við í málefnum öryggi kvenna nota einmitt fremur orðið „prostitutes,“ en „kynlífsverkafólk.“ Hvers vegna meirihluti nefndarinnar velur að hræra í orðanotkun fagfólks í þessar áttir er fulltrúa Sjálfstæðisflokksins mikil ráðgáta. Vændi er mikið og vanreifað samfélagsmein. Að stinga hausnum í sandinn með þessum hætti er engum til hagsbóta. Allra síst þeirra í okkar litla samfélagi sem mest þurfa á meiri og betri vernd að halda.

    Kristín Hjálmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum konum, greining á tengslum ofbeldis og bágrar félagslegrar stöðu. MSS23040191 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til umræðu er ofbeldi gegn fötluðum konum og greining á tengslum ofbeldis og bágrar félagslegrar stöðu. Greiningin var unnin árið 2017 og byggir á gögnum frá Landlæknisembættinu. Það er sláandi að sjá hvað það er algengt að fatlað fólk sé beitt ofbeldi og þar eru fatlaðar konur í meirihluta. Ofbeldi virðist algengara hjá jaðarsettum hópum samkvæmt þessari rannsókn. Flokkur fólksins hefur lengi haft áhyggjur af þessari stöðu og hefur ítrekað bent á að við þessu þurfi að bregðast. Skemmst er að minnast tillögu Flokks fólksins um viðbrögð við ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Tillagan var lögð fram í mannréttinda og ofbeldisvarnarráði 26.janúar 2023. Í tillögunni lagði Flokkur fólksins áherslu á samvinnu við jaðarsetta en skýrsluhöfundar telja einmitt nauðsynlegt að eiga samtal við þessa hópa. Tillögu Flokks fólksins var vísað frá af meirihlutanum af því að hún var ekki nógu sértæk. Það er einkennilegt að kasta út tillögu sem snertir svo mikilvægt málefni vegna orðalags. Væri ekki nær að laga orðalag og skýra tillögu í sameiningu. Að henda út málum vegna þess að þau þykja ekki nægjanlega sértæk er að mati fulltrúa Flokks fólksins leið meirihlutans til að losna við mál úr ráðinu. Væri ekki nær að vinna málið betur sameiginlega.

    Hrafnhildur Snæfríðar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um ofbeldi meðal ungmenna. MSS22100253

    -    Kl. 15.30 víkur Linda Gunnarsdóttir af fundinum. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er uggandi yfir auknu ofbeldi unglinga og telur að tilefni sé til aðgerða af hálfu samfélagsins. Ofbeldi er ekki endilega nýtt af nálinni á meðal ungmenna en aukinn vopnaburður er það hins vegar. Ítrekað hefur eggvopnum hefur verið beitt og nú síðast af ungmennum í Hafnarfirði sem eru grunuð um að hafa orðið ungum manni að bana. Þessi hræðilegi atburður sem átti sér stað síðastliðna helgi minnir okkur á að við verðum að bregðast við þessari óheillaþróun með öllum tiltækum ráðum. Það er mikilvægt að allir taki höndum saman, skólar, félagsmiðstöðvar og foreldrar þegar svona alvarleg ofbeldisbrot koma upp. Í október 2022 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í borgarstjórn um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Að gefnu tilefni vill fulltrúi Flokks fólksins minna á þessa tillögu. Það er gríðarlegt ákall út í samfélaginu um að það verði brugðist við þessari alvarlegu þróun. Stýrihópur af þessu tagi er hugsaður til að kortleggja vandann í Reykjavík og meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum.

    Gunnlaugur Víðir Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  5. Lögð fram auglýsing um ráðstefnu Sigurhæða sem fram fer þann 25. – 26. maí n.k., undir yfirskriftinni Ný Sókn gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. MSS23040200

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um mannréttindaverðlaun Reykjavíkur sem afhent verða þann 19. maí 2023. MSS23030124 

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur til skráningu og kortlagningu á ofbeldisbrotum af hendi nemenda gagnvart kennurum og öðru starfsfólki í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Gert með það að markmiði að greina umfang vandans svo hægt sé að setja fram skýra heildar aðgerðaráætlun innan allra skóla borgarinnar.
    Greinagerð fylgir tillögunni. MSS23040242
    Frestað.

    Fylgigögn

  8. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins hefur miklar áhyggjur af auknu aðgengi barna að klámi og þeim afleiðingum sem það áhorf hefur á líf þeirra. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort og þá hvaða áform Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sem heyrir undir mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð hafi til að sporna við þessari óheillaþróun? Flokkur fólksins spyr jafnframt hvort mannréttindaskrifstofa gæti hugsað sér að vinna með stjórnvöldum að því að hefta aðgengi barna undir 18 ára aldri að klámi með rótækum lausnum? Menntamálaráðuneytið var með til skoðunar að nota rafræn skilríki til að loka alveg á klám fyrir ólögráða einstaklinga. Árið 2021 skipaði þáverandi menntamálaráðherra starfshóp ýmissa ráðuneyta auk sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfshópurinn átti að finna leiðir til að hefta aðgengi barna undir 18 ára aldri að klámi með rótækum lausnum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað það mál er statt og hvað sé að frétta varðandi vinnu starfshópsins. MSS23040243

  9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hyggist stofna embætti aðgengisfulltrúa eins og mörg smærri sveitarfélög hafa gert? Jafnframt er spurt hvort Reykjavíkurborg hafi nýtt sér fjárstyrk úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til úrbóta í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Ástæða fyrirspurnarinnar er átak sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og félags- og barnamálaráðherra komu af stað árið 2021. Þetta var átak um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands og sveitarfélög um land allt. Tilgangur átaksins var að fatlað fólk fengi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Samkvæmt framkvæmdaáætlun á Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að veita fjárstyrki til úrbótaverkefna og á framlag sjóðsins að vera 50% á móti framlagi sveitarfélaga. Alls átti að veita 700 milljónum í úrbætur á aðgengismálum.Í samkomulaginu er einnig fjallað um nauðsyn þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa og að hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur. Því spyr Flokkur fólksins hvort Reykjavíkurborg hafi nýtt sér þennan fjárstyrk og hvort ráðgert sé að stofna embætti aðgengisfulltrúa? MSS23040244

Fundi slitið kl. 16:00

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Helga Margrét Marzellíusardóttir Helga Þórðardóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 27. apríl 2023