Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 15

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 13. apríl var haldinn 15. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Ellen J. Calmon, Þorvaldur Daníelsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Friðjón R. Friðjónsson og Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Árelía Eydís Guðmundsdóttir. Einnig sat eftirfarandi starfsfólk fundinn: Guðný Bára Jónsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram tilnefning Stígamóta dags. 22. mars 2023, um að Eva Bryndís Pálsdóttir taki sæti sem vara áheyrnarfulltrúi í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Eyglóar Árnadóttur. MSS22060044

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 22. september 2023. Jafnframt er lögð fram umsögn aðgengis- og samráðsnefndar dags. 16. mars 2023. MSS22090063

    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um mannréttindakaffi, sbr.3. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 9. mars 2023. MSS23030062

    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan er góðra gjalda verð og hefur Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fullan hug á því að koma henni í framkvæmd í einhverri mynd. Álitamál er hins vegar um hvort breyta þurfi samþykktum ráðsins og eins hversu oft sé rétt að halda slíkt mannréttindakaffi.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð stofni til mannréttindakaffis með svipuðu sniði og velferðarráð heldur velferðarkaffi. Fulltrúi Flokks fólksins situr í velferðarráði og hefur því mætt í velferðarkaffi og finnst slíkir fundir afar gagnlegir. Mannréttindaráð gæti boðið ýmsum hagsmunasamtökum og minnihlutahópum á slíka fundi til að heyra frá fyrstu hendi hvað brennur á þeim. Ráðið tekur jákvætt í þessa hugmynd Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista tekur vel í hugmyndir um mannréttindakaffi eins og gert er í Velferðarráði með velferðarkaffi. Mikilvægt er að sjónarhorn þeirra sem hafa orðið fyrir mannréttindabrotum eða láta sig þau mál varða geti mætt á slíka fundi og haldið erindi. Skilningur kjörinna fulltrúa á birtingarmyndum mannréttindabrota verður þannig meiri og betri.

    -    Kl. 13.31 víkur Ellen J. Calmon af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aukið aðgengi að klámi, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 23. mars 2023. Jafnframt er lögð fram afturköllun fyrirspurnar dags. 13. apríl 2023. MSS23030188

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um samkomulag Reykjavíkurborgar um öryggismyndavélar. MSS23030024 

    Samþykkt að vísa samkomulaginu til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og til persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar. 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð kallar eftir umsögn frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar um hvort nýtt samkomulag um öryggismyndavélar í Reykjavíkurborg sé í samræmi við mannréttindastefnu borgarinnar. Jafnframt kallar ráðið eftir umsögn frá persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar um hvort samkomulagið sé í samræmi við persónuverndarlöggjöf. Óskar ráðið eftir að umsagnir þessar verði tilbúnar til framlagningar og kynningar í ráðinu eigi síðar en 31. maí n.k.. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun;

    Fulltrúi Flokks fólksins er sáttur við þetta samkomulag enda tilbúinn að ganga býsna langt til að tryggja öryggi borgaranna og gesti borgarinnar. Flokkur fólksins hefur viljað sjá slíkar myndavélar þar sem börn stunda nám og leik, t.d. á skilgreindum leiksvæðum barna. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem finna má börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á leiksvæðum. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Það hefur færst í vöxt að stofnanir grípi til þess að setja upp öryggismyndavélar og er það ekki að ástæðulausu. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu. Mörg dæmi eru um að öryggismyndavélar hafi komið að mjög góðu gagni við að upplýsa mál.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um drög að úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála Reykjavíkurborgar. MSS22060211 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til umfjöllunar er úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg. Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð samþykkti að láta framkvæma úttektina til að fá heildstæða sýn á stöðu ofbeldisvarna. Kristín A. Hjálmarsdóttur sá um framkvæmdina. Það má með sanni segja að úttektin sé víðfeðm því farið er yfir aðgerðaráætlun og verkefni sem eru í gangi í ofbeldisvarnarmálum hjá borginni. Almennt er viðhorf til áætlunarinnar jákvætt en óskir um aukið samráð við ábyrgðaraðila er einkennandi þema hjá sviðunum. Fram kemur að það sé skortur á tölulegum gögnum og engin dæmi eru um að mælikvarðar á árangur séu tilgreindir. Tvö verkefni voru sérstaklega tiltekin vegna góðs árangurs en það eru verkefnin Saman gegn ofbeldi og Jafnréttisskólinn. Flokkur fólksins tekur undir með skýrsluhöfundi um að það sé brýnt að efla Jafnréttisskólann og fjölga starfsfólki. Það vakti athygli fulltrúa Flokks fólksins hversu mörg verkefni eru óframkvæmanleg vegna tækniörðuleika. Torgið og atvikaskráningakerfið eru dæmi um slíkt. Sem dæmi er búið að hanna fræðslu og taka upp fyrirlestra fyrir fagfólk um fatlað fólk og ofbeldi.Torgið er ekki komið í gagnið og því ekki hægt að nýta þessa fræðslu. Í úttektinni eru margar tillögur um úrbætur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð taki þessar tillögur til rækilegrar skoðunar

    Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  7. Fram fer umræða um drög að útfærslu á úttekt á kynþátta- og menningarfordómum innan Reykjavíkurborgar. MSS22060212 

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð líst vel á nálgun væntanlegs skýrsluhöfundar og óskar eftir því að fá endanlega útgáfu til formlegrar samþykktar sem allra fyrst

    að teknu tilliti til framkominna athugasemda

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Tillaga um að framkvæma greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík. Lagt er til að Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð kalli eftir greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík frá viðeigandi sviðum. Staðan verði kortlögð svo hægt sé að sjá hve umfangsmikill ójöfnuðurinn er. Einnig verði greint frá því hvernig Reykjavíkurborg getur stuðlað að meiri jöfnuði.

    Greinagerð fylgir tillögunni. MSS23040057

    Frestað. 

Fundi slitið kl. 15.18

Magnús Davíð Norðdahl Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon Þorvaldur Daníelsson

Sabine Leskopf Helga Þórðardóttir

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
15. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 13. apríl 2023