Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð
Ár 2023, fimmtudaginn 9. febrúar var haldinn 12. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu Magnús Davíð Norðdahl, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Helga Margrét Marzellíusardóttir og Helga Þórðardóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 9. febrúar 2023, um kynningu á tíma- og verkáætlun kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar 2023. MSS23010175
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar ítreka mikilvægi þess að efnahagsleg staða og stétt sé tekin með inn í kynjaða fjárhags- og starfsáætlun. Ekki ósennilegt að lægri stéttir nýti sér síður þjónustu borgarinnar, t.d. sundlaugar, bókasöfn og gjaldskyld bílastæði. Einnig er líklegt að lægri stéttir fái minna pláss í menningu og listum, minni umfjöllun í bókum og hafi færri tækifæri til þess að láta afstöðu sína í ljós varðandi þjónustu Reykjavíkur. Mikilvægt er að þessi staða liggi fyrir.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Frumskoðun leiddi í ljós að aðeins 31% samþykktra hagræðingartillagna höfðu verið jafnréttisskimaðar. Flokkur fólksins telur mikilvægt að hagræðingartillögurnar verði greindar með tilliti til hvernig þær koma við efnaminni borgara.
Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 7. febrúar 2023, um erindi starfshóps um gerð áætlunar Reykjavíkurborgar um jafnréttismál 2023-2026. MSS23010102
Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á bæklingnum Við og börnin okkar. MSS23020037
Joanna Marcinkowska tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á upplýsingasíðu með tölfræði um innflytjendur. MSS23020036
Joanna Marcinkowska tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi í miðbæ fyrir fatlað fólk, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september 2023. Jafnframt er lögð fram umsögn menningar- og íþróttasviðs dags. 19. janúar s.l. MSS22080151
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins gekk út á að mannréttindaráð beiti sér þegar kemur að því að standa vörð um aðgengi fatlaðra, fólk með skerta hreyfigetu, að miðbænum á dögum eins og menningarnótt, 17. júní og Þorláksmessu. Tillögunni er vísað frá af því að hún er ekki nógu sértæk. Ýmsir erfiðleikar komu upp á menningarnótt vegna umtalsverðra lokana fyrir bílaumferð. Fatlað fólk sem er með skerta hreyfigetu þarf að notast við bíl. Umsögn var fengin frá sviðsstjóra menningar- og íþróttasviði sem reifar umtalsvert samráð við hagsmunaaðila og lögreglu sem og fleiri og hvar P merktir bílar mega leggja. Umsögn er ekki í neinu samræmi við tillöguna og hefur því lítið vægi. Höfðað er til meirihlutans í mannréttindaráði, að hann hlusti á það sem fólk er að segja til að þjónusta verði bætt. Það er mat Flokks fólksins að svona umtalsverðar lokanir fyrir umferð ganga ekki upp á viðburðadögum. Verið er að útiloka ákveðinn hóp frá viðburðum og skemmtanahaldi. Þess utan er með öllu ótækt að ekki séu nógu mörg salerni og þau fáu sem er séu ekki þrifin þar sem mestur fjöldi fólks kemur saman.
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:Tillagan snertir á mikilvægu málefni en orðalag hennar er með þeim hætti að hún er ekki framkvæmdarhæf þar sem hún er ekki nægjanlega skýr og sértæk.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um fundarröð með helstu hagsmunasamtökum minnihlutahópa, sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 26. janúar 2023. MSS23010140
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð fari í fundaröð með helstu hagsmunasamtökum minnihlutahópa til að heyra frá fyrstu hendi hvað brennur á þeim. Lagt er til að fundað verði með Öryrkjabandalagi Íslands ÖBI, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni FEB, Þroskahjálp og Geðhjálp sem og fleiri félögum sem eru aðildarfélög t.d. að ÖBI. Tillögunni er vísað frá því ráðinu finnst ekki að þurfa að fara í sérstaka fundaröð með þessum aðilum. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð verði virkt ráð, en ekki bara eins og lokaður saumaklúbbur. Ráðið á einmitt að teygja sig út til fólksins, tengja sig við borgarbúa. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þetta verði gert almennilega og að ráðið fari til fólksins en sé ekki alltaf að boða það til sín. Ráðið er hreyfanlegt og myndi græða á að eiga fund með hagsmunasamtökum á þeirra heimavelli.
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Notendasamráð Reykjavíkurborgar við hagsmunaðila ÖBÍ, Geðhjálpar og Þroskahjálpar fer fram á vettvangi aðgengis- og samráðsnefndar. Einnig eru starfandi öldungaráð og fjölmenningarráð þar sem sambærilegt samtal við fulltrúa hagsmunasamtaka fer fram og mikil þekking hefur skapast. En vilji er til þess að þeir fulltrúar komi á fund mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs til að ræða ofbeldi og ofbeldisvarnir.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 26. janúar 2023. MSS23010141
Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar Pírata og Sjálfstæðisflokks gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við ofbeldi gagnvart fötluðu fólki Flokkur fólksins vill með þessari tillögu beina sjónum ráðsins að því ofbeldi sem beinist gagnvart fötluðu fólki. Undanfarið hefur því verið haldið fram að ofbeldi gagnvart fötluðu fólki sé algengt. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Fátt er eins alvarlegt og ofbeldi gagnvart fólki sem getur vegna fötlunar sinnar engan veginn varið sig. Í fyrsta lagi þarf að skoða hversu algengt þetta ofbeldi er og hvaða verkferlar fara í gang ef upp kemst um ofbeldi á fötluðum einstaklingi. Ef vel ætti að vera ætti að stofna starfshóp sem fer i að undirbúa samtals vettvang og kalla eftir hugmyndum um úrræði og aðgerðir. En orð eru til alls fyrst eins og segir í tillögunni. Tillögunni er vísað frá.
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan snertir á mikilvægu málefni en orðalag hennar er með þeim hætti að hún er ekki framkvæmdarhæf þar sem hún er ekki nægjanlega skýr og sértæk.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um verkferla Reykjavíkurborgar vegna ofbeldis/meints ofbeldis starfsfólks í garð barna. MSS23010244
-
Lögð fram til upplýsingar auglýsing um Evrópska ráðstefnu um heimilisofbeldi (ECDV) sem haldin verður í Reykjavík 11. – 13. september 2023. MSS23020026
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á öllum fyrirspurnum og tillögum sem enn er ósvarað/afgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og síðasta kjörtímabili í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði. MSS23020073
Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.
- Kl. 14.46 víkur Helga Þórðardóttir af fundinum.
Fundi slitið kl. 14.55
Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon
Sabine Leskopf Helga Margrét Marzellíusardóttir
Helga Þórðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
12. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 9. febrúar 2023