Mannréttinda- og lýðræðisráð - Fundur nr.18

Mannréttinda- og lýðræðisráð

Ár 2019, fimmtudaginn 9. maí var haldinn 18. fundur mannréttinda- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.14.02. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Jórunn Pála Jónasdóttir og Ásgerður Jóna Flosadóttir. Einnig sátu fundinn Halldóra Gunnarsdóttir, Óskar J. Sandholt, Guðrún Elsa Tryggvadóttir og Elísabet Pétursdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. mars 2019, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er vísað til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisráðs sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna frá 26. mars 2019:

    Lagt er til að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fela mannréttindaskrifstofu að gera áætlun um að tryggja samráð Reykjavíkurborgar við börn og ungmenni um öll mál sem þau varða fyrir skólabyrjun haustið 2019.

    Greinagerð fylgir tillögunni. R19030292

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda- og lýðræðisráðs:

    Lagt er til að fela mannréttindaskrifstofu að vinna tillögu að umgjörð að auknu samráði Reykjavíkurborgar við börn og ungmenni um öll mál sem þau varða og skili til ráðsins eins fljótt og kostur er en eigi síðar en um áramót 2019-2020.
    Samþykkt.
    Tillaga er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
    Þessi tillaga fellur mjög vel að stefnu Sósíalistaflokksins og tekur fulltrúi sósíalista heilshugar undir málflutning fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Fulltrúi Sósíalistaflokksins tekur heilshugar undir tillöguna og leggur áherslu á að hún komi til framkvæmdar sem fyrst.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn styður eindregið að Reykjavíkurborg tryggi að börn og ungmenni eigi möguleika á samráði um öll mál sem þau varða, sbr. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálans, sem lögfestur var á Alþingi þann 20. febrúar 2013. Mælst er til þess að við áætlanagerðina hafi Mannréttindaskrifstofa að leiðarljósi að bjóða upp á stuttar boðleiðir sem henti vel börnum og ungmennum og nýti möguleika tækninnar, bæði til þess að auka notendavæni og til þess að finna hagkvæmustu lausnirnar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
    Fulltrúi Flokks fólksins í mannréttinda og lýðræðisráði fagnar þessu frumkvæði frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um samráð. Flokkur fólksins styður heilshugar allt það samráð sem farið er fram á og reynt að koma því í framkvæmd sem fyrst. Flokkur fólksins saknar umfjöllunnar ungmennaráðsins um þann hóp barna sem kemur frá efnalitlum heimilum. Eru þessi börn virk í ungmennaráðinu eða draga þau sig í hlé sökum aðstæðna?
    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
    Meirihlutinn fagnar tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða enda fellur hún vel að markmiðum borgarinnar um valdeflingu ungmenna og aukna lýðræðislega virkni og aðkomu barna og ungmenna. Tillagan fellur vel að ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er í markvissri innleiðingu hjá Reykjavíkurborg. Mikilvægt er að vanda vel til verka við að kortleggja í samráði við fagsvið borgarinnar hvernig megi tryggja samráð við börn og ungmenni um öll mál sem þau varða. Lögð er áhersla á að mannréttindaskrifstofa móti umgjörð um slíkt samráð svo fljótt sem kostur er, en eigi síðar en fyrir árslok 2019.

    -    Kl. 14.05 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum
    -    Kl. 14.07 tekur Daníel Örn Arnarsson sæti á fundinum. 

    Ingvar Steinn Ingólfsson og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir mannréttinda- og lýðræðisráðs um 
    skyndistyrki. R19040083

    Samþykkt að veita umsókn um Alþjóðlegan Friðardag styrk að upphæð kr. 96.500, vegna Friðargöngu.
    Samþykkt að veita umsókn um Ráðstefnu um samvinnu í heimilisofbeldismálum styrk að upphæð kr. 476.896, vegna hönnunar kynningarefnis, ráðstefnuefnis og streymi og upptökum af ráðstefnu.
    Samþykkt að veita umsókn um Hinsegin sögu og myndlist: Samtal myndlistar og sögu hinsegin fólks á Íslandi með þátttöku hinsegin flóttafólks og hælisleitenda, styrk að upphæð kr. 430.000.

    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður styrkveitingu að upphæð kr. 226.896 vegna kostnaðaðar við streymi og upptökur af ráðstefnu um samvinnu í heimilisofbeldismálum og fagnar ráðstefnu sem þessari. Vekur það athygli að Jafnréttisstofa sæki um styrk til Mannréttinda og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
    Daníel Örn Arnarsson víkur af fundi við afgreiðslu styrkumsóknar um Hinsegin sögu og myndlist.

  3. Fram fer kynning á tilnefningum til Hvatningarverðlauna mannréttinda- og lýðræðisráðs 2019 sem verða afhent ásamt mannréttindaverðlaunum þann 16. maí 2019. R19030307
    Samþykkt.

    Trúnaður er um verðlaunahafa þar til verðlaunin verða afhent þann 16. maí 2019.

  4. Lögð fram umsögn valnefndar, dags 8. maí 2019, um tilnefningar til Mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar 2019 sem verða afhent á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar þann 16. maí. R19030307
    Samþykkt.

    Trúnaður er um verðlaunahafa þar til verðlaunin verða afhent þann 16. maí 2019.

  5. Fram fer kynning á dagskrá opins fundar mannréttinda- og lýðræðisráðs þann 16. maí 2019. R19030307

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á vinnustofu um lýðræði þann 3. júní 2019.

  7. Lagðar fram fundargerðir fjölmenningarráðs dags. 15. apríl og öldungaráðs dags.
    6. maí 2019. R19040081

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á verkefninu Hverfið mitt – hugmyndasöfnun og næstu skref.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins í mannréttinda og lýðræðisráði þykir miður að ekki verði valin sú leið að framkvæma beint lýðræði við val á fulltrúum í Hverfisráðin í Reykjavík. Flokkur fólksins telur að nú hefði skapast kjörið tækifæri til að koma á beinu lýðræði í borginni. Beint lýðræði er það sem koma skal í lýðræðisþjóðfélagi.

    -    Kl. 17.01 víkur Skúli Helgason af fundi. 

    Guðbjörg Lára Másdóttir og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Fundi slitið klukkan 17:05

Dóra Björt Guðjónsdóttir