Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 60

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2022, fimmtudaginn 28. apríl var haldinn 60. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 14.07. Fundinn sátu Diljá Ámundadóttir, Alexandra Briem, Ellen J. Calmon, Kolbrún Baldursdóttir, Örn Þórðarson og Anna Wojtynska. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Aron Leví Beck. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar J. Sandholt sat fundinn með rafrænum hætti.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs dags. 20. apríl 2022, með beiðni um umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um tillögu velferðarráðs um breytingar á forvarnasjóði Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lögð fram umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. VEL22040063 

    Samþykkt. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er fram tillaga velferðarráðs um breytingar á forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar, að sjóðurinn verði áfram á forræði velferðarráðs og að hann verði hýstur undir formerkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn. Þetta er lagt til í ljósi þess að margar rannsóknir sýna tengsl erfiðleika í æsku og geðheilsubrests. Í tillögunni eru tekin dæmi um áhrifabreytu eins og Snemmtæka íhlutun og mikilvægi þess að tryggja gott aðgengi að faglegri greiningu og ráðgjöf við börn sem glíma við erfiðleika og áföll. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að snemmtæk íhlutun (ráðgjöf og greining) getur skipt sköpum í lífi barns sem á í vanda eða hefur orðið fyrir áfalli. Og einmitt vegna þess er það með öllu óásættanlegt að biðlisti til fagaðila skóla hafi fimmfaldast á þessu kjörtímabili. Nú er tveggja ára bið í þroskamat hjá skólasálfræðingi hjá borginni sem dæmi í það sem kallast frumgreining. Liggi ekki fyrir slík greining er oft rennt algerlega blint í sjóinn með réttu viðbrögðin og úrræðin fyrir barnið. Tugir barna sem sterkar vísbendingar eru um að glími við ADHD eru á þessum biðlista. Dæmi eru um að börn eru útskrifuð þegar röðin kemur að því. Ekki þarf að spyrja um afleiðingarnar. Bið getur og hefur kostað líf. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um Betri Reykjavík og Hverfið mitt, sbr. 19. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 7. apríl 2022. MSS22040070

    Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

  3. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um netspjall, sbr. 20. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 7. apríl 2022. MSS22040096 

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar 2022 – 2026. MSS22010199

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aðgengisstefnan er ágæt eins langt og hún nær. Samgöngumálin eru þó ansi fyrirferðarlítil í stefnunni. Fjölga þarf P-merktum bílastæðum í borgarlandinu en ekki fækka eins og gert hefur verið að undanförnu. Skýra þarf einnig og skilgreina betur hlutverk aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar og tryggja það, að eðlilegt og reglulegt samráð sé haft við nefndina um þau málefni fatlaðra. Alveg gleymist að skoða og ræða um fjárhagslegt aðgengi en fram hefur komið að það var ekki hluti af erindisbréfinu. Til dæmis er verðskrá og þjónustan ekki sambærileg hjá Strætó og hjá Akstursþjónustunni sem er hugsuð er sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með Akstursþjónustunni er dýrari. Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að láta það borga meira fyrir sérhæfða þjónustu sem það þarf nauðsynlega. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem kom út 2021. Þar kom fram að 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Skipa þyrfti yfiraðgengisfulltrúa hið fyrsta og í kjölfarið ráða fleiri aðgengisfulltrúa.

    Tómas Ingi Adolfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Þorkell Heiðarsson með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:25

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
60._fundargerd_mannrettinda-_nyskopunar-_og_lydraedisrad_28._april_2022.pdf