Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2022, fimmtudaginn 10. mars var haldinn 57. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13.02. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir og Anna Wojtynska. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Ellen J. Calmon, Geir Finnsson, Alexandra Briem, Kolbrún Baldursdóttir og Örn Þórðarson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram tillaga fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts um kynjalaust skólaumhverfi í grunnskólum Reykjavíkur, frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráði ungmenna þann 8. febrúar 2022. MSS22020117
Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar skóla- og frístundasviðs og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Natalíu Lind Hagalín fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts er þakkað kærlega fyrir góða framsögu og mjög svo áhugaverða tillögu. Tillagan ávarpar brýnt málefni sem er aðgengi allra kynja að samfélaginu í takt við lög um kynrænt sjálfræði. Verið er að vinna að bættu aðgengi allra kynja að salernis- og klefaaðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði borgarinnar og mikilvægt að það verði til sjáanlegra breytinga í nálægri framtíð. En tillagan ávarpar jafnframt aðra þætti svo sem kennsluhætti og aðgreiningu kynja í skólastarfi. Þetta þarf að skoða vel til þess að bregðast við þróun samfélagsins. Tillögunni er vísað til umsagnar.
- Kl. 13.08 tekur Karen María Jónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Natalía Lind Hagalín og Gísli Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á hlutverki samráðsnefnda við stefnumótun og ákvarðanatöku sbr. aðgerð 2. í aðgerðaráætlun lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. MSS21110030
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Áherslur meginmarkmiða byggja á fjórum þáttum sem eru að: 1. Starfrækja skilvirkar leiðir fyrir borgarbúa til að hafa áhrif á ákvarðanir með nýstárlegum aðferðum á forsendum þeirra sjálfra. 2. Tryggja aðgengi til að stuðla að jafnrétti og inngildingu svo að allir hópar samfélagsins hafi jöfn tækifæri til aðkomu að ákvarðanatöku. 3. Auka vitund borgarbúa um ólíkar leiðir sem í boði eru til að koma sjónarmiðum sínum áleiðis. 4. Skýra mismunandi stig þátttöku, upplýsa um feril ákvarðanatöku og skapa þannig raunhæfar væntingar. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands ítrekar mikilvægi þess að huga að og tryggja aðgengi borgarbúa til að koma sinni rödd á framfæri. Mikilvægt er að tryggja aðgengi, þannig að íbúar með fötlun mæti ekki hindrunum. Ýmsir þættir geta haft áhrif á það að erfitt getur verið fyrir suma að koma sínum skoðunum áleiðis. Þar má nefna efnahagslega stöðu, tímaskort vegna anna og tungumálakunnáttu. Til að heyra fjölbreyttar raddir íbúa þarf borgin að vera meðvituð um ólíka stöðu borgarbúa í allri starfsemi og þjónustuveitingu sinni.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þessari umræðu um hlutverk samráðsnefnda við stefnumótun og ákvarðanatöku þegar verið er að taka ákvarðanir sem lúta að aðstæðum og umhverfi borgarbúa og minnihlutahópa eða íbúa hverfa. Það hefur verið langþráður draumur sem minnihlutafulltrúi Flokks fólksins að samráðsferli og eðli samráðs sem Reykjavíkurborg hefur við borgara og hagaðila verði skoðað með gaumgæfulegum hætti og því breytt í grunninn. Samráðsferli hefur alls ekki verið alltaf skýrt og engar samræmdar leiðbeiningar liggja fyrir. Hvað þarf að liggja til grundvallar í vel heppnuðu samráðsferli þarf að liggja fyrir. Hefja þarf samráð á allra fyrstu stigum, fara að stað með autt blað og leyfa borgarbúum (íbúum hverfa) og hagaðilum að leggja frumdrög að forsendum. Þetta hefur því miður ekki verið með þessum hætti á kjörtímabilinu með þeim afleiðingum að víða hafa logað eldar um borgina sem enn hefur ekki tekist að slökkva. Fulltrúi tekur heilshugar undir eftirfarandi: Gerð verði úttekt á núverandi fyrirkomulagi samráðs við stefnumótun og ákvarðanatöku hjá Reykjavíkurborg. Markmið: Að samráð við íbúa, hagaðila og samráðsnefndir verði ætíð stór hluti af stefnumótun og stærri ákvörðunum.
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verkefninu áhættustýring og greining misferlisáhættu hjá Reykjavíkurborg, Innri endurskoðun. MSS22030083
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Innri endurskoðun og ráðgjöf (IER) hefur lokið við heildstæða misferlisáhættugreiningu á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og birtir nýtt skorkort sem byggir á áhættumati 266 viðmiða innan fimm meginþátta innra eftirlits. Greiningin og úrvinnsla er liður í meirihlutasáttmálanum. Við mat á áhættu hefur IER notað ýmis viðmið; stefnur og reglur borgarinnar, leitað til sérfræðinga innan kjarna- og fagsviða um eftirlitsaðgerðir, litið til fjölmargra úttekta sem gerðar hafa verið, viðhorfskannanir og viðtöl við starfsfólk og borgarfulltrúa, auk þess sem niðurstaða áhættumats fór í jafningjarýni innan Innri endurskoðunar og ráðgjafar. Niðurstöðum verður vísað til fjármála- og áhættustýringarsviðs til úrvinnslu. Ánægjulegt er að sjá að jákvæða framvindu frá frummati sem unnið var 2018 og svo að endurmati árið 2021. Á kjörtímabilinu hefur verið mikil áhersla á eflingu eftirlits og aukningu gagnsæis. Stofnað hefur verið nýtt svið fjármála og áhættustýringar og svið þjónustu og nýsköpunar þar sem gagnsæi er gert mun hærra undir höfði, ný áhættustefna hefur verið unnin og eftirlitsumhverfið styrkt með nýrri og öflugri eftirlitseiningu.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar fyrir kynningu innri endurskoðunar á misferlisáhættu. Þar kemur fram margt jákvætt, að misferlisáhætta sé ekki mikil og markvisst sé unnið í þá átt að dragar úr slíkri áhættu. Hitt er þó áhyggjuefni að niðurstöður úr skoðunarkönnun meðal borgarfulltrúa eru síður en svo jákvæðar. Við blasir að ekki er eins mikið traust á milli aðila eins og ákjósanlegt væri. Þann hluta rannsóknarinnar þarf að rýna betur og finna leiðir til að auka traust. Það er verkefni borgarstjórnar og við því þarf að bregðast hratt og örugglega.
- Kl. 14.35 víkur Anna Kristinsdóttir af fundinum.
Jenný Stefanía Jensdóttir og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju skýrsla og tillögur starfshóps um ókyngreinda aðstöðu í skóla - og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar dags. nóvember 2021, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. nóvember 2021. Jafnframt er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs dags. 15. febrúar 2022. MSS22010256
Samþykkt að vísa skýrslu og tillögum starfshóps til fjárhagsáætlunargerðar fjármála- og áhættustýringarsviðs.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið þær upplýsingar að ekki er ennþá búið að breyta reglugerðum hvað þessi efni varðar og því er enn sem komið er ekki skylda að bjóða upp á ókyngreind salerni eða ókyngreinda búningsaðstöðu. Ríkisstjórnin hyggst gera slíkar breytingar á viðeigandi reglugerðum á þessu ári eða 2023, sbr. markmið 10. í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks. Ljóst er að hið opinbera ætlar ekki að veita fjármagn til verkefnisins ef litið er til þess að aðeins var athugaður kostnaður hjá þeim skólum: Þar sem ekki eru ókyngreind salerni eða ókyngreind búningsaðstaða, þar sem skólastjóri/forstöðufólk taldi þörf á slíku og þar sem nemendur höfðu kallað eftir ókyngreindri aðstöðu. Verður að áætla að þegar áðurnefndar reglugerðarbreytingar ganga í garð verði auk þess þörf á frekari breytingum í öðrum skólum, íþróttamiðstöðvum og félagsheimilum. Því er líklegt að heildarkostnaðurinn verði umtalsvert meiri en þær 30 m.kr. sem gert er ráð fyrir í frumkostnaðaráætlun. Hér er enn eitt dæmið um hvernig hið opinbera gerir breytingar á lögum og reglum með fögur fyrirheit um breytta tíma án þess að fjármagn fylgi til að framfylgja þeim lögum og reglum á sveitarstjórnarstiginu.
Fylgigögn
-
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að stefna Reykjavíkurborgar verði að tryggja ókyngreind salerni og búningsaðstöðu í byggingum skóla og frístundar sem og annars staðar í húsnæði borgarinnar sem opið er almenningi. Umhverfis- og skipulagssvið skuli fylgja þessari stefnu eftir og gera kröfu um slíka hönnun ef um nýbyggingar er að ræða. Við breytingar á eldra húsnæði þar sem ekki er hægt að koma fyrir ókyngreindri aðstöðu verður að lágmarki að tryggja að salerni fatlaðra sé einnig aðgengilegt fyrir öll óháð kyni og merkt í samræmi við það.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010256
Samþykkt og vísað til staðfestingar borgarráðs.Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er samþykkt að gera ókyngreinda almenningsaðstöðu að kröfu í nýbyggingum á vegum borgarinnar og að komið verði upp ókyngreindri aðstöðu í eldra húsnæði. Við breytingar á eldra húsnæði þar sem ekki er hægt að koma fyrir ókyngreindri aðstöðu verður að lágmarki að tryggja að salerni fyrir fatlað fólk sé einnig aðgengilegt fyrir öll óháð kyni og merkt í samræmi við það.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fulltrúa í valnefnd vegna mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022. MSS22030051
Samþykkt að fela starfsmanni mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að hefja undirbúning valnefndar og mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar. -
Fram fer umræða um vinnufund mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 17. mars 2022. MSS22020222
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vefsíðu Reykjavíkurborgar, sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020266
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um störf og réttindi starfsmanna, sbr. 7 lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020267
Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ágang nágranna, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 24. febrúar 2022. Jafnframt er lögð fram afturköllun fyrirspurnar dags. 25. febrúar 2022. MSS22020268
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sú fyrirspurn sem hér um ræðir á ekki heima í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði og er hún því afturkölluð.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 15:57
Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Alexandra Briem
PDF útgáfa fundargerðar
57._fundargerd_mannrettinda-_nyskopunar-_og_lydraedisrad_10._mars_2022.pdf