Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 42

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2021, fimmtudaginn 10. júní var haldinn 42. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl.13.02. Fundinn sátu: Diljá Ámundadóttir, Ellen J. Calmon og Arnaldur Sigurðarson. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011:Örn Þórðarson, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Ásta Þórdís Skjaldal Guðjónsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Karen María Jónsdóttir sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram til upplýsingar bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 3. júní 2021, um drög að breytingum á samþykkt mannréttinda-,nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R18060129

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á umbótum í kjölfar skýrslu húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um brunann að Bræðraborgarstíg 1. R20060261 

    -    Kl. 13.21 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um  aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að fundið verði öruggt húsnæði fyrir þá sem búa í ósamþykktu húsnæði. Tillögunni var vísað frá með vísun í skýrslu um brunavarnir í íbúðum. Í skýrslunni er ekkert að finna sem beint tengist tillögunni sem hér um ræðir t.d. hvernig á að leysa húsnæðisvanda þessa fólks til að það þurfi ekki að búa í óviðunandi og jafnvel hættulegu húsnæði. Kortlagning á óleyfisbúsetu snýr að húsnæðinu en ekki að fólkinu sem býr í því en tillagan gekk út á að finna þetta fólk og bjóða því betri kost. Hér er um efnalítið og fátækt fólk að ræða. Vegna fátæktar verður fólk að leigja sér húsnæði sem jafnvel er skipulagt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki, aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant. 
     
    Nikulás Úlfar Másson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 8. júní 2021, um drög að erindisbréfi um stofnun stýrihóps um jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á tillögu um að ráðast í vinnu við að endurskoða jafnlaunastefnu, sbr.13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. maí s.l. R21050253
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 27. maí 2021, um samþykkt borgarráðs þann 20. maí s.l., um að vísa drögum að Heilsuborginni Reykjavík – Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til 2030, til umsagnar fagráða Reykjavíkur. Jafnframt er lögð fram til samþykktar drög að umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 7. júní 2021. R19110027  
    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólks varð fyrir vonbrigðum með þessi drög. Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Farið er vítt og breitt í stefnunni með fögur fyrirheit. Ekki orð er um biðlista sem er rótgróið mein í Reykjavíkurborg. Hvergi er minnst á 1033 börn sem bíða eftir að fá nauðsynlega aðstoð til að bæta líðan sína og hjálpa þeim með sértæk vandamál sín. Börn sem fá ekki nauðsynlega sálfræðiaðstoð eiga á hættu að hraka. Með biðinni er heilsu þeirra ógnað jafnvel til frambúðar. Hvergi er minnst á biðlista eldri borgara eftir þjónustu eða fatlaðs fólks eftir húsnæði. Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík hefur heldur ekki fangað höfunda stefnunnar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er stærsti lýðheilsuvandi þessarar borgar. Í stefnunni segir að reyna á að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þeim þremur árum. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 8. júní 2021, um  tillögu að kjörstjórn vegna rafrænna kosninga í verkefninu Hverfið mitt 2021. Jafnframt eru lagðar fram reglur um kjörstjórn. R20050328
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R21020040 
    Samþykkt að veita verkefninu Málþing Fyrstu Fimm kr. 25.000 kr.- vegna kostnaðar við streymi.
    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

  7. Fram fer kynning á verkefninu Hverfið mitt 2021 – Uppstilling kjörseðils. R20050238

    -    Kl. 14.10 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum.
    Eiríkur Búi Halldórsson og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á drögum að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. R18010207 
    Samþykkt að vísa drögum að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar í opið umsagnarferli. 
     
    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða kynningu á drögum að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar og vonumst til að sem flestir borgarbúar kynni sér hana og láti sig hana varða í umsagnarferlinu.

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um fyrirkomulag fjölmenningarviðburðar 2021, sbr. 11 lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. maí 2021. R19020227  
    Samþykkt að fela fulltrúa fjölmenningarráðs og Ellen J. Calmon fulltrúa mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, ásamt mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að hefja undirbúning fjölmenningarviðburðar. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ellen Calmon fulltrúa mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs ásamt fulltrúa fjölmenningarráðs er falið að undirbúa viðburðinn og ákveða fyrirkomulag hans í samstarfi við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beinir því til skipulags- og samgönguráðs að láta yfirfara gátlista fyrir leiksvæði og opin svæði sem er hafður til hliðsjónar við hönnun og framkvæmd svæðanna og bæta inn atriðum til að tryggja að svæðin uppfylli hugmyndafræði algildrar hönnunar. Lagt er til að við hönnun og/eða breytingar á leikvöllum, fjölskyldurýmum eða opnum svæðum í borgarlandinu verði ávallt litið til hugmyndafræði algildrar hönnunar (e. Universal Design). Er þar meðal annars átt við að svæðin og leiktækin sem valin eru henti sem flestum hópum óháð aldri og fötlun. Við hönnun og útfærslu verði haft í huga að leita lausna í takt við Græna planið svo sem umhverfisvæn leiktæki og að hugað verði að kolefnisfótspori og endurnýtingu efnis.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21060089
    Samþykkt og vísað til skipulags- og samgönguráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður hina svo kölluðu algildu hönnun sem felst í því að svæði/tæki á leikvöllum, fjölskyldurými eða opin svæði í borgarlandinu verði hönnuð og tæki valin sem henti sem flestum hópum óháð aldri og fötlun. Segir í greinargerð með tillögunni að leiktæki eiga einnig að geta rúmað ömmur og afa, ungmenni sem og lítil börn. Hugmyndin er að öll fjölskyldan geti komið saman og leikið sér. Mitt í þessu öllu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu fyrst og fremst á öryggisþáttinn. Minnt er á að það hafa orðið alvarleg slys á börnum í leiktækjum borgarinnar. Sem betur fer eru þau fátíð. Stöðug vitundarvakning þarf að vera í gangi að mati fulltrúa Flokks fólksins, sinna þarf viðhaldi og reglubundnu  eftirliti á tækjum og svæðum þar sem börn eru á leik og skoða þarf  hin minnstu frávik. Fulltrúi Flokks fólksins vil nota tækifærið hér að leggja áherslu á að myndavélar verði settar upp á öllum leikvöllum í ljósi nýlegs atviks þar sem maður reyndi að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram til upplýsingar bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 3. júní 2021, um ráðstefnu um stafræna vegferð Reykjavíkurborgar sem fer fram þann 11. júní 2021. R20080125 

    Fylgigögn

  12. Fram fer kynning þjónustu- og nýsköpunarsviðs á verkefninu Gagnsjá, staða mála. R20100055

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki á tengslum þess að óska eftir að fá mál flokkanna sem skipa minnihlutann sett inn á vef borgarinnar t.d. heimasvæði oddvita og þess að borgarfulltrúar séu nú orðnir einn notendahópur hinnar svokallaðar Gagnsjáar. Óskað var eftir að borgarfulltrúar kjörnir fulltrúar kæmu í notendaviðtöl til að greina þarfir þeirra sem eru þær sömu enda standa borgarfulltrúar allir jafnir í starfi sínu. Þarfirnar eru alveg skýrar, að fá framlögð mál inn á vef borgarinnar. Sú vinna er aðeins handavinna fyrst og fremst og þarf ekkert að ofhugsa neitt frekar eða flækja. Alþingisvefurinn er góð fyrirmynd. Beiðni fulltrúa Flokks fólksins um þetta var fyrst lögð fram 2019 og aftur í borgarráði 15. apríl 2021. Hugsunin er fyrst og síðast að borgarbúar hafi greiðan aðgang að málum borgarfulltrúa, feril þeirra og afgreiðslu. Þarfir eru því alveg skýrar og þarf ekki að eyða frekara fjármagni í að stúdera það frekar. Er þá vikið að kynningu Gagnsjár eins og það kallast, þar segir: Lærdómsríkt ferli, ekki að gefa sér lausn fyrirfram, þora að prófa, enn og aftur teymisvinna? Hér er verið að fara út og suður og flækja málið, skreyta það út í eitt. Það þarf heldur ekki að henda öllu út því margt virkar ágætlega en samt á að umbylta öllu eins og ekkert lát sé á að moka peningum í hítina.

    Hreinn Valgerðar Hreinsson, Arna Ýr Sævarsdóttir og Kristín Berg Bergvinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  13. Kynning þjónustu- og nýsköpunarsviðs á Högun stafrænnar vegferðar. R20080125 
    Frestað. 

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um sóttvarnaraðgerðir á landamærum, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. apríl 2021. R21040035 
    Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks Fólksins. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sóttvarnaraðgerðir á landamærum til að tryggja lagaheimildir fyrir nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum á landamærum hefur verið vísað frá. Þessi tillaga var lögð fram vegna vissra aðstæðna sem var í samfélaginu í apríl, þegar ekki var ljóst hvort ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir því að tryggja lagaheimildir fyrir nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum á landamærum svo vernda megi samfélagið gegn heimsfaraldrinum án þess að mannréttindi fólks séu brotin. Á þessum tíma hafði sóttvarnarlæknir varað við því að án heimilda til að skylda fólk í sóttkví undir eftirliti verði ekki hægt að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið og dreifist. Fulltrúi Flokks fólksins vill að það komi fram að markmið mannréttindaráðs er líka að standa vörð um öryggi. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttinda og því er það verkefni ráðsins að láta í ljós afstöðu sína og kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnar. En nú eru aðstæður aðrar og því er þessi tillaga ekki „relevant“ lengur en vonandi til þess fallin að hvetja mannréttindaráðið til að vera meira á vaktinni og nota vald og áhrif til góðra hluta í þágu borgarbúa.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í mannréttinda- , nýsköpunar- og lýðræðisráði telur rétt að vísa erindinu frá þar sem sóttvarnaraðgerðir og lagabreytingar eru ekki á verksviði ráðsins.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um starfsaldursviðmið eldri borgara, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. apríl 2021. R21040034
    Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks Fólksins. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.    

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að losa um starfsaldursviðmið eldri borgara er vísað frá. Sagt er að þetta sé í farvegi. Það hlýtur að stangast á við mannréttindi og lýðræði að skikka fólk til að hætta að vinna þegar því langar og það getur unnið lengur. Ráðið ætti að berjast fyrir að losað verði um starfsaldursviðmið eldri borgara sem er 70 ár þannig að það verði ákvörðun hvers og eins hvenær hann óskar að hverfa af atvinnumarkaði þegar þessum aldursskeiði er náð. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveða á um að almennt skuli segja upp störfum þegar ríkisstarfsmaður nær 70 ára aldri. Engin sambærileg ákvæði eru hins vegar í sveitarstjórnarlögum. Ráðið gæti einnig beitt sér fyrir því að vinnumiðlun eftirlaunafólks verð sett á laggirnar. Það er ekkert sem hindrar í  að taka ákvörðun um að losa um 70 ára aldursviðmiði þannig að viðkomandi geti ýmist haldið áfram í sínu starfi hjá sveitarfélaginu óski hann þess eða sótt um annað starf/minna starfshlutfall allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Annað réttlætismál er að draga úr skerðingum og gæti Ráðið hvatt og þrýst ríkið í að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna verð hækkað í a.m.k. umtalsvert eða afnumið alfarið

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í mannréttinda- , nýsköpunar- og lýðræðisráði telur rétt að vísa erindinu frá þar málið er í farvegi.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, standi vörð um alla minnihlutahópa í borginni, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. maí 2021. R21050275
    Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks Fólksins, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að standa vörð um alla minnihlutahópa í borginni hefur verið vísað frá. Rökin eru ekki skýr. Það er mjög sjaldan sem mannréttindaráð hefur fjallað um málefni eldri borgara. Eldri borgarar er hópur fólks sem lang flestir eiga eftir að tilheyra, ef Guð lofar. Þetta er fólkið sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins allt sitt fullorðinslíf og langar til að fá að lifa ævikvöldið sitt áhyggjulaust og með þeim hætti sem það sjálf kýs. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð gæti gert miklu meira til að hvetja borgarstjórn til að taka málefni eldri borgara ofar á forgangslistann og samþykkja fleiri tillögur þeim til heilla. Það mætti sem dæmi færa rök fyrir því að, sé maður skikkaður til að hætta að vinna 70 ára þrátt fyrir fulla starfsgetu, þá sé það mannréttindabrot. Einnig horfir fulltrúi Flokks fólksins til þeirra barna sem nú telja 1056 á biðlista Skólaþjónustu eftir faglegri aðstoð. Bið barna eftir nauðsynlegri þjónustu hlýtur að ganga í berhögg við mannréttindi. Þessi biðlisti hefur t.d. aldrei komið til umræðu í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði vísar málinu frá þar sem innihald tillögunnar á betur við um verksvið skóla- og frístundaráðs og öldungaráðs.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér fyrir því að settar verði upp myndavélar á alla leikvelli á vegum borgarinnar. Það heyrir til mannréttinda að tryggja börnum fyllsta öryggi í borginni hvar sem er. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem tryggt má vera að finna börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á svæðum sem þeim er ætlað að leika sér á. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu. Þessi tillaga er lögð fram í ljósi nýlegs atviks þar sem reynt var að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli í borginni. Þetta er ekki eina tilvikið af þessum toga. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sómi væri af því ef mannréttindaráð léti kostnaðarmeta þessa tillögu og í framhaldinu beita sér fyrir því að fá hana samþykkta. R21016118

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 16:05

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_1006.pdf