Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2021, fimmtudaginn 6. maí var haldinn 40. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl.13.02. Fundinn sátu: Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen J. Calmon, Diljá Ámundadóttir, Skúli Helgason, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar J. Sandholt sat fundinn með fjarfundarbúnaði.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 5. maí 2021, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi m.a. vegna notkun fjarfundabúnaðar, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 4. maí 2021. R18060129
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á nýjum lögum um vernd uppljóstrara nr. 40/2020, og reglum um verklag vegna uppljóstrunar starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Reykjavíkurborgar. R21010268
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Ný lög um vernd uppljóstrara tóku gildi 1. janúar 2021 og vinnur Reykjavík að því að innleiða þau lög. Vernd uppljóstrara snýst um að standa vörð um mannréttindi og tjáningarfrelsi uppljóstrara og að koma í veg fyrir saknæmt og ámælisvert athæfi innan stjórnsýslunnar og tryggja þannig hagsmuni almennings. Búið er að koma á fót nýrri uppljóstrunargátt þar sem hægt er að skila gögnum á öruggan hátt og samhliða er verið að móta verklagsreglur en Reykjavík er fyrsta sveitarfélagið til þess.
Hallur Símonarson, Kristín Vilhjálmsdóttir, Sigrún Jóhannsdóttir, Lóa Birna Birgisdóttir og Elín Blöndal taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttindastjóra dags. 29. apríl 2021, um stofnun starfshóps um ókyngreinda aðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar. R21040315
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er fram erindisbréf um starfshóp um ókyngreinda aðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði sem vinna á áætlun um forgangsröðun framkvæmda við skólahúsnæði með það sérstaklega í huga að tryggja aðgengi. Lögin eru enn óbreytt en eru í endurskoðun. En eins og stendur kveða lögin á um „að þar sem skilrúm salernisklefa ná ekki niður að gólfi og upp að lofti skulu salernisrými vera aðgreind fyrir konur og karla.“ Reglugerðin kveður ekki á um kyngreinda búnings- og baðaðstöðu. Skiljanlega vill Reykjavíkurborg vera í fararbroddi og sjálfsagt er að hafa skýr markmið. Tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þau öll. Vinna þarf gegn allri mismunun. Víða mætti bæta aðgengi og aðstöðu í búnings- og baðsaðstöðu í húsnæði á vegum borgarinnar t.d. þeirra sem búa við fötlun af einhverju tagi. Aðstæður eru verri í eldra húsnæði. Vöntun er víða á aðstöðu fyrir foreldra fatlaðra barna og barna sem þurfa sérstaka aðstoð og eru af öðru kyni, einnig fatlað fólk með aðstoðarmann af öðru kyni og börn að aðstoða foreldra sem eru af öðru kyni. Loks má nefna þá sem er t.d. með stóma. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá hópinn horfa til allra þessara þátta, aðgengi almennt.
Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi formanns mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 3. maí 2021 til forsætisráðuneytis, vegna reglna sem ganga í berhögg við lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði. R21050037
Fylgigögn
-
Lagðar fram umsóknir um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R21020040
Hafnað -
Fram fer kynning á verkefninu kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun. R21010137
Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 29. apríl 2021, um tillögu borgarstjóra um aðild Reykjavíkurborgar að tengslanetinu Cities Coalition for Digital Rights. R21030289
Samþykkt.
Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjóri hefur lagt til að hann verði fulltrúi í bandalaginu Cities Coalition for Digital Rights og sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs staðgengill. Umsagnarbeiðni (drög) er lögð fram í mannréttindaráði til samþykktar eða synjunar. Ekki fylgja upplýsingar um hvort þetta skapi einhvern kostnað t.d. hvort borgarstjóri hyggist leggja land undir fót til að mæta á fundi? Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að vel er hægt að taka þátt í bandalaginu í gegnum fjarfundi. Sjálfsagt er að fylgjast með en minnt er á að Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur sveitarfélag sem hefur skuldbindingar gagnvart fólkinu. Finna má nú þegar dæmi um snjalllausnir sem komnar eru í notkun í öðrum stofnunum og sem Reykjavíkurborg gæti nálgast og aðlagað að þjónustuþörfum borgarinnar. Svið borgarinnar vita best hvað þau þurfa og hvernig sú aðlögun þarf að vera. Þetta gera aðrar stofnanir og það fyrir brotabrot af því fjármagni sem sett hefur verið í stafræna umbreytingu sem eru 10 milljarðar. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til þátttöku borgarstjóra í þessu áhugaverða bandalagi í gegnum snjallausnir/fjarfundi og umfram allt að reyna að læra sem mest af öðrum. Þótt fulltrúi Flokks fólksins styðji prinsippið enda hér aðeins um drög að ræða styður hann engin fjárútlát sem munu tengjast þessu svo það sé alveg skýrt.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 30. apríl 2021, um tillögu borgarstjóra um styrk til Nýsköpunarvikunnar 2021. R21020157
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt Nýsköpunarvoginni eykst skilvirkni vinnustaða um 67% í gegnum nýsköpunarverkefni. Þá er nýsköpun ein af forsendum þess að íslenskt samfélag geti tekist á við þær áskoranir sem við mætum í dag og í framtíðinni, þar á meðal til að mæta markmiðum um loftslagsmál og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Því telja fulltrúar meirihluta mikilvægt að styðja við Nýsköpunarvikuna með þessum hætti.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk hins opinbera að vera að eyða háum fjárhæðum af almannafé í þá tilraunastarfsemi sem nýsköpunarvinna í rauninni er. Það eru fyrst og fremst einkafyrirtæki sem eiga að leiða þennan nýsköpunarvagn; það eru einkaaðilar sem eiga að taka þá fjárhagslegu áhættu sem fólgin er í nýsköpun. Það er ekki hægt að réttlæta það lengur að meirihlutinn í Reykjavík skuli vera að auka fjármagn enn frekar undir merkjum nýsköpunar á kostnað þjónustu við fólkið bæði grunnþjónustu að aðra sem borgarbúa þurfa. Nýsköpun er litla barn þessa meirihluta og er greinilega í forgangi. Orðið nýsköpun er farið hljóma eins og einhverskonar mantra sem meirihlutinn fer með aftur og aftur til þess að réttlæta það mikla fjármagn sem búið er að setja í þessa hluti margsinnis án skilgreininga, skýrra markmiða og oft án sýnilegs árangurs eða afurða. Reykjavíkurborg á að fylgjast með því sem einkaaðilar hérlendis sem erlendis, eru að gera í þessum málum og nýta sér svo þær lausnir sem það nýsköpunarferli skilar af sér og sannað er að beri árangur. Þannig er best farið með fjármuni Reykvíkinga.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 13. apríl 2021, um afgreiðslu mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað. R21030125
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst hann ekki hafa fengið skýr svör við spurningum sínum um ferðakostnað háttsettustu manna á sviði þjónustu- og nýsköpunarsviðs og sundurliðun á kostnaðinum og veit ekki hvert vandamálið er. Oft áður hefur verið spurt um kostnað sviða vegna ferðalaga, ráðstefna, funda og annað og koma þá tölur sem hafa verið sundurliðaðar eftir árum, erindum og á starfsfólk/starfstitlum án vandkvæða. Það er ekki tilfellið í þessu svari og hafa samt verið gerðar tvær tilraunir. Í seinna svari sem kemur frá skrifstofustjóra borgarstjórnar eru sýndar tölur frá 2016 og 2017, eftir deildum og er upphæðin tæpar 6 milljónir en fulltrúi Flokks fólksins vill fá sundurliðun eftir starfsheitum og ástæður ferðalaganna. Fulltrúi Flokks fólksins er orðinn tortrygginn vegna þess hversu erfiðlega gengur að fá svör í ljósi þess að sviðinu hefur verið veitt 10 milljarða innspýting. Það er réttur borgarbúa að fylgst sé með þegar upphæðir eru af þeirri stærðargráðu sem ÞON er að höndla með. Sér í lagi þegar um er að ræða óljósar og óskilgreindar áætlanir sem tengjast nýsköpun og stafrænni umbreytingu og ferðalögum og fleiru þessu tengdu. Nú þegar nauðsynlegt er að velta við hverri krónu vegna slæmrar stöðu borgarinnar er krafan um skerpingu á markmiðum enn háværari.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga og umsögn valnefndar dags. 5. maí 2021, um verðlaunahafa mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar 2021. Trúnaður ríkir um verðlaunahafa þar til verðlaunin verða afhent þann 17. maí 2021. R21030018
Samþykkt.. -
Lögð fram tillaga og umsögn valnefndar dags. 5. maí 2021, um verðlaunahafa hvatningarverðlauna mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2021. Trúnaður ríkir um verðlaunahafa þar til verðlaunin verða afhent þann 17. maí 2021. R21030018
Samþykkt. -
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs dags. 3. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um verkefnið rafræna vöktun, sbr., 15. lið. fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. september 2020. R20090095
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í svarinu kemur fram að 11. nóvember hafi skrifstofa framkvæmda og viðhalds upplýst um að hún hafi ekki umboð til þess að fara í samningagerð um rekstur öryggismyndavéla í borgarlandinu, heldur verði skrifstofa borgarstjóra og borgarritara að leiða þá vinnu. Málið var því sent til meðferðar hjá borgarritara 18. febrúar síðastliðinn. Ennfremur kemur fram að viðræður skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við lögreglu og Neyðarlínuna, varðandi samning um rekstur myndavéla í miðborginni séu ekki hafnar, en ætlunin sé að myndavélarnar í Grafarvogi falli inn í samning. Því er óskað svara við því hvenær búast megi við að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara hefji þær viðræður við lögreglu og Neyðarlínuna. R20090095
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Fundi slitið klukkan 15:45
Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason
Sanna Magdalena Mörtudottir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
mnl_0605.pdf