Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2021, fimmtudaginn 8. apríl var haldinn 39. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl. 13.02. Fundinn sátu: Dóra Björt Guðjónsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þorkell Heiðarsson, Diljá Ámundadóttir, Skúli Helgason, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar J. Sandholt sat fundinn með fjarfundarbúnaði.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á verkefninu Fab Lab í Breiðholti. R21020121
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fab Lab er frábært verkefni þar sem Reykjavíkurborg og ráðuneyti atvinnuvega og menntamála taka höndum saman með Fjölbrautaskólanum í Breiðholti við að auka veg nýsköpunar og frumkvöðlamenntar í menntakerfinu. Kynningin leiðir í ljós að unnið er að mörgum spennandi verkefnum sem tengjast lausnum á áskorunum á sviði loftslagsmála, umhverfisverndar og fleiri samfélagslega mikilvægra verkefna. Sérstakt fagnaðarefni er að Fab Lab hefur tekið upp samstarf við grunnskóla í Breiðholti um að setja upp sköpunarver í þremur grunnskólum og vinna með þeim að því að þróa námsefni og þjálfa kennara í vinnubrögðum nýsköpunar.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks styður samstarfsverkefnið enda er með því dreginn fram sameiginlegur skilningur á mikilvægi þess hlutverks Fab Lab Reykjavíkur að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings og innan atvinnulífs á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Samstarfið styður við þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, aukið tæknilæsi og aðgengi að skapandi vinnuumhverfi. Mikilvægt er að draga fram að verkefnið standi öllum borgarbúum opið. Ástæða er að hvetja til aukinnar þátttöku með sérstaka áherslu á yngri borgarbúa. Að lokum er hvatt til þess að skoðaðar verði leiðir til að víkka út verkefnið með nýju samstarfi við fleiri aðila í verk- og tæknigeiranum, jafnt fyrirtæki sem menntastofnanir sem láta sig málið varða.
Þóra Óskarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um jafnara aðgengi að endurvinnslu, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október 2020. Jafnframt eru lagðar fram umsagnir aðgengis- og samráðsnefndar dags. 5. febrúar og stjórnar Sorpu bs dags. 6. mars 2021. R201100433
- Kl. 13.50 víkur Þorkell Heiðarsson af fundi og Ellen J. Calmon tekur sæti með fjarfundarbúnaði.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð samþykkir að beina því til stjórnar Sorpu að láta fara fram skoðun á því hvernig einstaklingar sem þess þurfa geti fengið aðstoð við að setja endurvinnanlegan úrgang í viðeigandi gáma. Í dag er staðan sú að ekki allir sitja við sama borð þegar kemur að því að skila flokkuðum úrgangi á viðeigandi staði. Brýnt er að allir íbúar geti nýtt sér hina mikilvægu þjónustu Sorpu og þannig lagt sitt af mörkum í þágu sjálfbærni og umhverfisverndar.
Breytingartillagan er samþykkt.
Tillagan samþykkt svo breytt.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Því miður er margt í samfélaginu óaðgengilegt og mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkar hindranir. Hér er samþykkt að vinna áfram með tillögu sósíalista um jafnara aðgengi að endurvinnslu. Breytingartillagan felur í sér að beina því til stjórnar Sorpu að láta fara fram skoðun á því hvernig einstaklingar sem þess þurfa geti fengið aðstoð við að setja endurvinnanlegan úrgang í viðeigandi gáma. Staðan er sú að ekki allir eru við sama borð og dæmi eru um að einstaklingar sleppi því að flokka ef aðgengi er slæmt.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga er mjög skýr að mati fulltrúa Flokks fólksins en ekki ónákvæm eins og kemur fram í umsögn Sorpu. Sorpa hefur bestu möguleikana á að útfæra þessa tillögu að öllu leyti enda þekkir enginn innviði Sorpu betur en starfsfólkið sjálft sem er best til þess fallið að áttað sig á m.a. umfangi þjónustu þegar mæta á þjónustuþörfum þeirra sem glíma við skerta hreyfigetu eða þurfa aðstoð af einhverjum ástæðum við að tæma bílinn eða flokka í gáma. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur Sorpu með öllu sínu hæfa starfsfólki að setjast niður með þessa tillögu og leggja drög að útfærslu hennar. Hægt er að byrja smátt á meðan umfangið er metið. Borgarfulltrúar geta ekki verið sérfræðingar á öllum sviðum borgaralegrar þjónustu en sjá hins vegar oft hvar skóinn kreppir og eru kjörnir til að huga að hagsmunum allra borgarbúa.Gunnar Dofri Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verkefninu Auðkennislausnir knúnar gervigreind og bálkatækni, Evrópusambandsstyrkur. R21040006
Magnús Yngvi Jósefsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samning við Samtökin ´78, sbr. 15. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. janúar 2021. Jafnframt er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs dags. 23. febrúar 2021. R21010299
Samþykkt að vísa til starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verkefnunum Fjölmenningarþingi og Fjölmenningardegi Reykjavíkurborgar og næstu skrefum. R19020227
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir samtal um framtíð fjölmenningarviðburða borgarinnar og þær hugmyndir sem kynntar hafa verið sem ræddar voru innan fjölmenningarráðs. Í framhaldi verða næstu skref ákveðin í samráði við fjölmenningarráð.
Sabine Leskopf tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fjárhagsáætlun 2022 -2026, um skil á forsendugögnum. R21030087
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér fyrir því að borgarmeirihlutinn/borgarstjórn ákveði að losa um almennt starfsaldursviðmið eldri borgara sem er 70 ár og að það verði ákvörðun hvers og eins hvenær hann óskar að hverfa af atvinnumarkaði þegar þessum aldursskeiði er náð. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveða á um að almennt skuli segja upp störfum þegar ríkisstarfsmaður nær 70 ára aldri. Engin sambærileg ákvæði eru hins vegar í sveitarstjórnarlögum. Kjarasamningar kveða á um að yfirmanni er heimilt að endurráða einstakling sem náð hefur 70 ára aldri með nokkrum skilyrðum. Borgarstjórn er því ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um að losa um 70 ára aldursviðmiði þannig að viðkomandi geti ýmist haldið áfram í sínu starfi hjá sveitarfélaginu óski hann þess eða sótt um annað starf/minna starfshlutfall allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Samhliða væri borgarstjórn í lófa lagt að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna verð hækkað í a.m.k. umtalsvert eða afnumið alfarið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér í þessu mikilvæga mannréttindamáli. R21040034
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð hvetji ríkisstjórnina til að beita sér umsvifalaust fyrir því að tryggja lagaheimildir fyrir nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum á landamærum svo vernda megi samfélagið gegn heimsfaraldrinum án þess að mannréttindi fólks séu brotin. Sóttvarnarlæknir hefur varað við því að án heimilda til að skylda fólk í sóttkví undir eftirliti verði ekki hægt að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið og dreifist. Það er ljóst að breyta þarf sóttvarnarlögum til að koma á slíkum aðgerðum. Við eigum að virða mannréttindi og fylgja settum lögum. Við eigum einnig að tryggja öryggi og heilsu fólks. Við þurfum að koma í veg fyrir frekari bylgjur faraldursins þar til hjarðónæmi er náð. Nú er nauðsynlegt að takmarka frelsi fólks tímabundið svo hægt sé að koma í veg fyrir þá almannahættu sem faraldurinn getur valdið ef önnur smitbylgja fer af stað. Því ber okkur skylda til að tryggja lagaheimildir fyrir tillögum sóttvarnarlæknis sem jafnframt uppfylla kröfur stjórnarskrár um mannréttindi. Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttinda og því er það verkefni ráðsins að láta í ljós afstöðu sína og kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnar. R21040035
Frestað.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Inngangur að fyrirspurnum frá fulltrúa Flokks fólksins sem snúa að mannauðsmálum þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Fjölmargar uppsagnir hafa verið á þjónustu- og nýsköpunarsviðs á starfsfólki undanfarin ár. Fólki með langan starfsaldur, starfsreynslu hefur verið sagt upp einnig í miðju COVID og það þrátt fyrir að borgarmeirihlutinn lýsti yfir að standa skuli vörð um störf starfsfólks á þessum atvinnuleysistímum. Þrátt fyrir uppsagnir á sérfræðingum hefur sviðið verið duglegt að auglýsa eftir fólki í allskyns störf undanfarið. Þess vegna spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins eftirfarandi spurninga: Hafa einhverjir starfsmenn verið ráðnir inn án auglýsingar undanfarin 4 ár og ef svo er þá hversu margir og hversu lengi hefur þá hver og einn starfsmaður sem var ráðinn inn með hætti, verið í vinnu? Hafi einhver verið ráðið inn með þessum hætti vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hvort það fólk sé með tilskylda menntun og reynslu til þess að sinna því starfi sem viðkomandi fékk á þennan hátt. Borgin hefur að minnsta kosti fram til þessa viljað státa sig af fagmennsku þegar kemur að mannauðsmálum og að sá sem hæfastur er til starfsins sé valinn. Enginn vill að geðþóttaákvarðanir ráði eða klíkuskapur þar sem fáir útvaldir fá stöður án þess að um hæfasta einstakling sé að ræða. R21040036
Frestað.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fyrirspurnir fulltrúa Flokks fólksins um Gróðurhúsið: Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvað Gróðurhús þjónustu- og nýsköpunarsviðs hefur kostað frá upphafi - laun, námskeiðshald, kostnaður við leigu á húsnæði, veitingum eða öðru ef um slíkt hefur verið að ræða? Hver er kostnaðurinn vegna húsnæðis, bæklinga, grafískrar hönnunar og kynninga ýmiss konar sem og kostnaður við að setja upp og halda úti sérstakri vefsíðu og / eða upplýsingagátt tileinkaðri þessu Gróðurhúsi? Hver er óbeinn kostnaður borgarinnar vegna ýmisskonar viðtala og kynninga sem starfsfólk Gróðurhússins hefur verið í, á sínum vinnutíma vegna auglýsinga á þessu Gróðurhúsi hjá óskyldum aðilum utan borgarinnar? Hvaða lausnir, vörur eða aðrar áþreifanlegar afurðir fyrir borgarbúa sem hafa ekki verið til áður - hafa komið út úr Gróðurhúsinu og í notkun, frá því að þessi tilraunasmiðja fór í gang? R21040037
Frestað.
- Kl. 15.59 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundi.
Fundi slitið klukkan 16:00
Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
mnl_0804.pdf