Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 38

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2021, fimmtudaginn 25. mars var haldinn 38. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl. 13.02. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Örn Þórðarson, Geir Finnsson, Kolbrún Baldursdóttir og Skúli Helgason. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað Innri endurskoðunar dags, 10. mars 2021, um stöðu verkefnis um greiningu á misferlisáhættu fyrir Reykjavíkurborg. R18020034 

    -    Kl. 13.35 víkur Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Ellen J. Calmon tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarin ár hefur verið í gangi misferlisáhættugreining á sviðum borgarinnar. Í þeirri vinnu hefur komið fram mikilvægi þess að búa til sérstaka misferlisáhættustefnu sem stefnt er að því að gera í framhaldinu. Sérstök uppljóstrunargátt er auk þess í undirbúningi í takt við ný lög um vernd uppljóstrara. Með öllu þessu er Reykjavík að leggja ríka áherslu á að misferli verði ekki liðið, sem og á að auka aðgengi að því að skila upplýsingum um mögulegt misferli. Um leið er gefið loforð um að skoða öll mál og bregðast við á viðeigandi hátt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynnt er minnisblað Innri endurskoðunar um stöðu verkefnis um greiningu á misferlisáhættu fyrir Reykjavíkurborg. Verið er að kalla eftir að sett verði misferlisstefna (anti fraud policy) í tengslum við greiningu sem Innri endurskoðun er að gera á misferlisáhættu hjá borginni í heild. Þetta er nauðsynlegt. Hins vegar er fulltrúi Flokks fólksins ekki nægjanlega öruggur með hvaða viðbragðsferli fer í gang ef grunur vaknar um að æðstu stjórnendur stundi eitthvað misferli eða ábyrgðarleysi í störfum. Hverjir gæta varðanna? Hver hefur eftirlit með eftirlitinu, með yfirstjórninni, með æðsta valdi? Í þeim tilfellum sem valdamesta fólkið, topparnir viðhafa misferli/sviksemi/ábyrgðarleysi t.d. misfara með fjármuni borgarinnar eru þeir auðvitað ekki fyrsta fólkið til að kalla á rannsakendur eða hvetja til könnunnar hvað þá greiða leið eftirlitsaðila nema síður sé. Þeir munu jafnvel líklegast gera allt til að leggja stein í götu þeirra sem spyrja áleitinnar spurninga eða fara að reka nefið ofan í þeirra mál. Þeir munu vilja þagga málið. Fram kemur í kynningu að hægt sé að koma ábendingum til eftirlitsaðila en hvað ef eftirlitsaðilar hlusta ekki heldur eða taka ekki mark á ábendingum? Svarið kom svo sem við þessari spurningu í kynningunni. Bent er m.a. á Umboðsmann Alþingis.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar því að nú sé verið að setja í gang vinnu við sérstaka misferlisáhættustefnu, sem viðbót við þá misferlisáhættugreiningu sem unnin hefur verið hjá borginni. Mikilvægt er að misferlisáhætta sé tekin föstum tökum og farvegir til að draga úr henni séu til staðar. Sömuleiðis er nauðsynlegt að uppljóstrunargátt sé undirbúin, enda er það í takti við ný lög um vernd uppljóstrara. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir þá ríku áherslu sem lögð er á að misferli innan borgarinnar verði hvergi liðið og auðveldað verði fyrir upplýsingar um mögulegt misferli. Mikilvægt er að öll mál og allar ábendingar um mögulegt misferli verði skoðuð og brugðist við þeim með viðeigandi hætti.

    Hallur Símonarson og Jenný Stefanía Jensdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á leiðbeiningabæklingi fyrir starfsfólk sundlauga vegna kvartana um trans fólk. R21030185 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur einsett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að vernd og eflingu mannréttinda. Það er okkar sem samfélags að stuðla að fræðslu og meðvitund um mannréttindi minnihlutahópa enda þekking öflugt vopn gegn fordómum. Hér er verið að valdefla starfsfólk til að stuðla að því að öll upplifi að séu þau velkomin á þjónustustaði Reykjavíkurborgar. Á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og ofbeldisvarnarnefndar í nóvember sl. var samþykkt einróma að fara í vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi. Þar var ákveðið að átakið yrði unnið m.a. með yfirferð verklagsreglna og starfsaðferða með tilliti til þess að efla starfsfólk í því að takast á við krefjandi aðstæður sem upp geta komið.

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf formanna mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs dags. 22. mars 2021, um nauðsyn jafnréttismenntunar og vandaðs námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. R21030239

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja mikla áherslu á að efla og styrkja jafnréttisfræðslu í grunnskólum í samræmi við ákvæði jafnréttislaga eins og fram kom í tillögu á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs á síðastliðnu ári þar sem stigin voru skref í átt að aukinni jafnréttisfræðslu. Formenn þessara ráða hafa nú sent formlegt erindi til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem hvatt er til samstarfs ríkis og sveitarfélaga þar með talið borgarinnar um eflingu jafnréttisfræðslu í skólum og hvatning til rektora Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands að auka vægi fræðslu um kynjafræði og jafnréttismál í menntun kennara m.a. með því að innleiða skylduáfanga um kynja- og jafnréttisfræðslu. Þá er hvatt til þess að Menntamálastofnun sem ber ábyrgð á gerð og miðlun námsefnis í landinu geri átak í að vinna nýtt og vandað námsefni fyrir öll aldursstig í jafnréttis– og kynjafræði og leiðbeiningar fyrir kennara. Reykjavíkurborg er tilbúin í gott samstarf við ráðuneyti og háskólana um markvissar aðgerðir til að auka hlut jafnréttisfræðslu í skólakerfinu enda um afar mikilvægan málaflokk að ræða.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er hið ágætasta bréf. Sjálfsagt er að hvetja mennta- og menningarmálaráðherra til að beita sér fyrir eflingu jafnréttisfræðslu í skólum í takt við ábendingar í samstarfi ráðuneytisins við menntastofnanir ríkisins og sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg býður sína krafta til samstarfs um slíka vinnu. En Reykjavík þarf einnig að huga að sínum eigin innviðum í þessum efnum. Nú liggur það fyrir að engin samræmd jafnréttiskennsla er fyrir skólana í borginni. Einnig er vitað að jafnréttisfræðsla er allt frá því að vera lítil í skólum yfir í að vera vel skilgreind og metnaðarfull. Engin yfirsýn er yfir þessi mál hvorki hjá mannréttinda- né skóla- og frístundaráði. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til fyrir skemmstu að gerð yrði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi í ljósi þess að fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976. Tillögunni var vísað frá. Einnig þarf að skoða samræmingu jafnréttisfræðslunnar og samræma hana til framtíðar til að tryggja að börn sitji við sama borð í þessum efnum. Mjög mikilvægt er að rætt verði við börnin sjálf um þessi mál og foreldra þeirra og þau spurð hvað þeim finnst gagnlegt og hvað mætti bæta og hvað hreinlega vantar í jafnréttisfræðsluna? Sárlega vantar einnig meira og gott námsefni í jafnréttisfræðsluna.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tilkynning Jafnréttisstofu dags. 2. mars 2021, um áhrif nýrrar jafnréttislöggjafar á sveitarfélög. R21030199 

    -    Kl. 14.30 víkur Geir Finnsson og Diljá Ámundadóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í nýrri jafnréttislöggjöf er kveðið á um að áætlanir sveitarfélaga í jafnréttismálum skulu nú taka til markmiða og aðgerða til að koma í veg fyrir mismunun, ekki eingöngu vegna kyns sbr. lög nr. 150/2020, heldur einnig sbr. lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu nr. 86/2018. Áætlunin skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar og skal hún rædd árlega í sveitarstjórn enda tekur ráðið undir gagnsemi og mikilvægi þess. Í kjölfar þessarar breytingar þarf að hefja endurskoðun samþykkta mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs sem og borgarstjórnar með hliðsjón af þessu.

    Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram til afgreiðslu umsókn um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R21020040
    Samþykkt að veita verkefninu Skrölt III styrk að upphæð kr. 500.000,-

  6. Fram fer umræða um valnefnd vegna mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar og hvatningaverðlauna mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2021. R21030018 
    Samþykkt að fela starfsmanni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að ganga frá tilnefningum í valnefnd.

  7. Fram fer kynning á Skjólborgarverkefni Reykjavíkurborgar ICORN. R21030172 

    -    Kl. 15.15 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar velferðarsviðs ódags., við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um biðlista í námskeið fyrir börn og foreldra á vegum Keðjunnar/Þjónustumiðstöðvar, sbr. 24. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 13. febrúar 2020. R20020166

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um biðlistatölur eftir námskeiðum fyrir börn á vegum Reykjavíkurborgar. Svar kemur frá Velferðarsviði. Á fjórða hundrað barna bíða eftir að komast á helstu námskeiðin. Eftir námskeiðinu Klókir krakkar sem hefur gefið góða raun bíða 142 börn og 38 börn eftir Klókir litlir krakkar. Hér er um mikilvæg námskeið að ræða og sem eru afar hjálpleg börnum og foreldrum þeirra. Það er þess vegna vont að sjá að ekki skuli vera hægt að manna þessi námskeið þannig að börn þurfi ekki að vera á biðlista eftir þeim mánuðum saman. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur sviðsstjóra og formann velferðarráðs að sækja meira fjármagn til námskeiðahalds sem og til að fjölga fagfólki skóla en á þeim biðlista eru 956 börn? Ekki er skortur á fjármagni en spurning er hvernig því er deilt út til sviða og verkefna. Miklu fjármagni er deilt út til sumra sviða. Á fjárhagsáætlun 2021 til 2025 fara t.d. 10 milljarðar til þjónustu- og nýsköpunarsviðs til að greiða ráðgjafafyrirtækjum fyrir ýmis stafræn/hugmynda og hönnunarverkefni. Þarna væri kannski hægt að ná í milljarð eða tvo áður en þeir fara til ráðgjafafyrirtækjanna. Nauðsynleg þjónusta við börn hlýtur að vera metin hærra en hönnun og tilraunir á sérhæfðum stafrænum hugmyndaverkefnum.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um Mælaborð þjónustuvers, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. febrúar 2021. R21020222 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Einhver firring er í gangi og skortur á gagnrýnni hugsun er áberandi þegar kemur að þessum stafrænu, hugmynda- hönnunar- nýsköpunarmálum. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki á móti stafrænni umbreytingu eða framförum en líkar ekki að búið er að opna peningakrana til snjalllausna/sérhæfðra stafrænna verkefna sem hafa ekki skýr markmið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins á erfitt með að festa auga á meintan árangur ef honum fylgir um leið stóraukinn kostnaður, eins og virðist vera varðandi mikla útvistun sviðsins á ýmsum þjónustuþáttum. Búið er að koma verkum í hendur einkaaðila sem bera af þessu mikinn hagnað. Innlend og erlend fyrirtæki eru nú þeir aðilar sem hafa allt með skipulagsmál og rekstrargrundvöll þjónustu- og nýsköpunarsviðs að gera.
     
    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það átak í stafrænni umbreytingu sem nú stendur yfir á ekki að koma kjörnum fulltrúum á óvart enda var það samþykkt í fjárfestingaráætlun borgarinnar í desember sl. Verið er að hraða stafrænni umbreytingu í þjónustu borgarinnar með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Liggur fyrir að þetta átak mun kalla á um 60-80 ársverk sem mun skiptast í aðkeypta þjónustu og tímabundin stöðugildi. Hér er um að ræða fjárfestingu sem mun spara mikið til lengri tíma eins og verkefni sem þegar hafa verið unnin hafa sýnt. Þjónustuþörfin er stanslaust að aukast og til að fletja út kúrvuna á aukinni þörf á fjölgun starfa er hægt að mæta aðstæðunum með nútímavæðingu þjónustu og stafrænni umbreytingu um leið og þetta leiðir til betri þjónustu sem er aðgengilegri, hagkvæmari og umhverfisvænni. Enginn vafi er á því að þessi stafræna umbreyting mun gagnast borgarbúum beint og leiða til betri þjónustu við borgarbúa með einföldun ferla t.d. varðandi umsóknir og fleira.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins sér ofsjónum yfir öllum þessum milljörðum sem fara til þessara verkefna nú þegar ástandið er slæmt vegna Covid og margir bíða þjónustu. Sjálfsagt er að huga að nauðsynlegum stafrænum umbreytingum til að bæta upplýsingaþjónustuna og sjálfsagt er að útvista völdum verkefnum. En á þessu sviði hefur mörgum verið sagt upp störfum að undanförnu á sama tíma og sagt var að standa ætti vörð um störf. Það skiptir miklu máli að gæta þess að halda í reynslu og þekkingu innan borgarkerfisins. Svo virðist þegar á allt er litið að peningakrani til verkefna sem eru mis vel/illa skilgreind hafi opnast. Borgarfulltrúi Flokks fólksins á erfitt með að festa auga á árangur alla vega ef honum fylgir um leið stóraukinn kostnaður, eins og virðist vera varðandi óhemju mikla útvistun sviðsins á ýmsum þjónustuþáttum sem búið er að koma út úr húsi í hendur einkaaðila sem væntanlega bera af þessu mikinn hagnað. Borgarfulltrúinn minnir á reglur borgarinnar um framkvæmd fjárhagsáætlunar þar sem kveðið er á um að sviðsstjórar og stjórnendur eiga að huga að skilvirkni og lækka kostnað.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu þjónustustefnu, sbr. 8. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. febrúar 2021. R21020221 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari sviðsstjóra segir að um sé að ræða margs konar verkefni en ekki sé um neina óskilgreinda hugmyndavinnu að ræða og slík vinna hafi aldrei verið framkvæmd. Spurt var sérstaklega um þetta svokallaða Gróðurhús, kostnað og árangur. Í því sambandi vill fulltrúinn leggja fram beina tilvitnun af síðunni medium.com sem virðist lýsa því sem í gangi er. Þarna er verið er að kynna Gróðurhúsið sem er verkefnastofa skrifstofu þjónustuhönnunar sem er undir þjónustu- og nýsköpunarsviði. Á einum stað segir: „Þegar þú mætir í Gróðurhúsið ertu í raun að samþykkja að henda þér út í einhvern prósess, eitthvað ferli. Það mun svo leiða þig eitthvert. Það mætti segja að Gróðurhúsið einblíni 90% á ferlið, og svona 10% á útkomuna. Eitt stærsta verkefnið er að samstilla teymið, hjálpa fólki að vinna saman og taka ákvarðanir. Útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli.“ Þessa skilgreiningu Gróðurhússins, telur borgarfulltrúi Flokks fólksins að sé lýsandi dæmi um einmitt óskilgreinda hugmyndavinnu. Þarna virðist vera á ferðinni einhverskonar hugmyndasmiðja eða tilraunastarfsemi sem alls óvíst er hvort skili einhverjum áþreifanlegum árangri – eins og borgarfulltrúinn hefur áður bent á.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. mars 2021. R21030125

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Engar tölur eru birtar í svörum sviðsstjórans um ferðakostnað en spurt var m.a. um námsferðir/ráðstefnur stjórnenda og starfsmanna sl. 4 ár. Fulltrúa Flokks fólksins er sagt í svari að skoða gömul gögn og tína til tölur sjálfur. Fulltrúi Flokks fólksins á rétt á að fá upplýsingar sem þessar en ekki að vera sagt af sviðsstjóra að leggjast í rannsóknavinnu sem tekið gæti marga tíma. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sýnt fjármálastjóra þetta svar og Innri endurskoðanda og freistar þess að fá þessar upplýsingar frá fjármálasviðinu fyrst sviðsstjóri vill ekki svara með meiri nákvæmni. Ekki dugir að henda svörum við fyrirspurnir annarra flokka í hausinn á fulltrúa Flokks fólksins og segja „finndu þetta sjálf“. Fulltrúi Flokks fólksins hefur, í kjölfar þess að hópi starfsmanna hefur verið sagt upp, talið sig knúinn til að skoða hvernig kaupin á eyrinni ganga fyrir sig á þessu sviði. Fyrir það hefur hann fengið bágt fyrir, sögð illa að sér í tæknilausnum og ásökuð um að ráðast á starfsfólk og hvað eina. Þegar viðbrögð eru komin á þetta stig hjá ráðamönnum má greina augljósar varnir. Á þessum málum er annar vinkill og hann er sá að það vantar meira fjármagn til skóla-, frístunda- og velferðarsviðs til að hægt sé að þjónusta börn. Minnt er á að biðlisti barna eftir sálfræðihjálp telur um tæp eitt þúsund börn.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um snjalllausnir, sbr. 13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. mars 2021. R21030126

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um hversu mörg ár í viðbót þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið á ráðgjafarþjónustu og hugmyndavinnu að halda áður en sambærilegar snjalllausnir verður komin í notkun á vef borgarinnar sem væri þá afurð í líkingu við t.d. snjallmennið Vinný hjá Vinnumálastofnun? Við þessu er ekkert svar frá sviðinu og vill þá fulltrúi Flokks fólksins nota tækifærið og lýsa því hvernig þessi mál líta út fyrir honum. Í kjölfar óeðlilegra margra uppsagna og útvistunar verkefna fór fulltrúi Flokks fólksins að reyna að afla frekari upplýsinga. Gríðarlegu fjármagni hefur verið streymt til sviðsins undanfarin ár og munu 10 milljörðum vera veitt til sviðsins næstu árin, nú strax 2021 þrír milljarðar. Ekki er alltaf skýrt í bókhaldi hvernig fjármagn hefur dreifst til einkafyrirtækja sem sviðið hefur fengið ráðgjöf hjá. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sent inn fyrirspurnir og reynt að vekja áhuga innri endurskoðunar á málinu sér í lagi hvort verið sé að fara vel með fjármuni borgarbúa. Minnt er á að í reglum borgarinnar um framkvæmd fjárhagsáætlunar á sviðsstjóri og stjórnendur að vinna að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um Rafræna Reykjavík, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. mars 2021. R21030127

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort borgin nýti þá aðkeyptu ráðgjöf og afrakstur hugmyndavinnustofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs varðandi þróun á þjónustugátt, Rafræn Reykjavík? Svar sviðsstjóra er já. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en vill í framhaldi spyrja hvort skrifstofa Stafrænnar Reykjavíkur þurfi á svona miklum og langvarandi ráðgjafarkaupum og hugmyndavinnustofum að halda, til þess að fram komi nýjungar i formi snjalllausna fyrir borgarbúa? Ef svo er, þá er með öllu óljóst með hvaða hætti þessi miklu kaup á ráðgjöf varðandi uppsetningu og viðhaldi veflausna nýtast. Ef á allt er litið mætti næstum halda að það væri hægt að sleppa því að vera með yfirmenn á sviðinu og láta ráðgjafafyrirtækin sjá um skipulag og rekstur. Ljóst er að hvergi sér fyrir endann á þessum hugmyndakaupum, alla vega ef þau eru með þeim hætti sem lýst er á medium.com þar sem fjallað er um Gróðurhúsið: „Þegar þú mætir í Gróðurhúsið ertu í raun að samþykkja að henda þér út í einhvern prósess, eitthvað ferli. Það mun svo leiða þig eitthvert. Það mætti segja að Gróðurhúsið einblíni 90% á ferlið, og svona 10% á útkomuna. Eitt stærsta verkefnið er að samstilla teymið, hjálpa fólki að vinna saman og taka ákvarðanir. Útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli“.

    -    Kl. 16.03 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum. 
    -    Kl. 16.12 víkur Dilja Ámundadóttir af fundinum.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:36

Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Skúli Helgason Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_2503.pdf