Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 33

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2021, fimmtudaginn 14. janúar var haldinn 33. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl.13.02. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen J. Calmon og Diljá Ámundadóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Daníel Örn Arnarsson, Örn Þórðarson og Skúli Helgason. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar J. Sandholt sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram fundadagatal mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs vor 2021. R20010319

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á verkefni um íbúasamráð og samsköpun. R21010150

    -    Kl. 13.23 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

    Sóley Björk Stefánsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á verkefninu Hverfið mitt 2021. R20050238

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lýðræðisverkefnið Hverfið mitt hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og hafa alls 737 hugmyndir komist til framkvæmda. Nú stendur yfir hugmyndasöfnun og eru þegar komnar inn 933 hugmyndir þegar enn lifir vika af umsóknarfresti. Breytt skipulag og tímalína gefur aukið svigrúm fyrir samtal við hugmyndasmiði og íbúa sem er mikilvæg breyting. Verkefnið er komið til að vera og á sannarlega framtíðina fyrir sér.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta verkefni er jákvætt en ferlið er býsna flókið, er á mörgum stigum og felur í sér störf fjölda sérfræðinga. Tímaramminn enn of langur. Gott er að vita að ekki er lengur neinn lágmarkskostnaður til að hugmynd komist í kosningu. Áður þurfti verkefni að kosta a.m.k. 1 milljón til þess að fara í kosningu. Viðhaldsverkefni eru ekki lengur „inni“ enn finna þarf skotheldan farveg fyrir þau verkefni. Svo eru allar hugmyndir sem eru ekki tækar. Þær geta  verið mjög áhugaverðar og skemmtilegt að skoða, líka grín hugmyndirnar. Sumir vita ekki að hægt er að sjá allar hugmyndir sem eru ekki tækar á vef borgarinnar. Það svæði er kannski ekki nógu sýnilegt?  Þeir sem eiga ekki tölvur þurfa að fá upplýsingar um að hægt er að senda inn hugmynd með því að hringja. 

    Eiríkur Búi Halldórsson og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttindastjóra dags. 8. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að stofnaður verði samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar verði leiðtogum skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga boðin þátttaka í samráðsvettvangi innan borgarinnar sem skapa á farveg fyrir samskipti milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og fólks með mismunandi viðhorf. Þar gæfist tækifæri til að auka gagnkvæma virðingu og skilning meðal ólíkra hópa, ræða þær áskoranir innan samfélagsins sem hóparnir standa frammi fyrir og eftir atvikum vinna tillögur varðandi hagsmuni þeirra sem vísað yrði til borgaryfirvalda. Einnig kemur til greina að fulltrúa Hugvísindasviðs Háskóla Íslands verði boðið að koma að skipulagi verkefnisins. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa mun hafa umsjón með samráðsvettvangnum. R21010110 

    Samþykkt.
    Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg leggur áherslu á trúfrelsi allra og að öll þjónusta borgarinnar einkennist af jákvæðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu, óháð trúar- eða lífsskoðunum fólks. Við lifum á tímum þar sem umburðarlyndi og samtal fólks með ólíkar trúar- og lífsskoðanir er sérstaklega brýnt. Það er forsenda friðsamlegra og lýðræðislegra samskipta að fólk tali saman og hafi tækifæri til að setja sig í spor hvers annars. Er því fagnaðarefni að samráði ólíkra trúar- og lífsskoðunarfélaga sé tryggður sess með reglulegum samráðsvettvangi.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttindaskrifstofa leggur til að stofnaður verði samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki vera verkefni borgarkerfisins. Leiðtogar trú- og lífsskoðunarfélaga geta hist að vild eins og allir aðrir. Ekki er séð af hverju Reykjavíkurborg ætti að hafa milligöngu um að skapa farveg fyrir trúfélög til að hittast frekar en ýmsa aðra?Hvar á að draga mörkin? Þótt borgin sem slík sé ekki í því hlutverki að skapa einhvern formlegan samráðsvettvang fyrir trú- og lífsskoðunarfélög þá er ekki þar með sagt að borgin eigi ekki að vera í góðu samtali við alla þá hópa sem vilja vera í samtali við Reykjavíkurborg.

    Achola Otieno og Guðrún Elsa Tryggvadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram skýrsla húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1, 101 Reykjavík – 25. júní 2020. R20060261

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar um hinn voveiflega bruna á Bræðraborgarstíg er yfirgripsmikil og vönduð. Hún bendir til að íkveikja hafi átti sér stað á tveimur stöðum í húsinu með stuttu millibili og breiddist eldurinn hratt út enda var einangrun hússins brennanleg og klæðningar úr timbri, auk þess var brunahólfun ekki til staðar. Sjúkrabíll var kominn á vettvang um 90 sekúndum eftir að hringt var í Neyðarlínuna og fyrsti dælubíll 6 mínútum eftir símtal. Ljóst má vera að fyrirkomulag hússins var ekki í samræmi við teikningar og brunavarnir virðast hafi verið alls ófullnægjandi. Húseigandi hefði átt að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins sem hefði kallað á auknar brunavarnir og markvisst eldvarnareftirlit. Ljóst er að gera þarf breytingar á lögum og reglugerðum varðandi brunavarnir þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Það er ekki síst brýnt í þeim tilvikum sem um leiguhúsnæði er að ræða þar sem eigandi er búsettur annars staðar. Einnig hlýtur þetta hörmulega mál og mannslát að vekja spurningar um veika stöðu fólks sem flytur til Íslands til að vinna og er háð vinnuveitenda um dvalarleyfi og jafnvel einnig sem leigusala. Afleiðingar brunans eru hörmulegar en þrír einstaklingar létust og því um mannskæðasta bruna í sögu Reykjavíkur að ræða. Tekið er undir ákall borgarráðs um að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ráðuneyti húsnæðismála og Alþingi dragi ályktanir af málinu og ráðist í nauðsynlegar umbætur sem og hvatningu borgarráðs um að sú vinna sem farin er af stað leiði til farsællar niðurstöðu sem allra fyrst.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sósíalista tekur undir bókun meirihlutans en vill líka árétta ábyrgð byggingafulltrúa og að betur sé staðið að lokaúttektum framkvæmda.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að skoða veika stöðu fólks sem flytur til Íslands til að vinna og er háð vinnuveitenda um dvalarleyfi og jafnvel einnig sem leigusala og finna út með hvaða hætti bregðast megi við til að bæta stöðu þessa hóps. Tekið er undir að draga þurfi ályktanir af rannsóknarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og viðeigandi stofnunum falið að ráðast í nauðsynlegar umbætur á laga- og reglugerðarumhverfi sem lýtur að málum sem tengjast óboðlegum húsnæðisaðstæðum fólks í borginni.
     
    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur sem nauðsynlegt er að draga lærdóm af og gera nauðsynlegar breytingar í stjórnkerfinu til að hægt sé að fyrirbyggja að svona gerist aftur og til að stjórnvöld og embættismenn geta gripið inn sé grunur um að öryggi sé ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um  aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til áður að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að fá ríkari heimildir þar með talið til að gera átak gegn hættulegu húsnæði með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið verði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist þá ekki eiga frumkvæði að því að fá auknar lagaheimildir? Ekki hefur fengist nákvæm svör við spurningunni.

    Guðrún Elsa Tryggvadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs: 

    Mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð leggur til að á árinu 2021 fari fram jafnréttisúttekt á Íþróttafélagi Reykjavíkur, Knattspyrnufélaginu Fram og Knattspyrnufélaginu Víkingi. Jafnréttisúttekt var gerð á eftirtöldum hverfisíþróttafélögum á árinu 2016, Ungmennafélaginu Fjölni, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Á árinu 2020 fór síðan fram samskonar úttekt á Glímufélaginu Ármann, Íþróttafélaginu Fylki og Knattspyrnufélaginu Val. Ráðið telur mikilvægt að ljúka jafnréttisúttekt á öllum hverfisíþróttafélögum í Reykjavík og meðal þess sem kannað verði er hvort þau séu með virkar jafnréttisáætlanir og siðareglur, kynjahlutfall iðkenda og hvernig fjármagn félagsins skiptist á milli kynjanna. Jafnframt verði skoðuð þátttaka þeirra hópa sem mannréttindastefnan nær til í starfi félaganna. Skoðað verði hversu aðgengilegar jafnréttisáætlanirnar séu og hvernig eða hvort þær eru kynntar fyrir starfsfólki, iðkendum og foreldrum iðkenda í yngri aldurshópum. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu er falið að vinna úttektina. R20020071 

    Samþykkt.

    Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan sem hér er lögð fram er liður í ferli þar sem jafnrétti og áætlanir um mannréttindamál eru tekin út í hverfisíþróttafélögum borgarinnar. Öll íþróttafélög Í Reykjavík eiga að vera með jafnréttisáætlanir og siðareglur í stefnu sinni en mikilvægt þykir að taka út hvort þær séu virkar, aðgengi að þeim og hversu vel starfsfólk, iðkendur og foreldrar eru upplýstir um málaflokkinn.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um akstur P – merktra ökutækja, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. desember 2020. R20120107

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs: 

    Mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráð harmar að fatlað fólk hafi orðið fyrir aðkasti gangandi vegfaranda á göngugötum miðborgarinnar er það ekur um á P merktum ökutækjum, sem það hefur fullan rétt til. Ekki má ætla að háttprúðir göngugarpar sem um þessar nýlokuðu göngugötur fara séu það ófyrirleitnir að þeir líði ekki fötluðu fólki að fara um þær. Heldur eru allar líkur á að um upplýsingaskort sé að ræða. Vel útfærð skilti segja til um bann við almennum akstri um göngugötur, en ekkert sést um þá undanþágu sem fatlað fólk á svo sannanlega að njóta. Það mætti ætla að gerð skiltis þar sem vegfarendum er gert ljóst að umferð P merktra ökutækja um göngugöturnar sé heimil sé jafn einföld og kostnaðarlítil og gerð bannskiltisins. Því leggur ráðið til að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar kanni hvers vegna skilti sem bæði upplýsi og heimili akstur P merktra ökutækja um göngugötur miðborgarinnar hafi ekki verið sett upp um leið og bannskiltin. Óskað er eftir flýtimeðferð þar sem greinilegt er að verið er að brjóta á mannréttindum fatlaðra.

    Breytingartillagan er samþykkt samhljóða. 
    Tillagan samþykkt svo breytt. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillagan fái að eiga líf með ákveðinni breytingu enda er það alvarlegt mál ef fólk verður fyrir aðkasti þegar það er að gera hluti sem það hefur heimild til í lögum. Fullvíst má telja að ástæðan sé sú að fólk hreinlega veit ekki um þessa heimild í lögunum. Nýlega sendi Öryrkjabandalag Íslands bréf til aðgengisnefndarinnar og fór þess á leita að bætt verði úr merkingum við göngugötur í miðbænum þannig að skýrt sé að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi rétt til að aka um umræddar götur. Ganga þarf strax í að merkja þetta með fullnægjandi hætti.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram greinargerðir vegna styrkja mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R21010126

    a) Jafnréttisstofa 
    b) Ás styrktarfélag
    c) European Grandmother Council
    d) Samfés
    e) Fegurð í mannlegri sambúð

  9. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 30. nóvember 2020 og svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 4. desember 2020,  við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við Kjarvalsstofu, sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október 2020. R20100432

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 17. desember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þátttöku borgarbúa á fundum íbúaráða, sem vísað var til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. R19100342

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða? Í svari kemur fram að fundir íbúaráða hafa verið í fjarfundarformi og þeim streymt á Facebook-síðu og að jafnaði hafa um 20-50 verið inni á streymi funda íbúaráða hverju sinni. Ef þessar tölur eru bornar saman við fjölda íbúa sem mættu þegar íbúaráðin funduðu með hefðbundnum hætti, þá fylgjast töluvert fleiri með streymi. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins  ánægjulegt að vita. Ljóst er að fb og netið er að virka vel í þessu sambandi. Vonandi eru íbúaráðin komin til að vera enda hafa þau mikilvægu hlutverki að gegna.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við auglýsingar og kynningarmál vegna verkefnisins (Betra hverfi/Hverfið mitt), sundurliðað eftir því fyrir hvað var greitt og hverjum var greitt. Sömuleiðis er spurt hvort umræddur auglýsinga- og kynningarkostnaður sé hluti af fjárveitingu til verkefnisins og þá hversu stór hluti.

    Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Fundi slitið klukkan 15:49

Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_1401.pdf