Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 23

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2020, fimmtudaginn 27. ágúst, var haldinn 23. fundur Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst klukkan 13:05. Viðstödd voru Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Skúli Helgason, Diljá Ámundadóttir, Þór Elís Pálsson, Örn Þórðarson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Anna Kristinsdóttir, Óskar J. Sandholt, Karen María Jónsdóttir og Elísabet Pétursdóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf til fagráða frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 13. ágúst 2020, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitastjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélögum – notkun fjarfundarbúnaðar. R18060129

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dags. 7. ágúst 2020, um úrskurð vegna frestun réttaráhrifa hinna kærðu fyrirmæla Vinnueftirlits. R18070064 

    -    Kl. 13.45 tekur Daníel Örn Arnarsson sæti á fundinum. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru vonbrigði að félagsmálaráðuneytið sé að gera Reykjavíkurborg tilneydda til að hengja aftur upp kynjamerkingar á salernum í stjórnsýsluhúsnæði og gera borgina þar með afturreka í viðleitni sinni til að tryggja aukna og sjálfsagða mannréttindavernd fyrir kynsegin fólk. Árið 2019 tóku gildi lög um kynrænt sjálfræði og í stað þess að þau hafi tilætluð samfélagsleg áhrif er 25 ára gömlum reglum frá 1995 gefið meira vægi. Leitt er að heyra að engin vinna við endurskoðun þessara reglna sé í bígerð hjá félagsmálaráðuneytinu ólíkt vinnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem lagt er upp með að meginreglan verði ókyngreind almenningssalerni. Þá er rétt að benda á að þróunin hefur verið sú að aðgengileg salerni fyrir fatlað fólk bæði á vegum ríkisstofnana og sveitarfélaga séu ókyngreind og því skýtur það skökku við að aðrar reglur skuli gilda um önnur salerni.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar fyrir liggur úrskurður félagsmálaráðuneytis um frestun réttaráhrifa á fyrirmælum Vinnueftirlitsins um kyngreindar merkingar á salernum í Borgartúni 12-14, er hvatt til þess að tafarlaust verði farið að þeim lögum sem um þær gilda. Um er að ræða afar einfalda framkvæmd. Áréttað er að fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir þau sjónarmið að hugað sé að jafnrétti starfsfólks borgarinnar og sú meginstefna höfð að leiðarljósi í öllum málum er tengjast starfsumhverfi borgarstarfsmanna. Standi vilji borgarinnar til að breyta lögum og reglum sem um þau mál gilda, er rétt að beina slíku til löggjafavaldsins, í stað þess að standa í málaþrasi við opinbera eftirlitsaðila sem eru einfaldlega að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur sem um þá gilda og þeim ber að hafa eftirlit með að sé framfylgt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt úrskurði félagsmálaráðuneytisins nú þá er Reykjavíkurborg ekki leyfilegt að öll salerni í stjórnsýslu byggingum borgarinnar verði ómerkt kynjum. Fulltrúi Flokk fólksins var búinn að benda á að ástæðulaust væri að leita til ráðuneytisins þar sem reglugerð gildir sbr. 22. gr. reglna nr. 581/1995, en Vinnueftirlitið starfar samkvæmt henni. Nú er ljóst að ef meirihlutinn vill fá sínu áformum framgengt þarf reglugerðarbreytingu og jafnvel lagabreytingar, en það er ekki á færi borgaryfirvalda að stunda slíkt, því verður meirihlutinn að hlýta þessum úrskurði. Til áréttingar endurtekur fulltrúi Flokk fólksins hluta úr sameiginlegri bókun með Sjálfstæðisflokknum: Áframhaldandi barátta Mannréttindaráðs fyrir merkjalausum salernum er óþörf. Þegar hefur Vinnueftirlitið gefið það út að svo lengi sem lágmarksfjölda aðgreindra salerna fyrir hvort kyn er náð er engin skylda lögð á vinnuveitanda til að merkja önnur salerni. Eins og Vinnueftirlitið greindi frá þá er heimilt að hafa 10 ókyngreind salerni á skrifstofu við Höfðatorg. Hér er því komin lausn á álitaefninu og frekari kærur til ráðuneytisins algjörlega óþarfar. Það sætir furðu að meirihlutinn sættir sig ekki við þá niðurstöðu sem þegar var komin frá Vinnueftirlitinu sem í fljótu bragði ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn aðila hvort sem einstaklingurinn er viss um að vera karl, kona eða á einhverju öðru rófi. 

    Guðrún Elsa Tryggvadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram breytingar til samþykktar á reglum vegna úthlutana úr hverfissjóð, ásamt minnisblaði mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 17. ágúst 2020. R19010109 

    Frestað. 

    Guðrún Elsa Tryggvadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  4. Fram fer kynning á verkefni þjónustu-, og nýsköpunarsviðs Gróðurhúsið 2. R20060187 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð þakkar fyrir góða kynningu á vinnu í Gróðurhúsinu. Fyrsta ræktun Gróðurhússins fór af stað haustið 2019 og nú er annarri ræktun einnig lokið. Gróðurhúsið er metnaðarfullt nýsköpunarverkefni þar sem haldið er utan um þróun hugmynda og þjónustu innan starfsemi Reykjavíkurborgar, býður það þannig upp á frjóa mold fyrir vöxt nærandi gróðurs. Það er okkar mat að það sé mikið heillaskref fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar að bjóða upp á slíkan vettvang. Reykjavíkurborg stígur þar skref til framtíðar með ræktun góðra hugmynda og þróun vinnuferla. Við teljum Gróðurhúsið hafa unnið mikilvægt frumkvöðlastarf á erfiðum tímum og fögnum því hversu lausnarmiðað starfsfólkið hefur verið í starfinu.

    Andri Geirsson tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á verkefninu úttekt á þjónustu á Kjalarnesi - framkvæmd og niðurstöður verkefnis. R18050222 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í metnaðarfullri úttekt á þjónustu við Kjalnesinga að íbúum finnst gott að búa á Kjalarnesi og það hefur marga kosti að búa í sveit í borg. Hópurinn sér mikið af tækifærum til að gera betur fyrir íbúa en ekki síður til að efla svæðið sem áfangastað fyrir aðra íbúa borgarinnar og ferðamenn. Í skýrslu starfshópsins eru kynntar 33 umbótatillögur sem gefa heildstæða mynd af þjónustu og þróun mála á Kjalarnesi, hvort heldur það er þjónusta á vegum Reykjavíkurborgar eða annarra aðila s.s. Vegagerðarinnar. Meirihluti mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fagnar þessari vinnu og þakkar öllum sem þátt tóku fyrir vel unnið starf af heilindum og metnaði.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar ágæta kynningu á úttekt á þjónustu Reykjavíkurborgar á Kjalarnesi. Athygli vekur að í löngum lista yfir umbótatillögur sem vinnuhópur leggur fram fer ekki mikið fyrir lagningu Sundabrautar, sér í lagi þar sem sú framkvæmd var fyrirferðamikil í umræðunni þegar sameining sveitarfélaganna var undirbúin og hefur verið oft á tíðum síðan þá. Ástæða er til að vekja athygli hverfisráðs Kjalarness á þessu ósamræmi þegar umbótatillögurnar verði lagðar fyrir íbúðaráðið til umfjöllunar og úrvinnslu í samstarfi við fagsvið borgarinnar, b hluta fyrirtæki í eigu borgarinnar og aðra hagsmunaðila. Í þessu sambandi er rétt að benda á að Reykjavík fer með skipulagsvald varðandi lagningu Sundabrautar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokk fólksins þakkar þessa kærkomnu skýrslu varðandi Kjalarnesið sem er vel unnin og ítarlega að öllu leyti nema hvað varðar samgöngur við þessa jaðarbyggð Reykjavíkur. Þar er bæði ábótavant hvað varðar samgönguæðar til og frá svæðinu, jafnframt hjóla og göngustíga. Það er rétt aðeins minnst á Sundabraut sem hefur verið í umræðunni í áratugi og ekkert gerist. Það var einmitt hún m.a. sem var forsenda þess að Kjalarnesbúar ákváðu að sameinast Reykjavík. Hvenær á að standa við þann lið í því samkomulagi? Sama má segja um hjóla og göngustíga sem meirihlutinn hefur staðið myndarlega að í borgarlandinu nema á Kjalarnesi. Greinilegt er hvað varðar samgöngumáli, á og til svæðisins þá er um stóra brotalöm að ræða. Flokkur fólksins bendir á að ríkisstjórnin hefur þegar eyrnamerkt fé til framkvæmda við Sundabraut, en meirihlutinn þegir þunnu hljóði. Því er hvatt til að meirihlutinn hlusti nú vel á óskir Kjalnesinga og finni leiðir til að tengja það betur við höfuðborgina t.d.með byggingu Sundabrautar.

    Elísabet Ingadóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á verkefninu Stafræn umbreyting - kynning á teymi og fyrsta verkefni.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með því að búa til innanhústeymi í kringum stafræna umbreytingu frekar en að úthýsa vinnunni þá byggjum við upp þekkingu, tryggjum gæði og notendamiðaða hönnun og vinnum hraðar að umbreytingu. Þetta eykur þar að auki skilvirkni og hagræði. Mælst er til þess að teymið verði í góðum samskiptum við samráðsnefndirnar um þróun stafrænna lausna.

    Edda Jónsdóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um landsfjarfund um jafnréttismál Sveitafélaga sem að standa Jafnréttisstofa og Akureyrarbær, sem fram fer 15. september 2020. R20060223

  8. Lögð fram til kynningar samþykkt tillaga borgarstjóra að fjárhagsramma 2021, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020. R20010203

    Fylgigögn

  9. Fram fer umræða um vinnufund mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2020 og starfsáætlun ráðsins 2021. R20080137

  10. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir um skyndistyrki til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R20030062

    Öllum styrkumsóknum er hafnað. 

     

    -    Kl. 15.00 víkur Örn Þórðarson af fundinum.

  11. Lögð fram greinagerð Vietice Community vegna styrkja mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs. R2005022

  12. Fram fer kynning á 6 mánaðauppgjöri þjónustu- og nýsköpunarsviðs – Trúnaðarmál. R20080124 

    Trúnaður ríkir um þennan lið þar kynning hefur farið fram í borgarráði. 

        

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða kynningu og skelegga fjármálastjórn á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Starfsemin hefur aukist mikið í kjölfar COVID-19 vegna fjarfunda og aukinna þrifa og því eru bestu þakkir veittar fyrir sveigjanleika og góð viðbrögð. Mælst er til þess að innkaupa- og framkvæmdaráð meti hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að leggja þurfi fram innkaup undir 5 mkr á 12 mánaða tímabili eins og kveðið er á um í innkaupareglum. Það er tímafrekt og óþarfi fyrir skilvirkt aðhald. Lagt er til að notast sé við sömu viðmið og í gagnaskilum sviðsins til innkaupa- og framkvæmdaráðs.

    Sigurður Páll Óskarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  13. Fram fer kynning stöðu á vinnu við jafnréttismat á samþykktum tillögum um viðspyrnu vegna Covid - 19. R20030221 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja 

    fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að beina fjármagni þangað sem raunverulega er brýn þörf, ekki bara í þau verkefni sem snerta sem flesta borgarbúa heldur þarf að huga sérstaklega að jaðarsettum hópum. Atvinnuástandið kemur til dæmis verst niður á fólki af erlendum uppruna og þarf að bregðast við því í auknum mæli. Hvatt er til þess að lögð verði áhersla á að tillögur verði jafnréttismetnar fyrir samþykkt.

    -    Kl. 16.04 víkur Diljá Ámundadóttir af fundinum. 

    Freyja Barkardóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:05

Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_2708.pdf