Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2020, fimmtudaginn 11. júní var haldinn 20. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl.13.00. Fundinn sátu Diljá Ámundadóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Þór Elís Pálsson, Örn Þórðarson, Daníel Örn Arnarsson og Skúli Helgason. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar J. Sandholt.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. júní 2020, þar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar þann 2. júní s.l., að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Dóru Magnúsdóttur. R18060083
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf til fagráða frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. júní 2020, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um framlengingu heimildir til frávika frá skilyrðum sveitastjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélögum – notkun fjarfundarbúnaðar. R18060129
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á væntanlegum fundi Borgarvaktar - Sameiginlegur fundur velferðarsvið, skóla- og frístundaráðs og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, með þátttöku ungmenna-, öldunga- og fjölmenningarráða, ásamt aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks og hagsmunasamtökum þann 15. júní 2020.
- Kl. 13.12 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
-
Fram fer umræða um Reykjavíkurborg sem veitanda þjónustu - fordóma og mannréttindi.
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R20060124:
Lagt er til að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í samráði við öll svið borgarinnar að vinna tillögur að því hvernig er hægt að koma í veg fyrir upplifun af fordómum og hvers kyns ofbeldi á þjónustustofnunum eða starfsstöðvum borgarinnar.
Samþykkt.Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Við viljum búa í samfélagi þar sem við líðum ekki fordóma, einelti og áreitni. Þess vegna felum við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í samráði við öll svið borgarinnar að vinna tillögur um hvernig við getum komið í veg fyrir upplifun af fordómum og hverskyns ofbeldi á þjónustustofnunum eða starfsstöðvum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á þriggja mánaða uppgjöri þjónustu- og nýsköpunarsviðs – Trúnaðarmál. R20060046
Gögn undir þessum lið eru trúnaðarmerkt fram yfir birtingu fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2020.
Sigurður Páll Óskarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á PaCE. Populistm and Civic Engagement – kynning á stöðu verkefnis. R20060045
Roxana Elena Cziker og Magnús Yngvi Josefsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að bæta réttindi barna á Íslandi, sbr. 16. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. október 2019. R19100346
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokks fólksins fagnar því að tillögunni sé vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs ásamt velferðarsviðs. Fyrir liggur að ekki allir foreldrar geta greitt aukalega fyrir þátttöku barna sinna í ferðum eða viðburðum. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um banni við mismunun af nokkru tagi. Í aðalnámskrá grunnskólanna segir að ekki skuli mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð. Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund sem eru í mikilli neyð er stærsti hluti þeirra einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Árið 2019 lagði borgarfulltrúi fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau. Í 5 skólum standa foreldrar straum af ferðum barna sinna og í 13 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og sumarhátíðum. Samkvæmt þessu eru vísbendingar um að börn njóti ekki jafnræðis.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um sameiginlegan fund mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs þann 25. júní 2020.
-
Lagt fram bréf starfshóps um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar, dags. 22. maí 2020, ásamt lokaskýrslu starfshópsins. R19070030
Samþykkt að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að vísa skýrslu starfshópsins ásamt tillögum, í opið umsagnarferli. Frestur til að skila umsögnum er gefin til 22. júní n.k.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar gerð þessarar skýrslu um gagnsæi styrkveitinga Reykjavíkurborgar og að það verði gert miðlægara með skýrum ramma og reglum. Ekki var skoðað jafnræði á milli hópa og aðila sem sækja t.d. í sömu styrkjasjóði. Því hvetur Flokkur fólksins til að jafnframt verði skoðað jafnræði á milli hópa og annarra umsóknaraðila sem og mannréttindi ýmissa hópa sem sækja um styrk til borgarinnar.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar því að nú skuli vera lögð fram „Lokaskýrsla starfshóps ásamt tillögum, um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar“. Löngu tímabært var að fara yfir þann flókna frumskóg sem styrkjaúthlutanir borgarinnar eru, hvort sem er fyrir umsækjendur eða þá sem ætlað er að úthluta styrkjunum. Varðandi tillögur starfhópsins þá er það mikilvægt að gagnsæi og skýrleiki úthlutana verði í fyrirrúmi. Um er að ræða verulegar upphæðir, eins og fram kemur í sundurliðun á úthlutun styrkjasamninga Reykjavíkurborgar árið 2019, eða nákvæmlega kr. 1.036.454.576,-.
Freyja Barkadóttir og Helga Björk Laxdal taka sæti á fundinum undir þessum lið og Halldóra Káradóttir tekur sæti með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar á starfsumhverfi og starfsánægju starfsmanna Reykjavíkurborgar.
- Kl. 15.23 víkur Skúli Helgason og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum.
Harpa Hrund Berndsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á framkvæmd og niðurstöðum Krísuhakksins (e. Hack the Crisis). R20060044
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þeirri ákvörðun borgarinnar að setja í gang nýsköpunarsamkeppni strax í kjölfar Covid í formi Hack the Crisis. Flokkur fólksins leggur til að haldið verði áfram á þessari braut og fleirum veitt tækifæri að spreyta sig í nýsköpun með hliðsjón af Covid ástandinu. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg skoði aðkomu sína að Fablab verkstæðum í borginni og leiti leiða til að auka aðgengi bæði borgara á öllum aldri og nemenda við grunnskóla borgarinnar. Æskilegt væri að í þeirri hröðu þróun sem samfélagið er að lögð verði meiri áhersla á nýsköpun í skólastarfinu.
Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um breytta launaseðla, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 14. mars 2019, ásamt umsögn fjármálaskrifstofu dags, 8. maí 2020. R19030125.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Lagt er til að Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra aukið gagnsæi í kringum launatengd gjöld á launaseðli starfsfólks Reykjavíkurborgar í takt við umsögn sviðsins.
Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.
Tillagan samþykkt svo breytt.Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Í byrjun mánaðarins bárust útsvarsgreiðendum í Reykjavík álagningarseðlar fyrir árið 2019. Þar var með einföldum og skýrum hætti hægt að sjá skiptingu á því hvernig skattar þeirra skiptast á milli ríkis og síns sveitarfélags. Sem dæmi má taka að skattar borgarbúa með um 8,4 mkr. tekjuskattstofn (ca. 700.000, kr. mánaðarlaun), skiptast með nánast jöfnum hætti milli ríkis (1.255 þúsund kr.) og Reykjavíkurborgar (1.227 þúsund kr.). Tillagan var lögð fram 15. mars 2019 og umsögn fjármálaskrifstofu barst núna í júní 2020. Þar er því haldið fram „að framsetning á upplýsingum af þessu tagi gætu flækt framsetningu á launaseðli þannig að launþegar gætu misst yfirsýn yfir raunverulegar skattgreiðslur og þær jafnvel virst villandi“. Undir þetta getur fulltrúi Sjálfstæðisflokks ekki tekið. Hinu er hins vegar fagnað að málið skuli vera skoðað áfram með samþykkt fyrirliggjandi breytingartillögu.
Fylgigögn
-
Lagt fram til upplýsingar bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 22. maí 2020, um verkefnið Hverfið mitt 2020 með drögum að tímalínu. R20050238
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um fundargerð ofbeldisvarnarnefndar, sbr.12. lið fundargerðar mannréttinda-, og nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. janúar 2020. R2001024
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið við fyrirspurn í tengslum við tillögu Flokksins um úrræði vegna barna sem sýna árásargirni og ofbeldi. Tillögunni var hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnun um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Þessu ber að fagna. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður draga fram þá staðreynd að við kortlagningu úrræða í tengslum við aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020 kom í ljós að ofbeldi barna í borginni hefur farið vaxandi en 40% aukning hefur orðið á tilkynningum þar sem tilkynnt er um barn sem beitir ofbeldi milli áranna 2016 (145 tilkynningar) og 2018 (204 tilkynningar). Það sem veldur áhyggjum er að í öll úrræði eru biðlistar, eitt er að setja á laggirnar úrræði en þau ná stundum skammt ef ekki fylgir nægjanlegt fjármagn til að halda úti úrræðinu þannig að börn og foreldrar hafi auðvelt aðgengi að því og þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir aðstoð. Málum er forgangsraðað eftir alvarleika sem þýðir að mörg börn bíða lengi eftir aðstoð. Það hlýtur að teljast til mannréttindabrota að láta börn bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn Sjálfstæðisflokks um mögulegt brot ÍR, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda-, og nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. maí 2020. R20050109
Fylgigögn
-
Lagt fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um göngugötur, sbr. 11. lið fundargerðar mannréttinda-, og nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. janúar 2020. R20010240
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svar samgöngustjóra er lagt fram við fyrirspurn Flokks fólksins um hvort borgin ætli ekki að virða 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum, þar sem tiltekið er að umferð vélknúinna ökutækja er heimil um göngugötur, þ.á m. akstursþjónustu fatlaðra og handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Segir í svari að göngugötur í Reykjavík séu merktar með áberandi umferðarmerkjum en ekki lokaðar að öðru leyti. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort það þýði að P merktir bílar geti ekið göngugötur og lagt í merkt stæði? Fram kemur einnig í svari að 3. apríl sl. sendi umhverfis- og skipulagssvið minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem lýst var yfir áhyggjum af framkvæmd undanþáguákvæðis 1. mgr. 10. gr. Laganna (sjá svar). Óttast er um neikvæð áhrif þessa ákvæðis.Deila má um neikvæð áhrif en fyrir liggur að tryggja þarf jafnt aðgengi allra. Skipulagsyfirvöld eigi ekki að reyna að breyta orðalagi þessara lagagreinar. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn setur þessa heimild og ætla má að mikil vinna liggi þarna að baki. Tryggja þarf hreyfihömluðum fullnægjandi aðgengi. Ekki má ætla að hreyfihamlaðir muni haga sér ógætilega í slíkum götum.
- Kl. 16.08 víkur Diljá Ámundadóttir af fundinum.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 16:14
Dóra Björt Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
mnl_1106.pdf