Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 16

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2020, fimmtudaginn 12. mars var haldinn 16. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl.13.05. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Daníel Örn Arnarsson, Skúli Helgason, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Þór Elís Pálsson. Einnig sátu fundinn Anna Kristinsdóttir og Elísabet Pétursdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á aðgerðum Reykjavíkurborgar út frá skýrslu um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði og möguleika innflytjenda til atvinnu innan stjórnsýslunnar. 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að vísa skýrslunni og minnisblaðinu til gerðar formlegrar innleiðingaráætlunar með forgangsröðun og tímaramma.

    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar skýrslunni sem Réttur Aðalsteinsson & Partners hefur unnið um jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði. Ljóst er að málið getur verið talsvert flókið og ýmislegt hjá borginni má betur fara. Átak þarf að vera í mati á menntun innflytjenda, styrkja þarf íslenskukennslu og almenna fræðslu varðandi umgengni starfsmanna hvort við annað. Flokkur fólksins leggur til að niðurstöður skýrslunnar og tilmæli skýrsluhöfunda verði vel ígrunduð og breytingar gerðar þar sem þörfin er á. 

    Joanna Marcinkowska og Auður Björgvinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á leiðbeiningum og fræðslu til fagaðila um notkun túlka.  

    -    Kl. 13.45 tekur Örn Þórðarson sæti á fundinum. 

    Joanna Marcinkowska tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram til afgreiðslu tillaga Flokks fólksins frá 13. febrúar um að gerðar verði breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks. 

    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins, að vísa tillögunni frá. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks sitja hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breyting á deiliskipulagi er ekki á verksviði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs heldur á verksviði skipulags- og samgönguráðs samkvæmt skipulagslögum og samþykktum ráðanna. Því er tillögunni vísað frá. Bent er á að fulltrúi Flokks fólksins er með áheyrnarfulltrúa í því ráði og getur því lagt þar fram tillögur. Allir flokkar hafa fulltrúa á þeim vettvangi og því ber að beina málum sem falla undir þann málaflokk þangað.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni um að auka þurfi möguleika bæði hreyfihamlaðra og eldri borgara á að njóta umræddra gatna og gera þeim kleift að sækja sér þá þjónustu sem þar er í boði án vandkvæða.  Þó tillagan heyri ekki beint undir verksvið Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, enda fer ráðið ekki með skipulagsmál, er það eðlilegt og rétt að taka jákvætt undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram, um jafnt aðgengi allra borgarbúa að þessum verðmætu svæðum borgarinnar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins bendir á að með áætlun meirihlutans að loka alfarið fyrir umferð ökutækja um Laugaveg, Skólavörðustíg og Vegamótastíg er verið að brjóta á réttindum fatlaðra. Með því að neita fötluðu fólki og jafnframt eldri borgurum sem eiga erfitt með hreyfingar að koma á ökutækjum sínum inn á lokaðar göngugötur miðborgarinnar er verið að brjóta nýsett lög í landinu og samþykktum Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðra um aðgengi til jafns við aðra borgarbúa. Þetta varðar mannréttindi þessara hópa sem Flokkur fólksins óskar að meirihlutinn virði.

    Fylgigögn

  4. Fram fer  umræða um valnefnd mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar og hvatningaverðlauna 2020. 

    Fulltrúar senda tillögur að fulltrúum í valnefnd til mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu fyrir næsta fund ráðsins.

  5. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. 

    Öllum styrkumsóknum er hafnað.

  6. Fram fer umræða um aðkomu mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að málþingi Reykjavíkurakademíunnar 11. júní – Öllum til heilla.

  7. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 6. mars 2020, um heimild til að halda áfram uppsetningu á hjólastæðum með innbyggðri þjófavörn og hleðslu. 

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 6. mars 2020, um heimild til að hefja tilraunaverkefni um rafskútur fyrir borgarstarfsmenn. 

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 6. mars 2020, um heimild til að halda áfram verkefni um upplýsingaskjái í borgarlandinu. 

    Samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata og Sósíalistaflokks. Fulltrúi flokks fólksins situr hjá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins varar við því að við uppsetningu á væntanlegum tilraunaskjá í miðborg Reykjavíkur á einu merkilegasta horni miðborgarinnar, Pósthússtræti og Austurstræti þar sem arkitektúrinn er einstakur sé haft í huga að skjárinn hafi ekki spillandi áhrif á þann heildarsvip. Lagt er til að fundinn verði annar staður fyrir slíkt tilraunaverkefni.

  10. Kynning á samkeppnisviðræðum vegna mötuneyta stjórnsýsluhúsa – Trúnaðarmál. 

    Frestað.

  11. Fram fer kynning á langtímavarðveislu rafrænna gagna. 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð þakkar góða kynningu á tillögu Borgarskjalavarðar varðandi langtímavarðveislu rafrænna gagna stofnana og fyrirtækja Reykjavíkurborgar.  Mikilvægt er að standa vel að þessum þætti gagnavarðveislu og tekið er undir þær leiðir sem lagðar eru til í tillögu Borgarskjalavarðar. 

    Svanhildur Bogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins um endurgerð kvennaklefa í Sundhöll Reykjavíkur:

    Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð skoði hvort farið hafi verið á svig við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og jafnréttisreglur mögulega brotnar við endurgerð búningsklefa Sundhallar Reykjavíkur. Konum hefur verið  úthýst úr klefum sínum á meðan á viðgerð stóð og einnig til  frambúðar en körlum ekki. Karlar fengu eldri kvennaklefanna til afnota á meðan viðgerð stóð yfir á karlaklefunum og fá áfram aðgang að eldri klefunum til frambúðar. Ekki lítur út fyrir að konur fái aðgang að gömlu klefunum aftur þegar endurgerð er lokið sem verður á þessu ári. Margar konur hafa lýst óánægju sinni með þá ákvörðun borgaryfirvalda að henda þeim úr sínum gömlu klefum á meðan karlar hafa áfram aðgang að sínum.  Konum hefur verið vísað í nýbyggingu. Mörgum þeirra finnst staðsetning búningsklefa þar bagaleg þar sem þær verða að ganga langa leið utandyra, í blautum sundfötum til að komast frá klefa í laugina. Í lagi var að þola ástandið um tíma meðan á viðgerð kvennaklefa stæði en sá tími er að verða liðinn. Körlum hefur hins vegar ekki verið vísað úr eldri byggingunni ekki heldur meðan á endurgerð stóð.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 15:58

Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_1203.pdf