Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2014, föstudaginn 17. október var haldinn 213. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 12:05. Viðstödd: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Eva Baldursdóttir, Bjarni Þór Sigurðsson varamaður fyrir Tomasz Chrapek, Trausti Harðarson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Einnig: Benóný Harðarson varamaður Hermanns Valssonar áheyrnarfulltrúa VG, Kári Arnórsson áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Frímann Ari Ferdinandsson áheyrnarfulltrúi ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Andrés B. Andreasen fjármálastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram eftirfarandi tillaga íþrótta- og tómstundaráðs:

Í ljósi undangenginnar umræðu um þjóðarleikvanga er lagt til að áframhald verði á viðræðum ÍTR við mennta- og menningarmálaráðherra um þjóðarleikvanga.

Frestað. 

2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá seinasta fundi liður 6 um keppnisvöll Leiknis.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að hefja viðræður við Íþróttafélagið Leikni um úrbætur á keppnisvelli félagsins við Austurberg í því skyni að hann fullnægi kröfum Knattspyrnusambands Íslands um áhorfendaaðstöðu, fjölmiðlastúku, varamannaskýli o.s.frv. vegna þátttöku í efstu deild. 432 sæti eru í núverandi áhorfendastúku félagsins, sem byggð var árið 2007, en samkvæmt reglum KSÍ þurfa sæti að vera að lágmarki 500 vegna leikja í efstu deild. Stefnt skal að því að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir áður en Leiknir hefur keppni í efstu deild sumarið 2015.

Vísað til meðferðar sviðsstjóra.

Lögð fram eftirfarandi bókun Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir styðja þessa góðu tillögu og leggja það til að íþrótta- og tómstundaráð bregðist hratt við og styðji vel við Íþróttafélagið Leikni við að byggja upp fyrirmyndar áhorfendaaðstöðu og einnig við byggingu á þaki yfir áhorfendaaðstöðuna enda Leiknir að hefja sitt fyrsta ár í efstu deild.  Framsókn og flugvallarvinir leggja það einnig til að íþrótta- og tómstundaráð bregðist eins hratt við og styðji vel við knattspyrnudeild Fjölnis við byggingu á fyrirmyndar áhorfendaaðstöðu og einnig við byggingu á þaki yfir áhorfendaaðstöðuna enda Fjölnir að hefja sitt annað ár í efstu deild. Knattspyrna er vinsælasta íþrótt á Íslandi og í heiminum öllum og eigum við að styðja við hana að fullum krafti.  Til að hverfisliðin hafi meðstuðning á keppnisleikjum þá er nauðsynlegt að öll hverfisknattspyrnufélögin búi að fyrirmyndar áhorfendaaðstöðu með þaki yfir til að skýla áhorfendum frá íslenskum vind og kulda og nánast daglegri Reykvískri rigningu.

3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá seinasta fundi liður 7 um bílasvæðavanda við keppnisleikvanga og íþróttahús félaganna.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að efna til viðræðna milli borgaryfirvalda, Íþróttabandalags Reykjavíkur og lögreglunnar vegna bílastæðavanda við keppnisleikvanga og íþróttahús íþróttafélaganna í borginni. Framkvæmdastjóra ÍTR er falið að setja starfshóp á laggirnar með fulltrúum frá þessum aðilum, sem kortleggi vandamálið og komi með tillögur til úrbóta. Skoðað verði sérstaklega að heimila lagningu bifreiða á ákveðnum svæðum nálægt íþróttaleikvöngum við sérstakar aðstæður, þ.e. meðan á fjölsóttum íþróttaleikjum stendur. Í starfi hópsins verði rík áhersla lögð á samráð og samvinnu við öll hverfisíþróttafélög borgarinnar. Stefnt skal að því að hópurinn skili áliti ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. apríl 2015

.

Tillagan er felld með 4 atkvæðum fulltrúa meirihluta.

Lögð fram eftirfarandi tillaga meirihluta Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar:

Íþrótta- og tómstundaráð hvetur hverfafélögin í Reykjavík til að kynna betur fyrir áhorfendum og íbúum hvar bílastæði eru nálægt keppnisleikvöngum þegar um stóra íþróttaviðburði er að ræða. Að sama skapi séu áhorfendur og íbúar hvattir til að velja lýðheilsu og vistvæna samgöngumáta. Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur mikla reynslu af viðburðarstjórnun vegna stórra íþróttaviðburða á borð við Reykjavíkurmaraþonið. Lagt er til að ÍBR og félögin vinni í sameiningu að lausnum um framangreint, hvernig sé best að standa að slíkum kynningum og skrifstofu ÍTR, eftir atvikum.

Frestað.

Lögð fram eftirfarandi bókun meirihluta Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúa VG

Þátttakendur (áhorfendur sem aðrir) hafa í síauknum mæli sótt stórviðburði hverskonar á ábyrgari hátt en áður var. Nýjasta dæmið, sem okkur er öllum minnisstætt, er landsleikur Íslands og Hollands þar sem aðeins einn bíll var sektaður fyrir stöðubrot á tíuþúsundmanna íþróttastórviðburði. Þetta ber þess vitni hversu mikill árangur hefur náðst í því að bæta umferðarmenningu, eflingu almenningssamgangna, samnýtingu farartækja og hjólreiða. Vísað er til stöðuuppfærsla Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu frá stórleiknum umrædda. #vúhú

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG kjósi að vísa frá tillögu um aukna samvinnu borgaryfirvalda, lögreglunnar og hverfisíþróttafélaganna í borginni í því skyni að bæta úr bílastæðavanda við keppnisleikvanga og íþróttahús félaganna þar sem það á við. Umrædd tillaga er ekki flutt vegna bílastæðamála í Laugardal eins og skilja má af bókun meirihlutans heldur vegna bílastæðavanda sem skapast hefur í nokkrum íbúahverfum þegar hverfisíþróttafélög halda fjölsótta heimaleiki sína þar. Slíkur vandi getur leitt til minni aðsóknar á leiki og um leið minni tekna viðkomandi félaga en einnig óánægju meðal íbúa vegna ásóknar vallargesta í stæði þeirra. Hægt væri að koma þessum málum í betra horf með bættri viðburðastjórnum og auknu samstarfi borgarinnar, lögreglunnar og íþróttafélaganna, t.d. með úrbótum í skipulagningu viðburðanna, hvatningu til að nýta fjölbreytilega fararmáta til að sækja íþróttaleiki og betri kynningu á því hvar bílastæði sé að finna í nágrenni umræddra leikvanga. Er miður að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans hafi ekki vilja til að koma þessum málum í betra horf með aukinni samvinnu umræddra aðila eins og hér hefur verið lagt til. 

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og áheyrnarfulltrúa VG:

Vísað er til efni tillögu meirihlutans hér að ofan, þar sem tekið er efnislega á þeim punktum sem fram koma í bókun Sjálfstæðismanna. 

4. Lögð fram að nýju tilaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá seinasta fundi liður 8 um strætisvagnaþjónustu í Skerjafirði.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur skorar á stjórn Strætó bs. að taka strætisvagnaþjónustu við Skerjafjörð til endurskoðunar í því skyni að tengja íbúabyggð í hverfinu betur við íþróttir og aðra frístundastarfsemi í Vesturbænum. Æskilegt er að börn og ungmenni úr Skerjafirði geti tekið strætisvagn í Melaskóla og Hagaskóla og sótt íþrótta- og æskulýðsstarfsemi hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur í Frostaskjóli og félagsmiðstöð borgarinnar þar án þess að þurfa að skipta um vagn eins og nú er raunin.

Samþykkt að vísa tillögunni til sviðsstjóra.

5. Skipan í styrkjanefnd ÍTR. Þórgnýr Thoroddssen, Eva Baldursdóttir, Lára Óskarsdóttir og Trausti Harðarson munu sitja í nefndinni. 

6. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 15. sept. sl. með ósk um umsögn um stefnumótun í málefnum ungs fólk 16 ára og eldri.

Lögð fram drög að umsögn.

Umsögnin samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá.

Lögð fram bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir vilja bæta því við að fleiri íþróttamannvirki þurfi einnig til, þá sérstaklega fleiri íþróttahús, til að styðja við ungt fólk 16 ára og eldra.  Ekki sé hægt að sætta sig við að t.d. framhaldsskólar í Reykjavík geti komist upp með það að vísa nemendum sínum í líkamsræktarstöðvar í stað þess að búa þeim að góðu íþróttahúsi til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar.  Einnig þarf að tryggja það að til sé gott framboð af lausum tímum í íþróttahúsum borgarinnar fyrir ungt fólk til að leigja fyrir vinahópa og annarra ungmenna sem vilji leggja stund á íþróttir saman utan skóla og/eða vinnu.

7. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. sept. sl. – Maraþon fyrir hjólreiðafólk.

Íþrótta- og tómstundaráðs þakkar fyrir hugmyndina og vísar henni til ÍBR, sem hefur verið með til skoðunar svipaða hugmynd.

8. Kynning á vinabæjarráðstefnu í Århus.

Frestað.  

9. Lagt fram 8 mánaða uppgjör. Fjármálastjóri kynnti og svaraði fyrirspurnum.

10. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallavina:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að hefja hvatningarátak til að hveta börn og unglinga til að leggja stund á íþróttir. Samið verður við Strætó um að í þrjá mánuði verði útvaldir strætisvagnar með stórum teiknuðum myndum af börnum og unglingum í hinum ýmsu íþróttum s.s. knattspyrnu, sundi, handbolta, frjálsum, skák, skíðum, körfubolta, skautum og fleira  Með þessu er hugmynd um íþróttir og íþróttaiðkun að birtast daglega börnum og unglingum í Reykjavík. Þessum myndum geta fylgt hvatningarorð eins og „Hvaða íþrótt langar þig að prófa að æfa“. „Hvernig væri að skella sér í sund í dag“, „Það er gaman að fara á skíði“.

Frestað.

Fundi slitið kl. 14:15

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Eva Baldursdóttir

Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir Trausti Harðarson