No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, föstudaginn 4. nóvember var haldinn 148. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12 og hófst kl. 11.05. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Kjartan Magnússon og Björn Gíslason. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fjárhagsáætlun ÍTR fyrir árið 2012 ásamt greinargerð.
- Kl. 11.20 kom Eva Baldursdóttir á fundinn.
- Kl. 11.25 kom Marta Guðjónsdóttir á fundinn.
2. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að á fjárhagsáætlun 2012 verði fimmtíu milljónum króna varið í styrki til viðhalds íþróttamannvirkja, sem eru í eigu íþróttafélaga í Reykjavík. Samkvæmt skýrslu KJG-ráðgjafar er viðhaldi margra íþróttamannvirkja ábótavant og sum liggja undir skemmdum vegna þess. Brýnt er að brugðist verði við og ráðist í mest aðkallandi verkefnin áður en tjón hlýst af, sem myndi leiða af sér meiri kostnað til framtíðar. Skoðað verði hvort unnt sé að standa að slíkum viðhaldsframkvæmdum í tengslum við aðgerðir Reykjavíkurborgar í atvinnumálum og/eða í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Frestað.
3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til KFUM og –K til að unnt verði að ljúka byggingu svefnskála í Vatnaskógi. Framkvæmdir hófust 2007 og hefur Reykjavíkurborg þegar veitt styrk til verksins en vegna áfalla í efnahagslífi, hafa aðrar leiðir við fjármögnun þess að nokkru leyti brugðist. Verkið er þó vel á veg komið en töluverð vinna eftir innanhúss. Hinn nýi skáli mun fullnægja öllum kröfum eldvarna- og heilbrigðiseftirlits en eldra húsnæði er ábótavant hvað slíkar kröfur varðar. Á hverju ári dvelja þúsundir barna og ungmenna í Vatnaskógi og taka þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi.
Frestað.
4. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að Knattspyrnufélaginu Fylki verði veittur styrkur á fjárhagsáætlun til að bæta áhorfendaaðstöðu á svæði félagsins við Fylkisveg. Íþrótta- og tómstundasviði og Framkvæmda- og eignasviði er falið að ræða við félagið um tilhögun framkvæmdarinnar og leggja fram tillögu um upphæð.
Björn Gíslason vék af fundi undir þessum lið.
Frestað.
5. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum hinn 10. júlí 2008 að gefa Knattspyrnufélaginu Víkingi fyrirheit um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur við lóðarhafa við Stjörnugróf rennur út árið 2016. Hinn 26. júní 2009 samþykkti Íþrótta- og tómstundaráð að skipa vinnuhóp með fulltrúum Íþrótta- og tómstundasviðs, Skipulags- og byggingarsviðs og Knattspyrnufélagsins Víkings til að fjalla nánar um afhendingu umrædds svæðis til félagsins sem og þær hugmyndir og tillögur, sem Víkingur hefur um nýtingu svæða félagsins til framtíðar. Óskað er eftir upplýsingum um framvindu málsins.
6. Lögð fram eftirfarandi bókun Vinstri grænna:
Áheyrnarfulltrúi vinstri grænna í íþrótta og tómstundaráði hefur áhyggjur af þeim niðurskurði sem kemur fram í framlagðri fjárhagsáætlun ársins 2012 sem byrtist í að ekki er gert ráð fyrir þeirri vísitöluhækkun sem orðið hefur á árinu í framlagðri áætlun. Sérstaka athygli vekur þó lækkun á framlagi í frístundakort í áætluninni. Í fjárhagsáætlunum síðustu ára hefur verið lögð áhersla að halda utan um frístundakortið enda hefur það gert fjölskyldum í borginni kleift að leyfa börnum sínum að taka þátt heilbrigðu frístunda og forvarnarstarfi. Fulltrúa vinstri grænna finnst miður að núverandi meirihluti virðist ekki skynja mikilvægi þessa úrræðis sem frístundakortið er. Það liggur fyrir að gjaldskrár hækkanir verði hjá ÍTR, þar telur fulltrúi vinstri grænna að forgangsráða verði í þágu barna og hvetur meirihlutann til að hækka ekki gjöld á börn frekar en nú er heldur beini hækkunum að fullorðnum.
7. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn Vinstri grænna:
Fulltrúi vinstri grænna óskar jafnframt eftir að fá að sjá sundurliðun á leigu á samningum sem Reykjavíkurborg hefur um leigu á Egilshöll og Mest húsið og hvernig þeir hafa tekið breytingum frá síðustu fjárhagsáætlun. Það er mikilvægt að þeir samningar verði verðbættir að fullu og sviðið þurfi ekki að taka á sig niðurskurð af leigusamningum sem samþykktir eru af Borgarráði.
8. Lögð fram eftirfarandi tillaga Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að íþrótta og tómstundaráð óski eftir að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur kanni stöðu jafnréttis í einstaklings-íþróttagreinum í Reykjavík.
Samþykkt samhljóða.
9. Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
Íþrótta - og tómstundaráð samþykkir að veita landsliði kvenna í handknattleik styrk að upphæð einni og hálfri milljón króna vegna þátttöku þess á heimsmeistaramótinu í Brazilíu. Jafnramt er lagt til að borgarráð veiti liðinu sambærilegan styrk. Slík styrkveiting kemur vel heim og saman við jafnréttisaðgerðir, sem mælt er með í skýrslu Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Umræddir styrkir verði veittir á þeim forsendum og með þeim fyrirvara að verkefnið sé unnið á sambærilegan hátt og kveðið er á um í greinargerð HSÍ.
Samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 13.10.
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Karl Sigurðsson
Stefán Benediktsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Björn Gíslason