No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, föstudaginn 14. október var haldinn 146. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst kl. 12.25. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva H. Baldursdóttir, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Geir Sveinsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Ennfremur: Drífa Baldursdóttir varaáheyrnarfulltrúi, Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Samþykkt að Eva H. Baldursdóttir verði varaformaður.
2. Hermann Valsson tilnefndur áhreyrnarfulltrúi og Drífa Baldursdóttir til vara.
3. Samþykkt að óska eftir áheyrnarfulltrúa frá ÍBR á fundi ráðsins sbr. 4. gr. samþykktar íþrótta- og tómstundaráðs vegna áheyrnarfulltrúa.
4. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 10. okt. sl. um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa ÍTR, alls 12 mál.
Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leita leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi fyrir inniíþróttagreinar, handknattleik og körfuknattleik. Skoðað verði hvort unnt sé að taka húsnæði í hverfinu á leigu til bráðabirgða og útbúa þar aðstöðu með hagkvæmum hætti.
Frestað.
5. Lagt fram 7. mánaða uppgjör ÍTR.
6. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til borgarrráðs dags. 20. sept. sl. vegna fjárhagsramma 2012.
Framkvæmdastjóri kynnti áherslur og drög að forsendum, forgangsröðun og tímaáætlun ÍTR fyrir starfs- og fjárhagsáætlun 2012.
Samþykkt að framkvæmdastjóra ÍTR verið falið að koma með tillögu að skiptingu ramma sviðsins ásamt drögum að starfs- og fjárhagsáætlun 2012 sem lögð verður fram á næsta fundi ráðsins.
7. Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokksins frá seinasta fundi.
Í tilefni þess að 100 ár eru um þessar mundir liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni, lýsir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur yfir stuðningi við að skátahreyfingin fái Úlfljótsvatnsbýlið undir starfsemi sína. Með skátahreyfingunni er átt við Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenzkra skáta. Jafnframt verði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtir að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannaheilla, verði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði.
Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum Besta flokksins og Samfylkingar.
Lögð fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokksins:
Við hörmum að fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins í íþrótta- og tómstundaráði skuli vísa frá tillögu okkar um að skátahreyfingin fái Úlfljótsvatnsbýlið undir starfsemi sína og tryggt verði að það svæði, sem skátahreyfingin nýtir nú að Úlfljótsvatni til almannaheilla, verði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði. Svo virðist sem einhver hafi sannfært fulltrúa meirihlutans í ÍTR um að þetta mál komi ráðinu ekki við og því eigi það ekki að taka afstöðu til þess. Í nýrri samþykkt fyrir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar segir að ráðið skuli móta stefnu og hafa faglega forystu í íþrótta- og tómstundamálum og taka ákvarðanir og gera tillögur til borgarráðs á verksviði sínu. Ráðið eigi að vinna að eflingu íþrótta og hollrar tómstundaiðju almennings í Reykjavík og hafa samvinnu við þá aðila, sem um slík mál fjalla. Ráðinu er ætlað að hafa eftirlit með rekstri mannvirkja á sviði íþrótta- og tómstundamála, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar og gera tillögur til borgarráðs að gerð og staðsetningu nýrra mannvirkja til íþrótta- og tómstundastarfs. Þá segir að ráðið eigi að vinna að nýsköpunar- og þróunarstarfi á sviði íþrótta- og tómstundamála. Af samþykktinni er augljóst að það er ekki utan verksviðs Íþrótta- og tómstundaráðs að hafa skoðun á því hvernig skátastarfi í Reykjavík er háttað og með hvaða hætti það verði sem best þróað til framtíðar á landi, sem er í eigu dótturfyrirtækis Reykjavíkurborgar Miklu fremur má halda því fram að það sé beinlínis hlutverk ráðsins að hafa skoðun á hugmyndum og tillögum, sem fram koma og miða að því að viðhalda öflugu skátastarfi og efla það enn frekar. Er mjög miður að fulltrúar Samfylkingin og Besti flokkurinn víki sér undan því að taka afstöðu til málsins með þessum hætti. Vonum við að skýringin sé ekki sú að ætlun meirihlutans sé sú að selja þann hluta Úlfljótsvatnsjarðarinnar, sem skátahreyfingin hefur nú til afnota, til þriðja aðila.
Lögð fram eftirfarandi bókun Besta flokksins og Samfylkingar:
Meirihluti íþrótta- og tómstundaráðs telur rétt að vísa tillögu Sjálfstæðismanna frá á þeim forsendum að ráðið hefur ekki lögsögu en sama málið hefur verið flutt hjá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Rétt er að tillagan fái afgreiðslu hjá OR áður en ÍTR taki afstöðu til málsins.
Lögð fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokksins:
Við ítrekum þá skoðun að það sé hlutverk Íþrótta- og tómstundaráðs að hafa skoðun á heilbrigðu tómstundastarfi í Reykjavík, þar með talið skátastarfi og hvernig landi í eigu borgarinnar og dótturfyrirtækja hennar sé ráðstafað í því skyni. Vonumst við til að tillagan verði aftur tekin til skoðunar og afgreiðslu í ráðinu áður en langt um líður.
8. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra dags. í okt. um verkefnið ódýrari frístundir.
9. Lögð fram skýrsla um áhættumat vegna vatnsverndar á Bláfjallasvæðinu dags. 19. sept. sl. unnin af Mannviti að beiðni SSH.
10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarráðs dags. 6. okt. sl. þar sem vísað er til íþrótta- og tómstundaráðs til umsagnar tillögum verkefnahóps á vegum SSH um rekstur íþróttamannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.
11. Lagt fram yfirlitsblað um staðsetningu sparkvalla.
Íþrótta- og tómstundaráð lagði fram eftirfarandi bókun:
Í maí 2010 samþykkti Íþrótta- og tómstundaráð einróma tillögur Knattspyrnuráðs Reykjavíkur um forgangsröðun battavalla á skólalóðum borgarinnar. Óskað er skýringum frá Framkvæmda- og eignasviði á því af hverju þessari forgangsröðun hefur ekki verið fylgt. Jafnframt ítrekar ráðið umrædda samþykkt sína um forgangsröðun battavalla.
- Kl. 14.20 vék Karl Sigurðsson af fundi.
12. Skrifstofustjóri íþróttamála kynnti stöðu á framkvæmdum við Laugardalslaug, Árbæjarlaug, Grafarvogslaug og Ylströnd.
13. Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokks:
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að lýsing verði bætt á bifreiðastæði við mannvirki íþróttafélaganna Ármanns og Þróttar við Engjaveg. Mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er um bílastæðið, ekki síst barna og unglinga, sem sækja æfingar hjá umræddum íþróttafélögum og í öðrum mannvirkjum í Laugardalnum.
Samþykkt.
14. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá Sjálfstæðisflokknum:
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu mála vegna gallaðrar lendingar-gryfju í fimleikahúsi Ármanns í Laugardal. Samkvæmt upplýsingum frá Ármanni hefur búnaður gryfjunnar verið gallaður frá upphafi en húsið var tekið í notkun fyrir réttum fimm árum, haustið 2006. Búnaðurinn háir notendum gryfjunnar og getur jafnvel valdið þeim hættu í ákveðnum tilvikum. Tilraunir til að gera við búnað gryfjunnar hafa ekki borið árangur og er því mikilvægt að fundin verði farsæl lausn á málinu sem fyrst.
Vísað til Framkvæmda- og eignasviðs.
15. Fulltrúar í íþrótta- og tómstundaráði fengu afhenta bókina Blöðrur yfir Reykjavík eftir Hirðteiknara Reykjavíkurborgar.
Almenn ánægja var með bókina og Hirðteiknaranum færðar bestu þakkir.
Fundi slitið kl. 14.40
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Stefán Benediktsson
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir
Geir Sveinsson