No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, þriðjudaginn 31. maí var haldinn 140. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 13.10. Mættir: Eva Baldursdóttir varaformaður, Diljá Ámundadóttir, Hilmar Sigurðsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kjartan Magnússon, Geir Sveinsson og Marta Guðjónsdóttir. Jafnframt: Líf Magneudóttir áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 25. maí sl. f.h. stjórnkerfisnefndar þar sem óskað er eftir umsögn íþrótta- og tómstundaráðs um tillögur borgarstjóra um stofnun skóla- og frístundasviðs.
Lögð fram umsögn meirihluta í íþrótta- og tómstundaráði:
Frístundaheimili starfa samkvæmt borgarráðssamþykkt frá 2010 sem kveður á um að stefnt skuli að samþættum degi frístundar og skóla. Þá skuli frístundastarf koma inn í samfelldan skóladag fremur en að vera í lok vinnudags. Í samstarfsyfirlýsingu Besta Flokksins og Samfylkingarinnar segir að samstarf þeirra sem koma að menntun, umönnun og uppeldi barna og ungmenna skuli markvisst aukið. Með því að stofna nýtt skóla- og frístundasvið opnast möguleikar við að þróa skóladaginn, þannig að hann taki mið af þörfum barnsins í auknum mæli. Hugmyndafræði frítímans getur haft jákvæð áhrif á skipulag skólakerfisins, þar sem möguleikar skapast við að koma til móts við börn sem ekki njóta sín til fulls í núverandi kerfi. Þannig hefur öflugt frístundastarf ekki eingöngu afþreyingargildi heldur jafnframt menntunar- og forvarnargildi. Rekstur skóla og frístundar undir einu hatti mun auk þess geta nýtt krafta ólíkra fagstétta, og þar er trú Íþrótta - og tómstundaráðs að hugmyndafræði frítímans muni bæta skólastarfið til muna. Þar að auki verði við slíka breytingu boðið upp á full störf á vettvangi frítímans sem muni styðja við fagstétt frístundaráðgjafar þegar fram líða stundir.
Nýtt svið skóla- og frístunda er spennandi þróun, stórt svið með 5000 starfsmönnum og fer með málefni barna á aldrinum 0-18 ára, alls um 30.000 börn og ungmenni í Reykjavík. Þróunin helst í hendur við þá þróun sem orðið hefur á Norðurlöndunum þar sem skóla- og frístundamál heyra víðast hvar undir sömu stefnumótun. Mikilvægt er hins vegar að gæta að því að stjórnunarleg aðkoma þeirra sem hafa stýrt frístundaheimilum fram til þessa sé tryggð. Það er lykilatriði til að faglegur ávinningur náist að samstarf og samstaða sé verkefnið.
Við innleiðingu þarf því að gæta að sjónarmið þeirra faghópa sem hafa starfað með jafn frábærum árangri og raun ber vitni. Íþrótta - og tómstundaráð vill því að tryggt sé að sá stýrihópur sem leiða muni breytinguna skv. tillögunni muni fá til ráðgjafar fagfólk á sviði tómstundamála, sem hefur starfað innan borgarinnar. Íþrótta - og tómstundaráð hvetur þá sem hafa starfað að frístunda- og tómstundamálum að horfa á sóknarfærin í tillögu um nýtt skóla - og frístundasvið og deili framtíðarsýn borgarinnar um að slíkt sameinað svið sé góð og heilbrigð þróun á sviði skóla - og frístundamála, bæði faglega og ekki síður hvað varðar skilvirkni, hagkvæmni og samnýtingu þekkingar. Athugað verði hvort ráðlegt sé að frístunda – og félagsmiðstöðvar haldi áfram undir stjórnskipulagi Íþrótta- og tómstundasviðs frekar en að færast yfir til nýs skóla – og frístundasviðs. Vel þarf að ígrunda yfirfærslu á öllum verkefnum frístundamiðstöðva. Hafa verður í huga að frístunda – og tómstundastarfsemi er ólögbundin þjónusta, og nýtur því ekki sömu verndar og skólastarfsemi. Tryggja verður að hlutverk frístunda- og tómstundastarfs verði á jafnréttisgrundvelli á við lögbundina þjónustu. Íþrótta- og tómstundaráð fagnar tillögu um nýtt skóla- og frístundasvið og treystir því að hugmyndafræði frítímans sem hefur þróast markvisst á undanförnum árum innan ÍTR muni þróast og dafna á nýju sviði og lýsir jafnframt yfir ánægju með vel unna verkáætlun sem liggur nú fyrir.
Lögð fram breytingatillaga Sjálfstæðisflokksins að umsögn meirihluta:
Ekki er hægt að fallast á fyrirliggjandi tillögu borgarstjóra um stofnun nýs- skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna þess hve illa hefur verið unnið að málinu af hálfu meirihlutans og óskir um eðlilegt samráð við minnihluta borgarstjórnar og hagsmunaaðila í borginni hundsaðar. Hvergi koma fram áþreifanlegar vísbendingar um hve mikilli hagræðingu umræddar tillögur munu skila í fjármunum talið. Þá hefur formlegum fyrirspurnum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mörg grundvallaratriði málsins, sem lagðar voru fram á aukafundum íþótta- og tómstundaráðs, menntaráðs og borgarráði í apríl ekki enn verið svarað.
Í fyrirliggjandi greinargerð borgarstjóra koma fram ýmsar hugmyndir um þróun skóla- og frístundastarfs í borginni, sem efna hefði átt til ýtarlegra umræðna um á vettvangi fagráða borgarinnar, í stjórnkerfisnefnd í samráði við starfsfólk og aðra hagsmunaaðila áður en tillaga um slíkt var samþykkt af borgarstjórn. Æskilegt er að kostir og gallar við breytt fyrirkomulag verði metnir sérstaklega áður en ákvarðanir eru teknar um hvernig þessum málum verður háttað til frambúðar.
Ætla mætti að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefði lært af því hversu illa hefur verið staðið að breytingum á skólahaldi í borginni sl. vetur en það virðist öðru nær. Skóla- og frístundastarf í Reykjavík er í uppnámi vegna vanhugsaðra stjórnkerfisbreytinga meirihlutans. Óvönduð vinnubrögð, mikill flýtir og lítið samráð við hagsmunaaðila hafa einkennt þær breytingar á skólahaldi í borginni, sem meirihlutinn hyggst ná fram og hið sama gildir um breytingar á frístundastarfi. Á sama tíma og meirihlutinn samþykkti umfangsmiklar breytingar á skólahaldi þrátt fyrir mikla andstöðu borgarbúa, komu fram nýjar breytingartillögur á yfirstjórn þess málaflokks, sem ber hitann og þungann af þjónustu við börn og ungmenni. Engin formleg vinna átti sér stað í umræddum fagráðum né stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar áður en þær voru lagðar með hroðvirknislegum hætti fyrir borgarstjórn og samþykktar þar þrátt fyrir að málið væri vanreifað. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þessum vinnubrögðum og benda á að með þeim var veikur grunnur lagður að áframhaldandi vinnu málsins eins og nú hefur komið í ljós. Í stað samráðs og samvinnu við minnihluta borgarstjórnar og fjölmarga hagsmunaaðila í frístunda- og skólastarfi, kýs meirihlutinn áframhaldandi leið leiftursóknar og samráðsleysis við stjórnkerfisbreytingar. Sjálfsagðar tillögur um að leitað skuli eftir samráði við notendur þjónustunnar, grasrótarsamtök og starfsfólk, eru afdráttarlaust felldar og sýnir að meirihlutinn treystir sér ekki til að bera tillögur sínar undir helstu hagsmunaaðila og freista þess að ná sátt um þær. Eins er greinilegt að formaður stjórnkerfisnefndar vill af klókindum sínum hraða ferlinu og lágmarka umræður um umræddar breytingar eftir því sem kostur er, enda fela þær í sér verulegan tilflutning verkefna frá ÍTR, sem stjórnað er af borgarfulltrúa Besta flokksins til menntaráðs, sem stýrt er af borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.
Mikilvægt er að ná fram frekari hagræðingu í borgarkerfinu en slíkt þarf að gerast í sem víðtækastri sátt við borgarbúa og starfsfólk, eins og gert var í tíð síðasta meirihluta undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Á sama tíma og núverandi meirihluti hækkar skatta, virðist honum fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar enda skynja borgarbúar að ekki er gengið af festu og yfirsýn til verka og ekki er af alvöru reynt að lækka kostnað við sjálft kerfið. Á síðasta kjörtímabili voru mikilvæg skref stigin í átt að samþættingu skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. Umræður fóru fram um að sameina rekstur frístundaheimila og grunnskóla og var ákveðið að gera tilraunir á því sviði á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal. Ákveðið var að reynslan af umræddum tilraunum yrði höfð til hliðsjónar áður en frekari ákvarðanir væru teknar og var því jafnframt heitið að um allar slíkar hugmyndir yrði haft náið samráð við starfsfólk frístundaheimila og aðra hagsmunaaðila. Nýr meirihluti kýs hins vegar að eiga ekkert slíkt samráð.
Breytingar eru mun líklegri til að ganga eftir og heppnast ef starfsfólki er gert kleift að taka þátt í breytingaferli frá byrjun og vera með í skipulagningu og framkvæmd. Forstöðumenn frístundamiðstöðva hafa nú ítrekað óskað eftir samstarfi við meirihluta borgarstjórnar um slíkar breytingar en talað fyrir daufum eyrum. Óttast margir þeirra að hið góða starf, sem frístundamiðstöðvarnar hafa þróað undanfarin ár, fari forgörðum í stjórnkerfisbreytingunum.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillaga meirihluta samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Lögð fram bókun áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Tillaga meirihlutans lýsir sama metnaðarleysi í garð frístundastarfs og allur aðdragandi sameininganna. Aðeins á að færa þann hluta frístundastarfsins sem hentar starfi grunnskólanna yfir á Menntasvið, jafnvel þótt það verði til þess að rjúfa þá heild sem mynduð hefur verið um frístundastarfs fram til þessa. Það er með öllu óásættanlegt að frístundastarf í Nauthólsvík og frístundastarf fyrir ungmenni og fatlaða einstaklinga skuli slitið frá félagsmiðstöðvum og frístundaheimilum með þessum hætti. Greinilegt er að markmiðið er aðeins eitt: Að innlima frístundastarfið í grunnskólana á kostnað alls þess uppbyggingarstarfs sem unnið hefur verið á undanförnum tíu árum. Í stað þess að leysa upp frístundamiðstöðvamódelið síðan 2000, eins og meirihlutinn hyggst gera, þá hefði hann frekar átt að færa það nær íbúum hverfanna og festa það enn frekar í sessi, í hverfamódelið, sem uppi hafa verið hugmyndir um síðan 2004. Það gætir þó nokkurs ósamræmis í tillögum meirihlutans og hefur fulltrúi Vinstri grænna miklar efasemdir um að fyrirhuguð útfærsla verði farsæl fyrir eðli og inntak frítímans. Þrátt fyrir vel meinandi hvatningu til starfsmanna í umsögn ÍTR um samstarf og samstöðu vantar áþreifanlegar útfærslur af því hvernig meirihlutinn ætlar að standa að því. Hefur fulltrúinn áhyggjur af því að frístundastarf barna og ungmenna verði því meira á forsendum hefðbundinnar fræðslu undir stjórn skólastjóra grunnskóla, ef skýr stefnumörkun liggur fyrir. Eins finnst fulltrúanum ekki þau rök halda að færa t.d. Náttúruskólann undir ÍTR þegar hann ætti miklu frekar eiga heima á Menntasviði. Það er vel hægt að koma á auknu samstarfi milli starfsstöðva sviðanna án þess að sameina einstaka þætti starfseminnar á einu sviði. Betra væri ef meirihlutinn tæki sér tíma til að hugsa stjórnkerfisbreytingar á heildstæðan hátt með það fyrir augum að færa þjónustuna nær íbúum í hverfum og auka veg lýðræðislegrar ákvarðanatöku og samráðs á sem flestum stigum borgarinnar í stað þess að búa til eitthvert ofur-svið sem verður þungt í vöfum með óskýrum boðleiðum. Stétt frístundafræðinga og starfsfólks sem sinnir tómstundastarfi barna og ungmenna er stöðugt vaxandi en hefur ekki náð þeirri festu eins og sambærilegar stéttir grunnskólakennara og leikskólakennara. Geldur fulltrúi Vinstri grænna varhug við því að þessar breytingar séu til þess fallnar að auka veg þeirra og efla fagvitund.
Fundi slitið kl. 14.50.
Eva Baldursdóttir
Diljá Ámundadóttir Hilmar Sigurðsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Geir Sveinsson