Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2009, föstudaginn 11. september var haldinn 93. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Hlíðarenda hjá Val hófst kl. 12:05. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Björn Gíslason, Valgerður Sveinsdóttir, Snorri Þorvaldsson, Sóley Tómasdóttir og Stefán Benediktsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 27. júlí sl. með ósk um umsögn vegna beiðni Fylkis um rekstrarleyfi fyrir veitingastað í Fylkishöll.
Frestað.

2. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 3. júlí sl. vegna samþykktar borgarráðs á samningi við Ungmennafélagið Fjölni.

3. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 3. júlí sl. vegna samþykktar borgarráðs á samningi við NBI hf. um Egilshöllina.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Gerður er fyrirvari við að fjárhag Reykjavíkur sé best borgið með því að festast inn í stórhækkuðum húsaleigusamningi við Egilshöll til eins árs. Þá vekur sérstaka athygli að Íþróttafélagið Fjölnir er að falla frá samningi við Reykjavíkurborg um margvíslega aðstöðu gegn því að nýta Egilshöllina meira. Þessi samningur hefði kostað Reykjavíkurborg allt að 3.5 milljörðum króna og 400 milljóna króna rekstur árlega, skv. gögnum sem nú eru lögð fram. Undir hann skrifuðu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Guðlaugur Þór Þórðarson félagi þeirra í stjórn Orkuveitunnar og frambjóðandi til þingkosninga örfáum dögum fyrir alþingiskosningar vorið 2007. Minna en þriðjungur af þessum fjárskuldbindingum var hins vegar kynntur borgarráði þegar samningurinn var lagður fyrir vorið 2007 eða 950 milljónir. Virðist því hafa verið um að ræða gamaldags kosningavíxil sem nú hefur verið afturkallaður. Er vonandi að engu að síður verði hægt að mæta framtíðarþörfum barna í Grafarvogi en viðbótarsamningurinn um Egilshöll er aðeins til eins árs.

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Samkomulagið um Egilshöll tryggir áframhaldandi öfluga íþróttastarfsemi og þjónustu við börn og unglinga í Grafarvogi. Með þessari niðurstöðu er komið í veg fyrir að íþróttastarfsemi fyrir börn og unglinga í Egilshöll verði í óvissu næsta vetur. Að auki verður mögulegt að tryggja framtíðaraðstöðu fyrir Ungmennafélagið Fjölni í stað áður áformaðrar uppbyggingar, aðstöðu fyrir frístundaheimili ÍTR fyrir fötluð grunnskólabörn og tryggja blómlega starfsemi húsinu til lengri framtíðar. Þá verður ráðist í framkvæmdir við lóð og bifreiðastæði auk þess sem ýmsar lagfæringar og framkvæmdir munu eiga sér stað í Egilshöllinni. Sú niðurstaða sem fengist hefur úr viðræðum er því hagfelld fyrir Reykjavíkurborg, auk þess sem gert er ráð fyrir því að síðar á árinu verði farið yfir rekstur og afnot af Egilshöllinni til næstu ára.

- kl. 12:15 kom Sigrún Elsa Smáradóttir á fundinn.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra íþróttamála dags. 9. sept. sl. vegna afgreiðslutíma sundstaða o.fl.

5. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Vesturgarðs dags. 8. sept. sl. vegna bókunar hverfisráðs Vesturbæjar um Vesturbæjarlaug.
Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir bókun hverfisráðs Vesturbæjar og fagnar frumkvæði Mímis, vináttufélags Vesturbæjar, varðandi fjársöfnun til kaupa á fiskabúri í anddyri Vesturbæjarlaugar. Ráðið styður hugmyndina og felur skrifstofustjóra íþróttamála og forstöðumanni laugarinnar að leiða málið til lykta í samvinnu við forsvarsmenn vináttufélagsins.

6. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 17. júlí sl. vegna Tónlistarþróunarmið-stöðvarinnar.

7. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra tómstundamála dags. 8. september vegna starfs fyrir börn í 5.-7. bekk grunnskóla.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Frístundastarf fyrir börn í 5.-7. bekk er enn í lausu lofti, þrátt fyrir að tillögur starfshópa hafi verið lagðar fram í ráðinu æ ofaní æ. Á síðasta fundi ráðsins var óskað eftir upplýsingum frá mannauðsskrifstofu um mögulegt samstarf við Vinnumálastofnun vegna atvinnuátaksverkefnis í þágu aldurshópsins – en þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Ennfremur vekur það furðu að í minnisblaðinu komi fram að einungis hafi verið varið 7,3 milljónum króna til starfseminnar, enda hljóðar samþykkt borgarstjórnar frá afgreiðslu fjárhagsáætlunar upp á 10 milljónir. Í fundargerðum fagráða er hvergi að finna breytingu á þessu. Óvissan er með öllu ólíðandi, en vinnubrögð meirihlutans og meðferð málsins allt kjörtímabilið er ekki til marks um að nokkuð verði aðhafst.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað.
Til skoðunar er á vettvangi íþrótta- og tómstundasviðs með hvaða hætti sé hægt að standa að frístundastarfi fyrir börn í 5.-7. bekk á komandi vetri.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það eru engar fréttir fyrir fulltrúa minnihlutans að unnið sé á sviðinu við að móta starf fyrir börn í 5.-7. bekk. Eins og fram kom í fyrri bókun minnihlutans hefur mikil vinna verið lögð í tillögugerð og þróunarvinnu af hálfu starfsfólks ÍTR sem alltaf hefur strandað í ráðinu. Minnihlutinn ítrekar óánægju sína með metnaðarleysi meirihlutans og krefst úrlausna strax.

8. Lagt fram yfirlit um stöðuna á frístundaheimilum.

9. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 28. ágúst sl. vegna skýrslu starfshóps um samstarf ÍTR og Menntasviðs um rekstur frístundaheimila.

- kl 13:00 vék Sigrún Elsa Smáradóttir af fundi.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Tillögur starfshóps um samþættingu starfs í grunnskólum og frístundaheimilum eru um margt ágætar. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar íþrótta- og tómstundaráðs bjuggust þó við því að frekari útfærslur yrðu reifaðar í skýrslunni og undraðist að nú, ári seinna sé sömu ráðum gefinn mánuður til að vinna útfærslu til kynningar í borgarráði. Útfærslurnar krefjast talsverðar vinnu og er því lagt til að skipaður verði starfshópur kjörinna fulltrúa og embættismanna á þeim sviðum sem tillögurnar varðar, til að vinna hratt og örugglega að farsælli lausn málsins.
Frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun vegna frestunar tillögunnar:
Frestun tillögunnar þýðir að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tekur ekki undir þau sjónarmið sem reifuð eru í tillögunni, og sjá ekki ástæðu til að þess að kjörnir fulltrúar taki þátt í frekari stefnumörkun, enda ljóst að kynning á frekari útfærslum á að fara fram í borgarráði fyrir 1. október. Skipan starfshóps skv. tillögunni á næsta fundi ráðsins hefði því lítið upp á sig. Þetta er í fullu samræmi við fyrri gjörðir meirihlutans sem hefur sýnt málefnum frístundastarfs lítinn áhuga en það sést einna helst í fáum starfshópum á vegum ráðsins og litlum framförum fyrir tilstilli þess í þó afar brýnum málum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað.
Nú þegar er unnið að samþættingu starfs frístundaheimila og grunnskóla á vettvangi ÍTR og menntasviðs og að ákveðnum útfærslum á umræddum tillögum. Íþrótta- og tómstundaráði er og verður haldið upplýstu um þessa vinnu og er aðkoma kjörinna fulltrúa að málinu því vel tryggð. Skoðað verður hvort rétt sé að auka slíka aðkomu en tillaga VG og Samfylkingar var fyrst borin upp á fundinum og því fullkomlega eðlilegt að fresta henni.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óskuðu bókað:
Hlutverk íþrótta- og tómstundaráðs snýst ekki um að afla upplýsinga um áherslur, heldur að móta stefnu. Bókun meirihlutans er því aðeins til marks um að hann hyggist ekki rækja þessar skyldur sínar, né stuðla að frekari framförum í starfinu, heldur halda áfram að láta starfsfólk og embættismenn draga vagninn án stuðnings og afskipta stjórnmálafólks hér eftir sem hingað til.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Stefna íþrótta- og tómstundaráðs í málefnum frístundaheimila er skýr, vinna við mönnun þeirra og annan undirbúning hefur staðið yfir í allt sumar og aldrei staðið betur ef miðað er við sama tíma á fyrri árum. Nú hafa alls borist 2.960 umsóknir um rými á frístundaheimilum borgarinnar. Um 2.530 börn eru komin inn, sem er betri árangur en áður, ekki síst ef haft er í huga að tæplega níu hundruð umsóknir bárust eftir 1. júlí sl. Undanfarið ár hafa starfsmenn ÍTR og menntasviðs unnið að ýmsum verkefnum varðandi samþættingu skólastarfs og frístundastarfs. Ekki er rétt að gera lítið úr þeirri vinnu eins og gert er í bókun VG og Samfylkingar. Starf frístundaheimilanna blómstrar en vonir standa til að hægt verði að bæta rekstur þeirra enn frekar með því að hrinda í framkvæmd ágætum tillögum umrædds starfshóps.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óskuðu bókað:
Enn er ítrekað að fulltrúar meirihlutans áfellast í engu starf sviðsins, heldur beina orðum sínum og gagnrýni á fulltrúa meirihlutans sem ekki hefur staðið sig sem skyldi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað.
Ítrekað er að stefna í málefnum frístundaheimilanna er mótuð af íþrótta- og tómstundaráði og vinna starfsmenn ÍTR gott starf við að fylgja henni eftir.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óskuðu bókað:
Þessi fullyrðing meirihlutans er til marks um að hann telji núverandi ástand ásættanlegt. Upphaflega markmiðið með samþættingu skóla- og frístundastarfs var að bæta stefnuna og efla – en það er fyrst og fremst hlutverk stjórnmálafólks. Meirihlutinn kýs samt sem áður að fela starfsfólki sviðsins að sjá um vinnuna sem er í hæsta máta óábyrgt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ítreka fyrri yfirlýsingar um að stefnt er að því að veita öllum börnum vist á frístundaheimili, sem um hana sækja. Það er stjórnmálamanna að móta stefnuna en framkvæmd hennar er hins vegar í höndum starfsmanna.

10. Rætt um safnfrístund í Frostaskjóli og lagðar fram teikningar.

11. Lagt fram bréf skipulagsráðs dags. 10. sept. sl. varðandi breytingu á deiluskipulagi Gufunes.
ÍTR gerir ekki athugasemdir við framkomnar tillögur.

12. Rætt um reglur um styrki íþrótta- og tómstundaráðs.

13. Kynning á gögnum frá Rannsóknum og greiningu um íþrótta- og félagsstarf unglinga.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir að á næsta fundi fari fram kynning á því starfi sem farið hefur fram í miðstöð ungs fólks í atvinnuleit í Austurbæjarbíói í sumar.

14. Starfsemi Vals kynnt og mannvirki skoðuð.

Fundi slitið kl. 14:00

Kjartan Magnússon
Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Snorri Þorvaldsson Sóley Tómasdóttir
Stefán Benediktsson