No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2013, fimmtudaginn 2. maí var haldinn 184. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi, Jörfa 4. hæð og hófst kl.11.10. Mættir:
Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Bjarni Þór Sigurðsson, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason.
Jafnframt: Frímann Ari Ferdinandsson, Steinþór Einarsson, Gísli Árni Eggertsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram ársskýrsla Fjölnis vegna 2012.
2. Lögð fram forvalsgögn vegna samkeppni um hönnun viðbyggingar við Sundhöllina.
Kl.11.20 kom Kjartan Magnússon á fundinn.
3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks vegna viðræna við Fjölni frá seinasta fundi liður 17:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að taka upp formlegar viðræður við Ungmennafélagið Fjölni vegna aðstöðuvanda félagsins. Í þeim viðræðum verði metnir tiltækir kostir til að bæta aðstöðu fyrir þær greinar félagsins, sem glíma við aðstöðuskort; t.d. fimleika, handknattleik, körfuknattleik, sund og tennis. M.a. verði metnar hugmyndir um viðbyggingu við Egilshöll og samstarf við ríkisvaldið um byggingu íþróttahúss fyrir Borgarholtsskóla. Þá verði skoðað hvort unnt sé að bæta frekar nýtingu skólaíþróttahúsa í hverfinu til hagsbóta fyrir Fjölni.
Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum Bestaflokksins og Samfylkingar gegn 3 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Á yfirstandandi kjörtímabili hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði (ÍTR) reglulega flutt tillögur um aðstöðumál Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi:
• Á fundi ÍTR 14. október 2011 lögðu sjálfstæðismenn til að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar. Skoðað yrði hvort unnt væri að taka húsnæði í hverfinu á leigu til bráðabirgða og útbúa þar aðstöðu með hagkvæmum hætti. Tillögunni var vísað til skoðunar í borgarkerfinu.
• Á fundi ÍTR 27. janúar 2012 lögðu sjálfstæðismenn til að hafnar yrðu formlegar viðræður sem fyrst við Fjölni vegna aðstöðuvanda félagsins.
• Á fundi ÍTR 9. nóvember 2012 samþykkti ráðið tillögu sjálfstæðismanna um að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar.
• Á fundi ÍTR 21. febrúar 2013 lögðu sjálfstæðismenn fram tillögu um að óskað yrði eftir viðræðum milli Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss við Borgarholtsskóla, sem samnýtt verði í þágu skólans og íþróttastarfs Fjölnis. Tillögunni var vísað til skoðunar í samstarfshópi Reykjavíkurborgar og Fjölnis.
Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur almennt sýnt aðstöðumálum Fjölnis lítinn áhuga og virðist sem lítil vinna hafi átt sér stað innan borgarkerfisins við að vinna að umræddum tillögum þrátt fyrir að þær hafi annað hvort verið samþykktar eða vísað til frekari skoðunar. Var því ánægjulegt að formaður ÍTR skyldi lýsa yfir því á afmælishátíð Fjölnis í apríl að til stæði að hefja formlegar viðræður við félagið um aðstöðumál þess. En með slíkum viðræðum væri tillögu sjálfstæðismanna frá 27. janúar 2012 hrundið í framkvæmd. Enn hefur þó hvergi verið lögð fram tillaga af hálfu meirihlutans um að koma þessum viðræðum af stað, hvorki í íþrótta- og tómstundaráði, borgarráði né borgarstjórn þótt nægur tími hafi gefist til þess. Til að bæta úr þessari vanrækslu meirihlutans lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu á fundi ÍTR 12. apríl um að slíkar formlegar viðræður yrðu hafnar. Lýsum við yfir furðu okkar á því að meirihlutinn skuli nú umyrðalaust vísa tillögunni frá.
Lögð fram eftirfarandi bókun Besta flokksins og Samfylkingar:
Meirihluti Besta Flokks og Samfylkingarinnar hefur rætt stöðu á aðstöðumálum Fjölnis allt þetta kjörtímabili, einkum undanfarin 2 ár enda var samþykkt tillaga sjálfstæðismanna þann 9. nóvember 2012 um leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda félagsins vegna inniíþrótta enda voru fulltrúar meirihlutans því löngu fylgjandi.
Fjöldi tillagna að lausn húsnæðisvanda hafa verið skoðaðar en ákveðið mat hefur farið fram hvað sé besta framtíðarlausnin m.a. í tengslum við uppbyggingu íþróttasvæða í nágrannahverfum.
Meirihlutinn vísar því alfarið á bug að aðstöðumálum Fjölnis hafi verið sýndur lítill áhugi og er það pólitískur fyrirsláttur af hálfu meirihluta Sjálfstæðisflokksins að stilla málinu upp á þann hátt sem endurspeglast í bókuninni. Formlegar viðræður við Fjölni eru að hefjast og málið komið í ferli innan borgarkerfisins.
4. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra rekstrar- og þjónustu og fjármálastjóra vegna lengri opnunartíma sundstaða yfir sumarið.
5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 4. mars sl. með ósk um umsögn um umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar.
Frestað.
6. Skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustu sagði frá stöðu framkvæmda við starfsstaði ÍTR sem fram undan eru í Breiðholtslaug, Vesturbæjarlaug, Sundhöll og Fjölskyldu- og húsdýragarði.
7. Lagt fram bréf Klifurfélagsins dags. 24. apríl sl. vegna aðstöðumála.
Vísað til formanns og framkvæmdastjóra til skoðunar.
8. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra ÍTR dags. 30. apríl sl. um Tónlistarþróunarmiðstöðina.
9. Lögð fram tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar apríl - maí 2013 vegna fjárhagsáætlunar 2014.
10. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 8. mars sl. þar sem óskað er eftir umsögn um brú yfir Fossvogsdal.
Lögð fram eftirfarandi umsögn meirihluta:
Fyrir liggja ítarlegar upplýsingar og gögn um áhrif brúar yfir Fossvog á starfsemi siglingaklúbba í Nauthólsvík og Ylstrandar. Ljóst er að slík brú opnar á marga spennandi möguleika fyrir höfuðborgarsvæðið.
Fyrir starfsemi Íþrótta- og tómstundarráðs er ýmislegt sem þarf að huga að. Mælst er til þess að vandlega verði farið yfir meðfylgjandi gögn áður en endanleg ákvörðun verður tekin um staðsetningu og fyrirkomulag brúarinnar. Gögnum þessum verði komið til borgarráðs og skýrsluhöfunda.
Samþykkt með 4 atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
kl. 11.55 kom Ómar Einarsson á fundinn.
11. Lagt fram bréf Siglingasambands Íslands dags. 22. apríl sl. vegna brúar yfir Fossvog.
Fundi slitið kl. 12.30.
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Björn Gíslason Marta Guðjónsdóttir