Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2013, föstudaginn 22. nóv. var haldinn 196. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 11.05. Viðstödd: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Bjarni Þór Sigurðsson, Björn Gíslason og Marta Guðjónsdóttir. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 10. okt. sl. vegna tillögu frá Reykjavíkurráði ungmenna um aukna starfsemi fyrir 16 ára og eldri. Á fundinn kom Elínrós Birta Jónsdóttir frá ungmennaráði Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts og kynnti tillöguna. Eygló Rúnarsdóttir frá skóla- og frístundasviði sat fundinn undir þessum lið.

2. Lögð fram skýrsla um sumarstörf hjá Reykjavíkurborg. Á fundinn komu Ragnhildur Ísaksdóttir og Sigurbjörg Birgisdóttir og kynntu skýrsluna.

Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hversu margar vikur og vinnustundir liggja að baki sumarstörfum sem í boði eru hjá Reykjavíkurborg og hvernig þróunin hefur verið á undanförnum árum. 3. Lagt fram að nýju bréf Lyftingafélags Reykjavíkur dags. 14. okt. sl. Einnig lögð fram umsögn ÍBR dags. 15. nóv. sl. um málið.

4. Lagt fram bréf Glímufélagsins Ármanns dags. 11. nóv. sl. vegna skíðaskála félagsins í Bláfjöllum. Vísað til meðferðar styrkjahóps.

5. Lagt fram bréf Blaksambands Íslands dags. 7. nóv. sl. vegna Evrópukeppni Smáþjóða í blaki 6.-8. júní 2014 í Reykjavík. Vísað til framkvæmdastjóra.

6. Lagt fram yfirlit um afgreiðslutíma sundstaða um jól og áramót.

Lögð fram eftirfarandi bókun: Íþrótta- og tómstundaráð telur mjög bagalegt að opnun nýs heita pottar í Vesturbæ tefjist jafnmikið og raun ber vitni. Það er óásættanlegt fyrir gesti sundlaugarinnar, enda veldur þetta röskun og ljóst er að færri komast að en vilja á kvöldin í potta Vesturbæjarlaugarinnar - sem einmitt var tilefni byggingar hans. Ráðið hefur ætíð lagt mikla áherslu á uppbyggingu laugarinnar og óskar að framkvæmdinni verði flýtt eftir föngum.

7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 6. nóv. sl. þar sem fram kemur að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 5. nóvember sl. um eflingu hreyfingar í þágu eldri borgara hafi verið vísað til Velferðarráðs og ÍTR. Vísað til ÍBR til skoðunar.

8. Lagt fram bréf UMFÍ dags. 15. nóv. sl. vegna íþróttaiðkunar almennings.

9. Lagt fram bréf ÍBR dags. 12. nóv. sl. vegna grunnskólamóts höfuðborga Norðurlanda í Stokkhólmi í maí 2014.

10. Niðurstöður hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og útilaug við Sundhöllina.

Lögð fram eftirfarandi bókun Besta flokksins og Samfylkingar: Íþrótta- og tómstundaráð óskar sigurvegurum hugmyndasamkeppninnar innilega til hamingju með velheppnaða tillögu og útfærslu sem gerir byggingarlist hússins hátt undir höfði, en tillagan skyggir ekki á hönnun Sundhallarinnar. Í tillögunni má sjá að horft er til þeirra þátta sem nauðsynlegir eru við rekstur sundlaugar og gert er ráð fyrir 25 metra langri útisundlaug, nýjum pottum, vaðlaug og nýju eimbaði og annarri aðstöðu fyrir almenning. Einnig er gert ráð fyrir að byggja nýja búningsklefa, þar sem horft er til að bæta aðgengi fatlaðra sem nú er ábótavant í Sundhöllinni. Íþrótta- og tómstundaráð vil hins vegar benda á að við framkvæmdina má tengja milli útisvæða þ.e. núverandi potta og hins nýja svæðis - sem stækkar svæðið talsvert. Þá er íþrótta- og tómstundaráð ennfremur mjög hrifið að hugmyndinni um slökunargarð sem finna mátti í þeirri tillögu sem hlaut annað sætið sem rímar vel við þær áherslur eru komu fram í skýrslunni Laugarnar í Reykjavík. Í áðurnefndri skýrslu, sem samþykkt var í borgarstjórn á þessu ári, var sett fram fjárfestingaráætlun um uppbyggingu í takt við þróun byggðar. Fyrsti liður þeirrar tillögu er viðbygging við Sundhöllina. Viðbygging hefur þá kosti umfram nýbyggingu, að hún er ódýrari þegar á heildina er litið. Þegar eru til staðar rekstarinnviðir - og því aðeins um að ræða viðbót við rekstarkostnað auk byggingarkostnaðar, en ekki nýjan rekstarlið í efnahagsreikning borgarinnar. Samkvæmt nýju aðalskipulagi eru svæði í námunda við Sundhöllina líkleg til að vaxa umtalsvert í íbúafjölda á næstu árum og að sama skapi hefur fjölgað mjög þeim ferðamannafjölda sem sækir laugarnar heim. Sá fjöldi fer ört vaxandi á milli ára. Til lengri tíma mun því ný viðbygging létta af miklum gestafjölda Laugardalslaugarinnar, sem telja nauðsynlegt ef litið er til þróunar í ferðaþjónustu, þannig að íbúar borgarinnar geti jafnframt notið þeirra gæða sem felast í laugunum okkur í góði samlæti. ÍTR fagnar því ennfremur að borgarráð hafi samþykkt framkvæmd tillögunnar og leggur áherslu á að framkvæmd viðbyggingar verði hrundið í framkvæmd sem allra fyrst.

Lögð fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna telja eðlilegt að sundlaug í Grafarholti-Úlfarsárdal verði í forgangi þar sem ófremdarástand ríkir í sundkennslu í þessum barnmörgu hverfum vegna þrengsla og eru börn þaðan nú send í skólasund í annað sveitarfélag. Þá er æskilegt að viðbygging við Sundhöllina verði byggð í sama stíl og eldri hluti hússins.

Lögð fram eftirfarandi bókun Besta flokksins og Samfylkingar: Meirihluti Íþrótta - og tómstundaráðs hefur ætíð lagt áherslu á að nauðsyn sé að bregðast við þeim vanda í sundkennslu í Úlfarsárdal enda er á framkvæmdaráætlun meirihlutans að byggja almenningssundlaug í Úlfarsárdal. Fögnum við því að minnihlutinn sé okkur sammála í þeim efnum.

11. Lögð fram skýrsla starfshóps ÍTR, ÍBR og tennisdeilda í Reykjavík um tennisaðstöðumál. Frestað.

12. Lagt fram bréf Mennta- og menningarmálaráðuneytisins dags. 14. nóvember sl. vegna könnunarinnar Ungt fólk.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar dags. 20. nóvember sl. þar sem tilkynnt er að Bjarni Þór Sigurðsson taki sæti Stefáns Benediktssonar sem aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði og að Guðmundur Vignir Óskarsson taki sæti Bjarna sem varamaður. Hafrún Kristjánsdóttir tekur sæti sem varamaður í stað Óskars Arnar Guðbrandssonar.

Fundi slitið kl. 12.55.

Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Björn Gíslason