Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2009, föstudaginn 13. nóvember var haldinn 98. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 12:15. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sigfús Ægir Árnason, Sóley Tómasdóttir, Oddný Sturludóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍBR dags. 20. okt. sl. vegna skólamóts höfuðborga Norðurlanda í Reykjavík 2011.
Samþykkt og vísað til framkvæmdastjóra ÍTR og ÍBR.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 10. nóvember sl. vegna bókunar hverfaráðs Árbæjar um Mest húsið í Norðlingaholti.

3. Lagt fram bréf Karatefélags Reykjavíkur dags. 11. nóv. sl. vegna aðstöðumála félagsins.
Vísað til skoðunar Framkvæmda- og eignasviðs og framkvæmdastjóra ÍTR.

4. Lögð fram samstarfsyfirlýsing milli ÍBR, SAMFOK og ÍTR um aukið samstarf þessara aðila í sérstöku forvarnarverkefni varðandi börn og ungmenni til að koma í veg fyrir brottfall ungmenna úr íþróttum.

5. Lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 21. okt. sl. vegna samþykktar borgarstjórnar á tillögu um að leita leiða eftir samstarfi við Strætó um fræðslu fyrir eldri börn í frístundaheimilum.

6. Lögð fram skýrsla jafningjafræðslunnar 2008-2009.

7. Lögð fram skýrsla um íþróttaskóla í frístundaheimilum.
Íþrótta-og tómstundaráð þakkar fyrir gott starf og felur starfsmönnum að efla kynningu á íþróttaskólanum.

8. Lagt fram bréf Hestamannafélagsins Fáks og Norðlingaskóla með ósk um styrk vegna náms í hestamennsku.
Vísað til afgreiðslu styrkja.

9. Lagt fram minnisblað dags. 13. nóv. sl. um samstarf frístundaheimila með tómstundaðilum í hverfum.

10. Lögð fram eftirfarandi tillaga Vinstri grænna:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að veita árlega hvatningarverðlaun fyrir vel unnið starf í frístundaheimilum að fyrirmynd hvatningarverðlauna leikskólaráðs.
Samþykkt samhljóða og vísað til framkvæmdastjóra.

11. Lögð fram deiliskipulagstillaga varðandi lóð Vesturbæjarskóla með tilliti til boltagerðis.

12. Lagt fram bréf skólastjóra Húsaskóla dags. 10. nóvember sl. með umsókn um sparkvöll á lóð skólans.
Vísað til Framkvæmda- og eignasviðs og Skipulagssviðs.

13. Lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 21. okt. sl. vegna samþykktar borgarstjórnar á siðareglum fyrir kjörna fulltrúa.

14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 29. október sl. varðandi reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra íþróttasviðs og skrifstofustjóra tómstundasviðs dags. 11. nóvember sl. vegna samnings um starfsemi og rekstur á Kjalarnesi.

16. Lagt fram yfirlit yfir umsóknir um styrki til íþrótta- og tómstundaráðs.

17. Fundir í hverfum.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að efna til opinna íbúafunda í hverfum borgarinnar í samstarfi við menntaráð. Á fundunum verði kynning á íþrótta-, tómstunda- og menntamálum í viðkomandi hverfum og sérstök áhersla lögð á að kalla eftir viðhorfum íbúa til þeirra, sem og til nýrra menntastefnu, sem nú er unnið að á vegum borgarinnar.

18. Lögð fram eftirfarandi tillaga Samfylkingar og Vinstri grænna:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur vekur athygli á og fordæmir harðlega vafasamar auglýsingar framleiðenda og innflytjenda bjórdrykkja í fjölmiðlum, ekki hvað síst í Ríkissjónvarpi allra landsmanna upp á síðkastið. Auglýsingum þessum er ætlað að ýta undir bjórdrykkju og er það ekki hvað síst ungt fólk sem verður fyrir áhrifum, enda auglýsingunum bersýnilega ætlað að höfða sem mest til þeirra. Hjákátleg tilraun til að koma lögmætum stimpli á auglýsingarnar með útþynntum prósentutölum hlýtur að misbjóða öllu sæmilega upplýstu fólki. Æskulýðshreyfingin í landinu hlýtur að fordæma þetta háttarlag og furða sig á vinnubrögðum Ríkissjónvarpsins í ljósi þeirra dóma sem nýlega hafa fallið í málum sem þessum.
Frestað.

19. Lögð fram sameiginleg bókun íþrótta- og tómstundaráðs.
Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir bókun borgarráðs vegna umræðna um málefni Knattspyrnusambands Íslands. Þar er ákvæði mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar áréttað, sem skuldbindur borgaryfirvöld til að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Íþrótta- og tómstundaráð leggur áherslu á að stuðla að því að bæta heilsu og vellíðan borgarbúa í hvívetna. Starf í þágu barna og ungmenna er þar sérstaklega mikilvægt, enda forvarnargildi íþrótta óumdeilt. Íþrótta- og tómstundaráð tekur því undir brýningu borgarráðs um að forsvarsfólk íþróttafélaga og sambanda ástundi þau vinnubrögð sem eru þeirra góða og mikilvæga starfi til sóma ásamt hvatningu um stefnumörkun á þessu sviði sem komið geti í veg fyrir að atvik sem þetta endurtaki sig.

Fundi slitið kl. 14:00

Kjartan Magnússon
Valgerður Sveinsdóttir Sigfús Ægir Árnason
Marta Guðjónsdóttir Sóley Tómasdóttir
Oddný Sturludóttir Stefán Jóhann Stefánsson