Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2002. Föstudaginn 30. ágúst var haldinn 308. fundur íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl. 12:10. Viðstaddir voru: Anna Kristinsdóttir formaður, Ingvar Sverrisson, Jóhannes Sigursveinsson, Kjartan Magnússon, Benedikt Geirsson og Reynir Ragnarsson. Jafnframt: Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Gísli Árni Eggertsson aðstoðar-framkvæmdastjóri. Fundarritari: Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf Bandalag Íslenskra farfugla dags. 13. ágúst sl. varðandi tjaldstæðið í Laugardal. Vísað til Fasteignastofu.

2. Lagt fram bréf forstöðumanns íþróttafræðaseturs KHÍ dags. 9. ágúst sl. með ósk um styrk vegna rannsókna á heilsufari barna í Reykjavík. Vísað til aðstoðarframkvæmdastjóra.

3. Lagt fram bréf hússtjórnar KR dags. 6. ágúst sl. varðandi ýmis viðhaldsmál félagsins. Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

4. Rætt um endurnýjun samninga við íþróttafélög vegna starfsmanna o.fl. Vísað til framkvæmdastjóra.

5. Eftirfarandi skipan fulltrúa í starfsnefndir á vegum ráðsins samþykkt: Þjóðhátíðarnefnd: Anna Kristinsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé frá meirihluta og Kjartan Magnússon frá minnihluta. Afreks- og styrktarsjóður: Anna Kristinsdóttir og Ingvar Sverrisson frá meirihluta og Benedikt Geirsson frá minnihluta. Stjórn Skautahallar: Logi Sigurfinnsson. Reykjavíkurmaraþon: Knútur Óskarsson

6. Kynnt fyrirhuguð ráðstefna um innleiðingu Smartkorta hjá sveitarfélögum 16. sept. n.k.

7. Rætt um umsókn knattspyrnudeildar Fjölnis um skemmtun í IMG. Formaður lagði fram svofellda tillögu: Íþrótta- og tómstundaráð heimilar fyrir sitt leyti afnot af húsnæði Íþróttamiðstöðvarinnar í Grafarvogi fyrir dansleik fyrir stuðningsmenn íþróttafélagsins. Jafnframt bendir íþrótta- og tómstundaráð á að ráðið er ekki tilbúið að ganga í ábyrgð við veitingu tækifærisleyfis til áfengisveitinga. Samþykkt samhljóða.

Kl. 13:10 vék Reynir Ragnarsson af fundi.

8. Æskulýðsfulltrúi og verkefnisstjóri frístundaheimila komu á fundinn og kynntu starfsemi frístundaheimila í skólum. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu: Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að skipaður verði vinnuhópur til þess að fara yfir málefni frístundaheimilanna og skila tillögum fyrir 15. október n.k. til íþrótta- og tómstundaráðs. Samkvæmt tillögu borgarráðs þann 16. apríl 2002 var samþykkt að frá og með hausti 2002 skyldi skilið á milli skólastarfs og tómstundastarfs í skólum fyrir börn í grunnskólum borgarinnar á aldrinum 6-9 ára. Umsjón þessa starfs yrði fært frá Fræðslumiðstöð til ÍTR. ÍTR hefur þannig tekið að sér starfrækslu skólavistar-frístundaheimila í þrem áföngum í borginni og nauðsynlegt er að skoða með hvaða hætti það starf fari best fram. Þeir þættir sem sérstaklega þyrftu að kanna væru: Samskipti starfsmanna ÍTR og starfsmanna skólanna. Gjaldskrá verkefnisins. Samþykkt samhljóða. Í vinnuhópnum munu sitja: Anna Kristinsdóttir, Kjartan Magnússon og Soffía Pálsdóttir.

9. Æskulýðsfulltrúi kynnti niðurstöður skoðunarkönnunar sem fram fór á meðal foreldra barna á sumarnámskeiðum ÍTR.

10. Lögð fram að nýju tillaga sjálfstæðismanna frá seinasta fundi um veggjakrot: Í framhaldi af átaki Reykjavíkurborgar og fleiri aðila gegn veggjakroti er æskilegt að gripið verði til víðtækari aðgerða til að stemma stigu við slíku háttalagi. Íþrótta- og tómstundaráð felur framkvæmdastjóra að ganga til viðræðna um slíkt við fyrirtæki eða aðila sem búa yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Greinargerð Veggjakrot hefur færst í aukana í Reykjavík á undanförnum árum og má jafnvel líkja því við faraldur í sumum hverfum borgarinnar. Ekki er lengur um það að ræða að veggjakrot sjáist helst á afviknum stöðum, heldur virðist sem krotvargar leggi æ meiri áherslu á að krota, úða og mála á framhliðar íbúðarhúsa, veggi verslana og fyrirtækja og jafnvel á hliðar sendibíla til að sem flestir sjái verk þeirra. Veggjakrot er alþjóðlegt vandamál og hafa upplýsingar borist um að erlendir krotvargar hafi komið til Íslands gagngert í þeim tilgangi að vinna slík skemmdarverk. Ljóst er að einstaklingar og fyrirtæki verða árlega fyrir miklu eignatjóni vegna veggjakrots. Auk mikils kostnaðar vegna þrifa og málningarvinnu veldur það húseigendum margvíslegum óþægindum sem ekki verða metin til fjár, t.d. vegna sjónmengunar. Í sumar hefur staðið yfir sérstakt átak gegn veggjakroti á vegum Reykjavíkurborgar, Hörpu-Sjafnar og fleiri aðila. Snýst það um að má út eða mála yfir veggjakrot og er því ekki fyrirbyggjandi í sjálfu sér. Átakið hefur einnig þann annmarka að það er einvörðungu bundið við eignir borgarinnar en ljóst er að einstaklingar og fyrirtæki hafa einnig orðið fyrir miklum eignaspjöllum af völdum veggjakrots. Ekki er hægt að útiloka að átak, sem miðast einvörðungu við borgareignir, geti haft þær afleiðingar í för með sér að krotvargar beini brúsum sínum í ríkari mæli að eignum einstaklinga og fyrirtækja. Því er æskilegt að slíkt átak beinist gegn öllu veggjakroti með það að markmiði að verja jafnt eignir einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Vegna sívaxandi veggjakrots er brýnt að grípa til markvissra aðgerða gegn slíkum háttalagi með áherslu á forvarnarstarf. Því er lagt til að leitað verði liðsinnis fyrirtækis eða aðila, sem hafa sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Samþykkt samhljóða og framkvæmdastjóra falið að kanna málið frekar.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi tillögu: Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að skipaður verði þriggja manna starfshópur sem fari yfir málefni þeirra hópa sem stunda svokallaðar "Jaðaríþróttir" og komi með tillögu um lausn á aðstöðuvanda þessara hópa og kanni möguleika á uppbyggingu útivistarmiðstöðvar í borgarlandinu. Útivist og iðkun jaðaríþrótta hefur stóraukist á undanförnum árum meðal borgarbúa og hefur ÍTR leitast við að leysa þarfir þessara hópa í tengslum við annað starf og þá tímabundið. Nú er svo komið að þegar þessi gríðarlega aukning hefur orðið á iðkuninni, verður að leita annarra leiða og reyna að finna lausn á þörfum þessa hóps til lengri tíma. Starfshópurinn hafi að leiðarljósi: § Að kanna hugsanlega staðsetningu innan borgarinnar sem væri hentug fyrir þessa starfsemi og aðgengileg fyrir alla borgarbúa. § Að kanna möguleika á uppbyggingu og skipulagi útivistarmiðstöðvar. § Að kanna þá starfsemi sem fyrir er hjá borginni og hvort hægt sé að samnýta mannvirki og þjónustu til að leysa út vanda þessara hópa. § Að kanna þarfir þeirra sem stunda almenna útivist og jaðaríþróttir. Samþykkt samhljóða. Í starfshópnum munu sitja: Ingvar Sverrisson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Benedikt Geirsson.

Fundi slitið kl. 14:00

Anna Kristinsdóttir

Ingvar Sverrisson Jóhannes Sigursveinsson
Kjartan Magnússon Benedikt Geirsson