No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2007, föstudaginn 1. júní var haldinn 49. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 09:05. Mættir: Bolli Thoroddsen, Björn Gíslason , Kristján Guðmundsson, Hermann Valsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Magnús Már Guðmundsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri ÍTR, Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 15. maí sl. vegna Reykjavíkurráðs ungmenna.
Skrifstofustjóra tómstundamála falið að vinna að gera tillögu um setu unglinga á fundum ráðsins.
2. Lagt fram bréf Menntamálaráðuneytisins dags. 16. maí sl. vegna nýrra laga um æskulýðsmál.
Kl. 09:15 kom Björn Ingi Hrafnsson á fundinn.
3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 11. maí sl. vegna styrkumsóknar frá Golfklúbbi Bakkakots.
Erindinu er hafnað.
4. Lagður fram sumarstarfsbæklingur ÍTR.
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra tómstundamála dags. 29. maí sl. vegna frístundaheimila og lengdrar viðveru fatlaðra barna.
Tillögur þær sem fram koma í bréfi skrifstofustjóra tómstundamála samþykktar.
6. Lögð fram skýrsla ÍBR um íþróttaskóla í frístundaheimilum.
7. Lagt fram að nýju bréf Brokeyjar dags. 30. apríl sl. vegna sumarstarfs. Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra ÍTR dags. 2. maí sl. um málið.
Tillögur sem fram koma í minnisblaði skrifstofustjóra ÍTR samþykktar.
8. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra ÍTR dags. 29. maí sl. vegna þriggja mánaða uppgjörs ÍTR.
9. Lagðir fram skipulagsuppdrættir af íþróttasvæði í Úlfarsárdal.
10. Lagðir fram skipulagsuppdrættir af Gufunessvæðinu.
11. Lagt fram bréf Takwandodeildar Fram dags. 16. maí sl. með ósk um styrk.
Samþykkt að styrkja deildina um 250.000 kr.
12. Lagt fram bréf ÍR dags. 14. maí sl. vegna skattamála íþróttafélaganna.
Vísað til sviðsstjóra.
13. Lagðir fram minnispunktar framkvæmdastjóra ÍBR dags. 30. maí sl. vegna æfingagjalda íþróttafélaga.
14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Breiðholts dags. 23. maí sl. þar sem óskað er eftir styrk vegna rannsóknar á íþrótta- og félagsþátttöku barna af erlendum uppruna í Breiðholti.
Samþykkt.
15. Lagt fram að nýju minnisblað sviðsstjóra dags. 8. maí sl. varðandi Frístundakortið. Jafnframt lagðir fram minnispunktar skrifstofustjóra ÍTR dags. 31. maí sl. ásamt reglum og skilyrðum varðandi frístundakortið.
Tillaga um reglur og skilyrði frístundakortsins samþykkt. Fulltrúi V-grænna sat hjá.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tilkoma Frístundakortsins er sannarleg bylting í íþrótta- og æskulýðsmálum í borginni. Með því gefst öllum börnum í borginni, 6 til 18 ára, kostur á því að stunda íþróttir, listnámskeið eða aðra viðurkennda frístundastarfsemi á eigin forsendum og óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortið mun þannig auka á jöfnuð í samfélaginu. Frístundakortið mun hafa bein áhrif á fjölskyldur 20 þúsund barna og unglinga í Reykjavíkurborg og er eitthvert stærsta samfélagsverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Er starfsfólki ÍTR þökkuð frábær vinna í undirbúningi þessa máls, sem er það stærsta sem íþrótta- og tómstundaráð hefur ráðist í.
Fulltrúi V-grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna harmar að ekki hafi náðst þverpólitísk samstaða um frístundakort. Vinstri græn telja þá skilmála sem nú liggja fyrir ekki tryggja jöfnuð með nægilega skýrum hætti, enda sé ekki tryggt að öll börn og unglingar í Reykjavík geti nýtt kortin til þess uppbyggilega frístundastarfs sem þau kjósa. Það markmið sem upphaflega var lagt til grundvallar, að auðvelda börnum og unglingum í Reykjavík að sinna uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag fjölskyldna fer fyrir lítið, ef styrkurinn nær aðeins til frjálsra félagasamtaka og einkaaðila. Sú ákvörðun ber þess merki að verið sé að hygla einkaaðilum, á kostnað gæða í frítímastarfi með börnum. Þyngst vegur í þessu samhengi sú ákvörðun að ekki verði hægt að greiða fyrir frístundaheimili ÍTR með frístundakortinu frá upphafi. Það er verulega mótsagnakennt ef sami aðili og hefur þróað faglegt frítímastarf fyrir börn á aldrinum 6-9 ára til fjölda ára hvetur nú foreldra til að beina viðskiptum sínum annað. Starfsemi frístundaheimilanna mun bíða hnekki og börn sem virkilega þurfa á þjónustu frístundaheimilanna að halda munu missa af henni sökum bágrar efnahagsstöðu. Markmið með rekstri frístundaheimila borgarinnar er að þar séu börn á aldrinum 6-9 ára kynnt fyrir uppbyggilegu frístundastarfi, auk þess sem unnið er að auknum þroska á sviði félagsfærni, samskipta og gagnkvæmrar virðingar meðal barna. Þarna er um að ræða afar faglegt frítímaumhverfi sem uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru fyrir notkun kortsins og því einkennilegt ef foreldrar fá ekki að velja þann kost. Auk þess vekur skilgreining á opinberri þjónustu furðu, í ljósi fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007. Þar er áætlað framlag til frístundaheimilanna tæpar 650 milljónir á meðan rúmlega 2.500 milljónir eru á ætlaðar í styrki. Stór hluti styrkjanna fer til íþróttafélaganna, með einum eða öðrum hætti. Vinstri græn geta því ekki stutt tillöguna eins og hún er sett fram í dag. Það er þó von fulltrúans að þetta grundvallaratriði verði lagfært þegar fram líða stundir, svo raunverulegur jöfnuður eigi sér stað og Íþrótta- og tómstundasvið geti áfram unnið stolt að þeirri uppbyggilegu og faglegu þjónustu sem frístundaheimili borgarinnar veita.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar í ÍTR fagna innleiðingu frístundakorts. Með tilkomu þess munu skapast miklir möguleikar á því að efla íþrótta-, tómstunda- og listastarf meðal barna og unglinga í borginni. Enda er fyrirmyndin sótt til Samfylkingarinnar í Hafnarfirði þar sem frístundakort hafa verið í notkun um nokkurra ára skeið. Búast má við að með tilkomu frístundakortsins muni fjölbreytni frístundatilboða aukast og er það vel. Eitt að mikilvægustu markmiðum með innleiðingu frístundakortsins er að auka jöfnuð til frístundaiðkunar sem aftur leiðir til minni flokkunar og aðgreiningar í samfélaginu og eru allar aðgerðir í þá átt mjög af hinu góða. Í þessu ljósi telja fulltrúar Samfylkingar að gera eigi þær kröfur til þess tómstundastarfs sem hæft þykir til nýtingar á tómstundastyrkjum, að starfsemin sé öllum opin og aðgengileg óháð trúarskoðunum eða annarri þjóðfélagsaðstöðu. Varðandi nýtingu kortanna á frístundaheimilum binda fulltrúar Samfylkingar miklar vonir við að jákvæð umsögn komi frá starfshópi um heildstæðan skóladag sem fengið hefur það verkefni að fara yfir kosti þess og galla að heimila nýtingu frístundakortanna á frístundaheimilum. Á frístundaheimilum borgarinnar er rekið framúrskarandi frístundastarf fyrir börn á aldrinum 6-9 ára frá því að skóla líkur og til klukkan fimm. Tilkoma frístundaheimilanna var mikið framfaraskref enda samfella í skóla og tómstundum mikilvæg þessum aldurshóp. Frístundaheimilin eru í sífelldri þróun og hefur samstarf við íþróttafélög og veitendur annarra tómstundatilboða í hverfum borgarinnar verið að aukast og þróast. Fulltrúum Samfylkingar í ÍTR þykir einsýnt að það væri til að efla heildstæðan skóladag, auka notkunarmöguleika yngstu notendanna og auka enn á áhrif kortanna til jöfnunar tækifæra ef hægt væri að nýta frístundakortin á frístundaheimilum.
Fundi slitið kl. 10:35.
Björn Ingi Hrafnsson
Bolli Thoroddsen Björn Gíslason
Kristján Guðmundsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Hermann Valsson Magnús Már Guðmundsson