Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 255

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2016, föstudaginn 2. desember var haldinn 255. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Hofi og hófst kl. 11:07. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Bjarni Þór Sigurðsson varamaður fyrir Tomasz Chrapek, Dóra Magnúsdóttir og Trausti Harðarson. Einnig: Ingvar Sverrisson áheyrnarfulltrúi ÍBR, Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Steinþór Einarsson skrifstofutjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR, dags. 30. nóvember sl., vegna ferða starfsmanna og kjörinna fulltrúa 2016.

2. Lagt fram bréf Skíðagöngufélagsins Ullar, dags. 27. nóvember sl., varðandi aðstöðu í Bláfjöllum.

- Kl. 11:13 taka Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR, dags. 30. nóvember sl., vegna uppgjörs á viðhaldskostnaði íþróttafélaga.

Samþykkt og vísað til meðferðar sviðsstjóra.

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR, dags. 1. desember sl., vegna hátíðarhaldanna 17. júní.

Tillaga sviðsstjóra um að hátíðin verði flutt til MOF samþykkt.

Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Þjóðhátíðarnefnd hefur starfaði frá 1944 en var lögð niður í árslok 1982 og tók þá æskulýðs- og tómstundaráð við af henni. Frá 1983 hafa Æskulýðs- og tómstundaráð og frá 1986 Íþrótta- og tómstundaráð séð um allan undirbúning og framkvæmd 17. júní hátíðarhaldanna í Reykjavík. Íþróttaviðburðir, íþróttasýningaratriði og æskulýðsfélög hafa verið í hávegum höfð á 17.júní frá upphafi til dagsins í dag. Framsóknar og flugvallarvinum finnst nauðsynlegt að Þjóðhátíðarhátíð 17.júní og Þjóðhátíðarnefnd sé í hávegum höfð innan Reykjavíkurborgar. Undanfarin ár hefur fjárframlag Reykjavíkurborgar til að halda 17.júní farið úr rúmlega 40.milljónum niður í u.þ.b. 10 milljónir og síðustu ár hefur um helmingur fjárframlagsins farið í að greiða öðrum sviðum borgarinnar fyrir sína þjónustu s.s. þrif á götum og fleira sem ekki var áður tekið af sjóðum Þjóðhátíðarnefndar. Fyrir rúmlega tveimur árum viðraði borgarstjóri að færa til 17.júní hátíð í Reykjavík og halda upp á daginn 19.júní. Má af þessu öllu meta að vernda þurfi Þjóðhátíðarhöldin 17. júní í Reykjavík, Þjóðhátíðarnefnd og tengingar hátíðarhaldanna við íþróttir og æskulýðsstarf.

Fulltrúar Sjálfstæðiflokksins og Framsóknar- og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja rétt að skipulagning og umsjón hátíðarhalda vegna þjóðhátíðar 17. júní verði ekki flutt frá íþrótta- og tómstundaráði. ÍTR hefur annast hátíðarhöldin áratugum saman með góðum árangri og er því til staðar dýrmæt þekking og reynsla á málinu innan sviðsins. Litið hefur verið svo á að með því að fela ÍTR umsjón hátíðarhaldanna væri lögð áhersla á tengsl þeirra við æsku borgarinnar og þátttöku íþrótta- og æskulýðsfélaga í þeim. Undanfarin ár hefur hins vegar markvisst verið dregið úr umfangi hátíðarhaldanna 17. júní og er það lýsandi fyrir metnaðarleysi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gagnvart þjóðhátíðinni.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg heldur hátíðlega upp á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní ár hvert og hefur það verkefni verið á höndum Íþrótta- og tómstundaráðs til margra ára og gert það með sóma. Nú stendur til að verkefnið verði fært til menningar- og ferðamálaráðs og Höfuðborgarstofu sem hafa á sínum höndum aðrar hátíðir borgarinnar. Þar starfar fagfólk allan ársins hring að viðburðarstjórnun og er það mat meirihlutans að þeir sem vinna alla jafna við skipulagningu stórra borgarhátíða séu best til þess fallnir að sinna þessu verkefni og að vinnutengd sem og fjárhagleg samlegðaráhrif verði mest undir stjórn starfsfólks Höfuðborgarstofu.

5. Samþykkt að 3 fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna skipti með sér setu á fundum ráðsins.

6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 253. fundi, liður 10:

Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til KFUM og K til að unnt verði að ljúka byggingu svefnskála í Vatnaskógi. Framkvæmdir hófust 2007 og hefur Reykjavíkurborg þegar veitt styrk til verksins en vegna áfalla í efnahagslífi, brugðust aðrar leiðir við fjármögnun þess að töluverðu leyti. Verkið er þó vel á veg komið en umtalsverð vinna eftir innanhúss. Hinn nýi skáli mun fullnægja öllum kröfum eldvarna- og heilbrigðiseftirlits en eldra húsnæði er ábótavant hvað slíkar kröfur varðar. Á hverju ári dvelja þúsundir reykvískra barna og ungmenna í Vatnaskógi og taka þar þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi.

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi, liður 8:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að fram fari þarfagreining á aðstöðu fyrir fimleikaíþróttir í vesturhluta borgarinnar. Í þeirri vinnu verði m.a. skoðað hver sé ákjósanlegasta staðsetning fimleikahúss m.t.t. gönguleiða barna í Vesturbænum og tengingar við strætisvagnaleiðir.

Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum gegn 2.

Fundi slitið kl. 12:15

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Dóra Magnúsdóttir

Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir Trausti Harðarson

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 2.12.2016 - prentvæn útgáfa