Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, föstudaginn 25. mars var haldinn 133. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 11.05. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Jafnframt: Sóley Tómasdóttir varaáheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Tilnefning í þjóðhátíðarnefnd. Samþykkt að Eva Einarsdóttir verði formaður, Diljá Ámundadóttir og Marta Guðjónsdóttir sitja jafnframt í nefndinni.
2. Lögð fram tillaga starfshóps um úthlutun styrkja ráðsins.
Frestað.
kl. 11.15 kom Ingvar Sverrisson á fundin.
kl. 11.30 kom Eva Baldursdóttir á fundinn.
3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 10. mars sl. vegna starfshóps um samþætt skóla- og frístundastarf 6-9 ára barna í Reykjavík.
4. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. mars sl. vegna skýrslu um sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Jafnframt lagðar fram umsagnir frá verkefnisstjórum frístundaheimila, starfsmönnum frístundaheimila, forstöðumönnum frístundamiðstöðva og ungmennaráðum vegna málsins ásamt öðrum umsögnum.
Forstöðumenn frístundamiðstöðva Atli Steinn Árnason, Guðrún Kaldal, Helgi Eiríksson, Jóhannes Guðlaugsson og Selma Árnadóttir sátu fundinn undir þessum lið og gerðu grein fyrir umsögninni.
kl. 12.00 kom Snorri Jóelsson starfsmannastjóri ÍTR á fundinn.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð skorar á borgarráð að draga fyrirliggjandi tillögur starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla grunnskóla og frístundaheimila til baka. Þess í stað verði tekið upp stóraukið samráð við foreldra, starfsfólk og stjórnendur í hagræðingarvinnu þeirri, sem nú stendur yfir hjá Reykjavíkurborg. Í þessu skyni verði skipaður nýr starfshópur, til greiningar hagræðingartækifæra með kjörnum fulltrúum allra flokka, sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur auk eftirtaldra hagsmunaaðila: Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Kennarafélag Reykjavíkur, Starfsfólk í leikskólum, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag skólastjórnenda í Reykjavík, Starfsfólk frístundaheimila, Forstöðumenn frístundamiðstöðva.
Frestað.
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja til eftirfarandi tillögu:
Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs í dag kom fram að formaður ráðsins hefði sent Félagi skólastjórnenda í Reykjavík skýr skilaboð fyrir hönd starfshóps um samþættingu skóla og frístundaheimila, þar sem sagt er að skólastjórinn verði óyggjandi yfirmaður á hverjum stað og muni bera ábyrgð á faglegri og rekstrarlegri stjórn skólans eftir breytingar. Skilaboðin hafa verið send á alla skólastjórnendur og skólaráð og því ljóst að umsagnir skólaráðanna munu taka mið af þessari túlkun formannsins.
Þar sem formaðurinn hefur engar heimildir til að túlka vilja eða sýn starfshópsins sem enn er að störfum og hefur engar ákvarðanir tekið, er nauðsynlegt að þessi skilaboð verði afturkölluð með skýrum hætti gagnvart skólastjórnendum. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir því að beina því til borgarráðs að lengja umsagnarfrest skólaráða svo þeim gefist kostur á að endurskoða umsagnir sínar með tilliti til atburða dagsins.
Frestað.
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja til eftirfarandi bókun:
Í ljósi frestunar á tillögunni óska fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks eftir að haldinn verði aukafundur í ráðinu strax eftir helgi.
kl. 12.40 véku Ingvar Sverrisson og Jóhannes Guðlaugsson af fundi
kl. 13.20 vék Guðrún Kaldal af fundi.
kl. 13.40 vék Sóley Tómasdóttir af fundi.
Fundi slitið kl. 13.55.
Eva Einarsdóttir
Diljá Ámundadóttir Eva Baldursdóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Geir Sveinsson