Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 247

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 16. júní var haldinn 247. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Hofi og hófst kl. 12:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Unnsteinn Jóhannsson varamaður fyrir Evu Einarsdóttur, Dóra Magnúsdóttir, Þorgerður Laufey Diðriksdóttir varamaður fyrir Tomasz Chrapek, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason varamaður fyrir Kjartan Magnússon og Trausti Harðarson. Einnig:  Benóný Harðarson varamaður fyrir Hermann Valsson VG, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Steinþór Einarsson skrifstofutjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá síðasta fundi:

Lagt er til að skilyrtur verði sumarstarfa styrkur til íþrótta-og æskulýðsfélaga Reykjavíkurborgar. Íþrótta-og æskulýðsfélög í borginni sem fá sumarstarfsmenn á launum frá Reykjavíkurborg verði að ráða 50% kk og 50% kvk í þau stöðugildi sem þeim er úthlutað sem styrk frá borginni til sumarstarfa.

Lögð fram eftirfarandi breytingartillaga:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar beinir því til þeirra íþrótta- og æskulýðsfélaga Reykjavíkurborgar sem hljóta styrki til sumarstarfa að kynjahlutföll ráðninga verði svo jöfn sem auðið er, þvert á öll kyn, almennt sem innan deilda.

Samþykkt samhljóða.

2. Lagt fram að nýju bréf Taflfélags Reykjavíkur dags. 26. apríl sl. vegna viðbótarstyrks.

Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR dags. 8. júní sl.

Tillaga sviðsstjóra samþykkt.  Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarina sat hjá.

3. Lögð fram fyrirspurn frá hverfisráði Breiðholts um sumaropnun sundstaða.

Lögð fram eftirfarandi bókun meirihluta:

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs og Pírata beina því til sviðsins að skoða möguleikann á því að lengja opnunartímann í Breiðholtslaug í tengslum við opnun líkamsræktarstöðvar þar.

Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að borgarráð samþykki að veiti íþrótta- og tómstundasviði auka fjármagn til að hægt verði að lengja opnunartíma sundlauga bæði á kvöldin og um helgar í sumar.

Greinargerð: 

Til að efla almenningsíþróttir og ýta undir hreyfingu og útivist almennings er lykilatriði að almenningur hafi gott aðgengi að íþróttamannvirkjum borgarinnar á þeim tíma þegar fólk og fjölskyldur eiga frítíma. Sundlaugargestum fer stöðugt fjölgandi, í þeim hópi eru bæði borgarbúar og gestir. Með lengri opnunartíma yrði ekki eingöngu komið til móts við óskir borgarbúa heldur allra þeirra ferðamanna sem sækja borgina heim.

Frestað.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

En og aftur kemur beiðni frá borgarbúum um lengingar á opnunartímum sundlauga í borginni. Nauðsynlegt er að meirihluti borgarstjórnar Samfylkingin, Vinstri grænir, Píratar og Björt framtíð bregðist við óskum borgarbúa og ekki bara tali um möguleika á lengingar á opnunartímum sundlauga heldur lengi opnunartíma á sundlaugum borgarinnar í einhverju formi til að koma móts við borgarbúa og það strax í sumar.

4. Lagt fram bréf ÍBR dags. 24. maí vegna battavalla.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa meirihluta:

Með tilvísun í bréf ÍBR óska fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs og Pírata eftir því að teknar verði upp viðræður við Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar og Umhverfis- og skipulagsráð um viðhald og uppsetningu vallanna.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Ljóst er að ástand sparkvalla og battavalla í borginni er víða verulega ábótavant. Brýnt er að farið verði í endurbætur og lagfæringar sem allra fyrst til að minnka áhættu á slysum. Þá er einnig ljóst að lagfæra þarf víða körfuboltavelli og setja net í körfurnar. Til að ýta undir hreyfingu og útivist borgarbúa er nauðsynlegt að halda vel við þeirri íþróttaaðstöðu sem borgin býður borgarbúum upp á.

5. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa dags. 13. júní sl. með umsögn vegna inniaðstöðu fyrir tennis.

6. Rætt um reykvíska keppendur á Ólympíuleikum 2016.

7. Lögð fram dagskrá 17. júní.

8. Rætt um skýrsluna „Laugarnar í Reykjavík, framtíðarsýn til 20 ára“.

9. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa meirihluta:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að kannað verði hvort unnt sé að koma upp sjálfssölum í íþróttamannvirkjum borgarinnar með heilsusamlegra úrvali en fyrir er, og jafnframt hjá íþróttafélögum sem reka sín mannvirki sjálf. Enn fremur verði óskað eftir samstarfi við ÍBR um málið.

Frestað.

10. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa meirihluta:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að við hönnun opinna rýma, almennings- og útivistarsvæða, hvort sem um endurgerð rými er að ræða eða ný, verði hugað að því hvernig rýmin geti einnig nýst iðkendum götuíþrótta, s.s. hjólabrettasports, parkour, hlaupahjólum og fleiru í þeim dúr.

Frestað.

11. Lögð fram eftirfarandi tillaga ráðsins:   

ÍTR óskar eftir að kannað verði hvort hægt sé að framlengja opnunartíma Ylstrandarinnar um eina klst eða til 20.00 á næsta ári án þess að auka rekstrarkostnað, t.d. með því að breyta vaktafyrirkomulagi og/eða að stytta opnunartíma veitingasölu.Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að mikil eftirspurn er eftir lengri opnun á björtum sumarkvöldum og mikið um að fólk sem vinnur til ca kl 17:00 og börn sem eru á námskeiðum fram eftir degi, geti ekki nýtt sér bað- og strandferð snemmkvölds þar sem staðnum er lokað kl 19:00.

Frestað.

12. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Lagt er til að málaflokkurinn, ábyrgð, uppbygging,viðhald og umsjón íþróttavalla á skólalóðum grunnskóla í Reykjavík verði færður ásamt fjármagni til viðhalds og uppbygginga til ÍTR. Hér er átt við battavelli/knattspyrnuvelli, körfuboltavelli, handboltavelli og annað sem telst til íþróttavalla á grunnskólalóðum innan Reykjavíkur. Innan borgarkerfisins virðist þessir skólaíþróttavellir verða utangátta er kemur að ábyrgð og reglulegu viðhaldi/utanumhaldi og því nauðsynlegt að málaflokkurinn sé færður til þess sviðs innan borgarkerfisins sem hefur yfirábyrgð íþróttamannvirkja innan Reykjavíkurborgar.

Frestað. 

13. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa meirihluta:

ÍTR beinir því til sviðsstjóra að skoða möguleika á því að hafa lengri afgreiðslutíma einstakra lauga þegar fyrirsjáanlegir eru sólar- og góðviðrisdagar um helgar.

Samþykkt samhljóða.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar sjálfstæðismanna telja að það sé jákvætt skref að reynt verði að hafa sundlaugarnar opnar lengur á góðviðrisdögum í sumar en hefðu heldur kosið að séð hefði verið til þess að opnunartíminn hefði verið almennt lengdur bæði á kvöldin og um helgar en með því móti hefði verið betur komið til móts við óskir borgarbúa.

Fundi slitið kl. 13:50.

Þórgnýr Thoroddsen

Dóra Magnúsdóttir Unnsteinn Jóhannsson

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir Marta Guðjónsdóttir

Björn Gíslason Trausti Harðarson

 

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 16.6.2016 - prentvæn útgáfa