Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 236

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2015, föstudaginn 11. desember var haldinn 236. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Laugardalshöll og hófst kl. 16:40. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsson formaður, Eva Einarsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Tomasz Chrapek, Marta Guðjónsdóttir og Trausti Harðarson. Einnig:  Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Frímann Ari Ferdinardsson ÍBR og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf KSÍ dags. 4. nóv. sl. varðandi breytingar á reglugerðum um knattspyrnuvelli.

2. Lagt fram svar Skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina 21. ágúst sl. um skólasund.

Lögð fram efirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Framlögð samantekt sýnir að ófremdarástand ríkir í sundkennslu í barnmörgum íbúahverfum austarlega í Reykjavík vegna aðstöðuskorts þar sem fjöldi grunnskólanemenda í Grafarvogi og Grafarholti þarf að sækja skólasund út fyrir sitt heimahverfi. Þá þurfa nemendur Dalskóla í Úlfarsárdal að sækja skólasund í annað sveitarfélag. Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, nauðsyn þess að bygging sundlaugar í Grafarholti-Úlfarsárdal sé efst á forgangslista Reykjavíkurborgar eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lagt til. Helsta forgangsmál núverandi borgarstjórnarmeirihluta er hins vegar að byggja viðbótarsundlaug við Sundhöll Reykjavíkur í miðborginni þótt í því hverfi sé enginn skortur á sundlaugarmannvirkjum til sundkennslu grunnskólanema. Er þetta skólabókardæmi um forgangsröðun borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.

3. Lagt fram bréf öldungaráðs dags. 19. nóv. sl. þar sem óskað er eftir að íþrótta- og tómstundaráð sendi til ráðsins erindi til umsagnar sem snúa að málefnum eldri borgara.

4. Lagt fram bréf félagsins Studiamus vegna aðildar að frístundakortinu.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir umsögn ÍTR.

5. Lagt fram afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits  Reykjavíkur  dags. 25. nóv. sl. til skóla- og frístundaráðs v. dekkjarkurls á gervigrasvöllum.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur  frá 25. nóvember sl. kemur fram mun eindregnari afstaða gegn því að svart úrgangsdekkjakurl verði notað sem fyllingarefni í gervigrasvelli í borginni en birtist í eldri umsögn Heilbrigðiseftirlitsins frá árinu 2010. Einnig kom fram fyrr á fundinum að í nýsamþykktri útgáfu af leyfisreglugerð Knattspyrnusambands Íslands er skýrlega tekið fram að kurl í gervigrasi skuli vera af viðurkenndri gerð, ljóst að lit og án efna sem teljist skaðleg heilsu eða mengandi. Þá hafa ýmsir aðilar, t.d. Læknafélag Íslands, ítrekað varað við notkun úrgangsdekkjakurls og bent á að í því séu efni sem geti verið skaðleg heilsu manna, ekki síst barna og ungmenna.

Þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar lægju allar fyrir áður en fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í síðustu viku, kusu borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,  Pírata og Vinstri grænna að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um sérstaka fjárveitingu til endurbóta á umræddum úrgangs-dekkjakurlsvöllum með umhverfis- og heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi. Á sama tíma samþykkti borgarstjórnarmeirihlutinn hins vegar fjárveitingar til margvíslegra framkvæmda sem telja má ónauðsynlegar eða a.m.k. ekki aðkallandi.

6. Lagt fram bréf SFS dags. 26. nóv. sl. vegna reglna í skóla- og frístundastarfi um kynningar, auglýsingar og gjafir.

Frestað.

7. Lögð fram umsögn skipulagsstjóra dags. 30. nóv. sl. vegna frisbígolfvallar á Gufunesi.

Kl. 17:05 kom Steinþór Einarsson skrifstofustjóri á fundinn. 

8. Lagt fram bréf fjármálastjóra dags. 27. nóv. sl. vegna fjárhagsáætlunar 2016.

9. Rætt um hagræðingu í rekstri ÍTR.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 3. des. sl. vegna gjaldskrármála hjá ÍTR.

11. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. nóv. sl. – Frítt í Fjölskyldu- og húsdýragarð.

Frestað.

12. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. nóv. sl. – Bæta aðstöðu til íþróttaaðstöðu hjá KR.

Frestað.

13. Lögð fram gögn til umræðu frá styrkjahópi íþrótta- og tómstundaráðs vegna úthlutunar styrkja 2016.

kl. 17:37 kom Kjartan Magnússon á fundinn.

14. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Til að sjá nýtingu og /eða meta þörf á byggingum  á áhorfendastúkum hjá knattspyrnudeildum íþróttafélaga í Reykjavík er óskað eftir áhorfendatölum á alla heimaleiki allra knattspyrnufélaga borgarinnar sem spiluðu í Pepsídeildinni og 1. deild karla nýliðið sumar þ.e. bæði áhorfendatölur yfir deildar, bikarleiki og aðra stórleiki. 

15. Lögð fram eftirfarandi tillaga íþrótta- og tómstundaráðs:

Íþrótta- og tómstundarráð Reykjavíkur vill skora á Samtök íþróttafréttamanna, sem standa árlega að vali Íþróttamanns Íslands að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að bæði verði fyrir valinu Íþróttamaður og Íþróttakona Íslands.

  Síðustu ár hefur það tíðkast í Reykjavík að velja bæði Íþróttamann og Íþróttakonu Reykjavíkur og hefur það gefið góða raun.

Fyrirmyndir hvetja ungt fólk til frekari dáða og því mikilvægt að bæði kynin séu sýnileg börnum og ungmennum. Rannsóknir sýna að ungar stúlkur hætta mun frekar sinni íþróttaiðkun og kannski má að einhverjum hluta tengja það við minni sýnileika kvenna í fjölmiðlum.

Fundi slitið kl. 18:10.

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Dóra Einarsdóttir

Tomasz Chrapek Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir Trausti Harðarson

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 11.12.2015 - prentvæn útgáfa