Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 235

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2015, föstudaginn 13. nóvember var haldinn 235. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Hofi Höfðatorgi og hófst hann kl. 12:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsson formaður, Eva Einarsdóttir varaformaður, Dóra Magnúsdóttir,    Marta Guðjónsdóttir og Aðalsteinn Sverrisson varamaður fyrir Trausta Harðarson. Einnig:  Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Kári Arnarsson fulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Frímann Ari Ferdinardsson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. nóv. sl. þar sem fram kemur að Hafrún Kristjánsdóttir taki sæti Láru Óskarsdóttur sem varamaður í íþrótta- og tómstundaráði. 

2. Sviðsstjóri sagði frá stöðu varðandi vinnu við fjárhagsáætlun.

3. Lagt fram bréf  stjórnar Íslenska Frisbígolfsambandsins ódags. varðandi skipulag Gufunessvæðisins.

Vísað til umhverfis-  og skipulagsráðs.

kl. 12:20 kom Tomasz Chrapek.

4. Lagt fram bréf Keilusambands Íslands dags. 14. apríl sl. með ósk um styrk vegna Evrópumóts unglinga í keilu 2016.

Vísað til vinnuhóps um styrki.

5. Lagt fram bréf Læknafélags Íslands dags. 26. okt. sl. þar sem fram kemur að á aðalfundi LÍ hafi verið ályktað um dekkjarkurl. 

6. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 2. október sl. 

Íþrótta- og tómstundaráð skorar á borgarráð og SEA að samþykkja fjárveitingu til endurbóta á þeim gervigrasvöllum í borginni, sem eru með dekkjarkurl á yfirborði, og setja þess í stað viðurkennt gæðagras og gúmmí, sem stenst ýtrustu heilbrigðis- og umhverfiskröfur.

Vísað til borgarráðs.

Lögð fram eftirfarandi bókun fullrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði þakka starfsmönnum ÍTR fyrir mikla og góða vinnu við upplýsingjagjöf og öflun gagna vegna gervigrasvalla síðustu vikurnar. Einnig er þakkað fyrir þá ýtarlegu og góðu greiningu, sem nú liggur fyrir um kostnað við að skipta um gervigras á þeim völlum sem nauðsynlegt er að lagfæra, m.a. til að losna við svart gúmmí af völlunum. Skorað er á borgarráð að veita fé til verksins svo hægt verði að ráðast í átak við endurnýjun gervigrass á nokkrum slíkum völlum á næsta ári. Ákjósanlegt er að bjóða út endurnýjun nokkurra valla í senn enda sýnir reynslan að þannig er unnt að lækka framkvæmdakostnað verulega miðað við kostnaðaráætlun. Ljóst er að mörg önnur sveitarfélög þurfa að ráðast í endurnýjun slíkra valla og er skorað á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar að efna til samstarfs við þau um verkefnið eftir því sem kostur er í því skyni að lækka kostnað enn frekar, t.d. með sameiginlegu útboði og samnýtingu verkfræðivinnu. 

 7. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 9. nóv. sl. ásamt kostnaðaráætlun vegna gervigrasvalla sbr. 3. liður fundargerðar frá 2. okt. sl. 

8. Lagt fram svar sviðsstjóra dags. 5. nóv. sl. vegna fyrirspurnar um yfirbyggt knattspyrnuhús.

9. Lagt fram svar SFS dags. 30. okt. sl. vegna fyrirspurnar um frístundastrætó.

10. Skipan vinnuhóps vegna styrkja. Samþykkt að Þórgnýr Thoroddsen, Trausti Harðarson, Dóra Magnúsdóttir og Hafrún Kristjánsdóttir skipi vinnuhópinn.

11. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi 16. okt. sl.:

Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til KFUM og –K til að unnt verði að ljúka byggingu svefnskála í Vatnaskógi. Framkvæmdir hófust 2007 og hefur Reykjavíkurborg þegar veitt styrk til verksins en vegna áfalla í efnahagslífi, brugðust aðrar leiðir við fjármögnun þess að töluverðu leyti. Verkið er þó vel á veg komið en umtalsverð vinna eftir innanhúss. Hinn nýi skáli mun fullnægja öllum kröfum eldvarna- og heilbrigðiseftirlits en eldra húsnæði er ábótavant hvað slíkar kröfur varðar. Á hverju ári dvelja þúsundir barna og ungmenna í Vatnaskógi og taka þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi.

Tillagan er felld með 4 atkvæðum meirihluta gegn 3 atkvæðum minnihluta.

12. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. júlí sl. með ósk um umsögn ráðsins um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar. 

Lögð fram eftirfarandi umsögn:

Íþrótta- og tómstundaráð telur mikilvægt að farið sé reglulega yfir þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar og hún rýnd til gagns. Þá telur ráðið einnig mikilvægt að mótuð sér skýr þjónustustefna og aðgerðaráætlun henni tengd. Það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg skilgreini sig sem þjónustufyrirtæki.Það er einnig fagnaðarefni að lagt er til að auka verulega rafræna þjónustu hjá Reykjavíkurborg en á sama tíma verður að gæta þess að annað aðgengi að þjónustunni sé til staðar hjá stofnunum borgarinnar. Við kortlagningu og gerð skýrslunnar telur ráðið að heppilegra hefði verið að fulltrúar allra sviða hefðu setið í starfshópnum. Augljóst er að tillögur að sviðsmyndum þarf að útfæra betur og kostnaðarmeta. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp eru ekki nægilega vel útfærðar eins og staðan er og margt er óskýrt í þeim er varðar sviðin. Skýra þarf betur hver hefur með höndum stefnumótun í málaflokkum og sýna þarf betur fram á að rekstrarkostnaður verði ekki meiri en í núverandi fyrirkomulagi. Ef hugmyndin er sú að brjóta upp stofnanir og setja undir mismunandi hverfastjórnir er ljóst að það mun kalla á endurskoðað fyrirkomulag starfsmannahalds.

Samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta.  Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina hafnaði umsögninni.

Fulltrúi Framsókknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallavina vill benda á að betri rökstuðning þarf til að hægt sé að styðja niðurstöðu skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar. Það er mat fulltrúa að skýrslunni beri að hafna í einu og öllu.

Á blaðsíðu 31 segir í skýrslunni “Hópurinn hafði hvorki tíma né fjármagn til að skoða fyrirmyndir (erlendar) öðruvísi en með leit á netinu og samtölum við aðila í nærumhverfi.” Þrátt fyrir þessa litlu eða enga vinnu sem fór í að kynna sér erlendar fyrirmyndir sem t.d. hefði verið mátt  gera með því að hafa samband við erlenda embættismenn fyrirmyndaborga með símtali, tölvupósti eða heimsókn. Fullyrða skýrsluhöfundar á kynningu að erlendar fyrirmyndir sýni að 25 – 30 þúsund manna þjónustueiningar sé besta lausnin og það án rökstuðnings í skýrslunni. Á blaðsíðu 33 gerir hópurinn að tillögu sinni að farin verði svokölluð blönduð leið, sviðmynd 5. Þar er slegin upp mjög óljós texti um skilvirka þjónustu án þess nokkuð að skilgreina hvaða þjónustu! Sviðsmyndir sem lagðar erum fram eru einungis 5 og ekkert kemur fram hvort fleiri tillögur að sviðsmyndum hefðu komið fram. Fulltrúa finnst nauðsynlegt að fleiri sviðsmyndir séu skoðaðar og kallaðar fram. Á blaðsíðu 35 kemur svo langur kafli sem lýsir hvernig valdsvið nýs risaþjónustuvers verði byggt upp “þjónustuver hverfishluta eru sjálfstæð í starfi en falla undir einn aðila sem ber megin ábyrgð á stefnumotun, leggur línurnar á sviði gæðamála, metur gæði þjonustu og framkvæmd verkefna og leiðir fjárhagsáætlanagerð. Samræmingaraðili hefur svigrúm til að flytja fjármuni og starfsfólk á milli borgarhluta innan málaflokka og getur þannig brugðist við með viðeigandi hætti við breyttum ytri og innri aðstæðum.”

Fulltrúi upplifir að hér sé verið að skapa bákn, eitt risastórt, miðstýrt, óskilgreint þjónustuver. Fulltrúi Framsóknar og flugvallavina leggur til að skýrslunni sé hafnað og fengnir verða utanaðkomandi ráðgjafar til að vinna verkefnið frá A til Ö. 

13. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra MOF dags. 3. sept. sl. með ósk um umsögn ráðsins um endurskoðaða aðgerðaráætlun ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020.

Lögð fram eftirfarandi umsögn:

ÍTR er í mikilvægu hlutverki í Reykvískri ferðaþjónstu, þá sérstaklega í tengslum við rekstur og markaðssetningu sundlauga borgarinnar og æskilegt væri að horfa til samstarfs við önnur sveitarfélög á þeim vettvangi. ÍTR tekur undir þá áherslu á aðgerðaáætluninni að efla samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgerðir í flokkunum Vetrarborgin og Heilsuborgin snúa margir að ÍTR, og þá ekki síst sundlauganna vegna. ÍTR tekur undir með því að efla upplifunarferðamennsku á vettvangi sínum, t.d. með sjósundi og vetraríþróttaviðburðum (sbr. gamlárshlaup ÍR), en saknar þess að sundlaugunum séu gerð sérstaklega skil í aðgerðum í kaflanum um vetrarborgina í ljósi þess hversu stórt hlutverk þær munu líklega á endanum spila í vetrartúrisma. Hvað kaflann um heilsuborgina varðar fagnar ÍTR því sérstaklega að lagt er til að efla ímynd, aðgengi og sérstöðu baðstaða borgarinnar, bæði Nauthólsvíkur sem og sundlauga. Enn fremur telur ÍTR að samstarfi um að ná stórum íþróttaráðstefnum til landsins verði fagnað af aðilum í íþróttageiranum. En síðan er hugmyndin um að gera ferðamönnum kleift að stunda íþróttir í hópi heimamanna svolítið sérstök og verður forvitnilegt að heyra hvaða hugmyndir eru á lofti um útfærslu á þeirri hugmynd, ef einhverjar eru. Altént hljómar sú hugmynd eins og eitthvað sem er fallegt á blaði einvörðungu.

ÍTR telur að með þessum aðgerðum gætu tekjur sviðsins aukist. Hér eru nokkrir punktar í viðbót um málið.

• Staka gjaldið í sund hækkaði nýverið og nýjar reglur um notkun afsláttarkorta munu enn fremur vonandi skila auknum tekjum.

• Aukin aðsókn að Nauthólsvík mun einnig skila sér í kassann þegar heilsársgjaldtaka hefur tekið gildi.

• Skoðandi væri að auka samstarf milli sundlauga á höfuðborgarsvæðinu öllu í kynningarskyni.

• Kanna hvernig efla megi aðra starfsemi sem heyrir undir ÍTR í þágu ferðamanna í borginni í samstarfi við Höfuðborgarstofu og ÍBR svo sem starfsemi sem heyrir undir íþróttafélögin, fjölskyldu- og húsdýragarðinn, skíðasvæðin og fleira í þeim dúr.

• Þróun heilsuborgarinnar Reykjavík gæti vel bæði skilað sér jafnt í þágu íbúa sem ferðamanna.

Samþykkt með 6 atkvæðum.  Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá.

14. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. okt. sl. – Sundlaugavindur í Sundhöllina.

15. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. okt. sl. – Opna Vesturbæjarlaugina kl. 08:00 um helgar eins og var áður.

Hugmyndin hlýtur ekki stuðning.

kl. 13:17 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Björn Gíslason tók sæti hennar.

16. Lögð fram aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum 2015-2019.

Fundi slitið kl. 13:30.

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Tomasz Chrapek

Dóra Magnúsdóttir Aðalsteinn Sverrisson

Kjartan Magnússon Björn Gíslason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 13.11.2015 - prentvæn útgáfa